Þráinn Kolbeinsson, ljósmyndari og útivistarblaðamaður, hefur verið ráðinn nýr ritstjóri útivistartímaritsins Úti og vefsíðunnar vertuuti.is. Fyrir utan sinn eigin rekstur í framleiðslu markaðsefnis hefur Þráinn verið reglulegur penni fyrir tímaritið síðastliðin tvö ár. Það er óhætt að segja að ferskur blær fylgi innkomu Þráins og búast má við mörgum spennandi nýjungum á miðlum Úti á næstu misserum.
Stofnendur Úti eru þeir Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson og hafa þeir ritstýrt blaðinu hingað til, en stíga nú til hliðar og taka sæti í ritstjórn. Úti hefur komið út síðan 2017, íslensku útivistarfólki til yndisauka, og 12. tölublað er nú á leið í prentun, stútfullt af efni um útivist, áskoranir og ævintýri í náttúrunni. Á meðal efnis í næsta blaði er einlægt viðtal við utanvegahlauparann Þorstein Roy, saga Elísabetar Sólbergsdóttur og sigur hennar á 100 hæstu tindum Íslands, persónulegar áskoranir þríþrautarkempunnar Katrínar Pálsdóttur, dótaklifur í Lófóten, níu daga skíðaferð yfir óbyggðir Grænlands, fræðsla um hreyfingu á og eftir meðgöngu og margt, margt fleira. Allt þetta og meira til í 12. tölublaði Úti sem ritstjórn leggur nú, sveitt, lokahönd á í þessum töluðu orðum.
Til að fá sjóðheitt blaðið sent heim að dyrum, á lægsta mögulega verði, mælum við með því að gerast áskrifandi og styðja þannig við útgáfu tímaritsins.
Ljósmynd: Niklas Söderlund.