Möguleikarnir á margra daga gönguleiðum á Íslandi eru endalausir.  Hér eru sjö vinsælar og vel þekktar leiðir sem allar eiga það sameiginlegt að það tekur nokkra daga að ljúka þeim og þær eru á flestra færi.

 

Laugavegurinn – 55 km

Það er engin tilviljun að þetta er langvinsælasta gönguleið landsins enda lendir hún oft á listum yfir flottustu göngustíga í heimi. Fjölbreytt landslag leiðarinnar, sem hefst í um 600 metrum yfir sjávarmáli, er flestum sem ganga Laugaveginn umtalsefni. Líparítfjöll Torfajökulsvæðisins eru í öllum litbrigðum og mosagræn fjöllin á svörtum Mælifellssandinum gera þetta að sjónrænni upplifun sem skilur enga eftir ósnortna. Sumir ganga þessa leið á hverju ári.   Hér er nákvæm leiðarlýsing. Á meðan gengið er mælum við með því að nota smáforritið Wapp – Walking App, þar sem Laugaveginum, og fullt af öðrum gönguleiðum, er lýst með fróðleik um náttúru og sögu.

————

Kjalvegur hinn forni – 40 km

Hér liggur leiðin um forna þjóðleið yfir hálendi Íslands. Kjalvegurinn er þrunginn sögum af hrakningum í mannskaðaveðrum en býður á fallegum sumardegi upp á stórkostlegt útsýni í allar áttir. Langjökull í vestri og Kerlingafjöll og Hofsjökull í austri ramma inn þægilegar dagleiðir með litlum hækkunum milli Hveravalla og Hvítárnes. Þetta er frábær leið fyrir byrjendur í lengri gönguferðum og tiltölulega gott að fá gistingu í skálum. Hér er nákvæmari leiðarlýsing.

———–

Jökulsárgljúfur – 35 km

Ganga sem hefst á jafn stórfenglegum stað og Dettifoss hlýtur að toppa sig strax í upphafi, eða hvað?  Nei, Jökulsárgljúfur eru ótrúlega fögur og ekki eru verðlaunin síðri sem taka við þegar komið er niður í Ásbyrgi. Tjaldstæðið í Vesturdal er með þeim flottari á landinu. Birki, klettar, hellar og merktar gönguleiðir um allt. Maður býst hálfpartinn við að hitta Adam og Evu því þetta er eins og aldingarðurinn víðfrægi. Hér verðum við vitni að afrakstri hamfaraflóðs af stærðargráðu sem ekki hefur sést síðan landið byggðist en gríðarstór jökulhlaup gerðu Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi að því mikilfenglega sjónarspili sem þau eru. Þessi leið er stundum kölluð Gljúfrastígur. Hér er lýsing.

———-

Víknaslóðir – 50 km

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs á mikinn heiður skilinn fyrir þá uppbyggingu sem félagið hefur staðið fyrir á fjörðunum á milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar Eystri. Glæsilegir fjallaskálar geta hýst fjöldann allan af göngufólki við góðan kost. Stígar eru vel merktir og umhverfið fallegt og forvitnilegt. Þarna eru miklar mannvistaminjar á hverju strái, nálægðin við sjóinn gerir gönguna áþekka því að vera á Ströndum en samt er eitthvað öðruvísi. Þarna er enn tiltölulega fámennt. Við segjum: farið þangað áður en allir aðrir gera það. Hér er góð leiðarlýsing, þar sem byrjað er í Borgarfirði eystri og endað á Seyðisfirði.

———–

Lónsöræfi – 60 km

Þetta er eiginlega Laugavegurinn á Austurlandi. Frábær og fjölbreytt leið í skjóli mikilfenglegrar fjallasýnar. Þarna eru líparítfjöll og jökultindar á skemmtilegri leið frá Snæfelli sem er hæsta fjall utan jökla á Íslandi niður í Lónsöræfin þar sem Jökuláin er þveruð á göngubrú á síðustu dagleiðinni. Það sama á við þarna og á Víknaslóðum. Það er ekki ýkja mikið af göngufólki búið að uppgötva þessa leið. Hún kemur skemmtilega á óvart. Hér er meira efni um Lónsöræfi.

———-

Strútsstígur – 75 km

Útivist hefur byggt upp þessa frábæru leið sem liggur frá Hólaskjóli í austri og vestur í Hvanngil. Þarna eru gríðarlega fallegir fossar og rómuð fjallasýn. Í Hólmsárbotnum er Strútslaug sem býður uppá skemmtilegasta villibað á Íslandi. Skálarnir við Strút og Álftavatnakrók eru hreint út sagt dásamlegir og leiðin öll er draumfögur. Auðvelt er að tengja sig inní aðrar gönguleiðir frá Hvanngili eins t.d. að ganga þaðan niður í Þórsmörk eða uppí Landmannalaugar eða halda í bæinn með rútu. Hér leggjum við til að gangan nái alla leið frá Hvanngili að Sveinstindi, en líka er hægt að láta nægja að ganga frá Hólaskjóli að Hvanngili, eins og hér er lýst.

———-

Hellismannaleið – 55 km

Þetta er tiltölulega nýleg leið sem teygir sig í 55 kílómetra í vestur frá Landmannalaugum til Rjúpnavalla í Landsveit. Fegurð Fjallabaks er slík að það var orðið vel tímabært að stika og kynna nýja leið til viðbótar við þær sem fyrir eru á svæðinu. Hér er sami upphafsstaður og í Laugavegsgöngu en svo skiptast leiðir áður en Laugavegsfarar halda á Brennisteinsöldu. Hér er farið yfir grónari hluta fjallabaks en mikil náttúrufegurð er á Dómadal og við Landmannahelli. Svo er auðvitað hægt að ganga hana í hina áttina og tengja hana við Laugaveginn ef fólk vill vera viku á fjöllum. Hér er leiðarlýsing.