Rífa þarf krakkana (og fullorðna) upp úr símunum og ipöddunum. Ísland er eitt stórt leiksvæði fyrir fólk á öllum aldri en hér stingum við upp á 20 stöðum sem okkur þykja einstaklega vel til þess fallnir að ferðast til og upplifa með börnunum. Þröngar gjár, gígar, leynifossar og dalir. Við förum hringinn og byrjum á Reykjanesinu:
1. Lambafellsgjá
Lambafellsgjá á Reykjanesi er þröng og djúp. Hún er því mikil ævintýragjá. Keyrið að Höskuldarvöllum og þaðan að Trölladyngju. Leggið við Eldborg. Gangið síðan austur í átt að Lambafelli. Gangan tekur um klukkutíma. Upplagt að taka með sér málband og mæla hvað gjáin er breið.
——–
2. Helgafell og Heiðmörk
Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð er vel viðráðanlegt fjall fyrir yngri aldurshópa, en samt nógu hátt til að allir fyllist stolti þegar upp er komið. Á leiðinni eru alls kyns flott berg til að klifra í. Á eftir má svo njóta Heiðmerkur í allri sinni dýrð. Þangað er vitaskuld hægt að fara aftur og aftur með börnin á alls kyns skemmtilega staði, eins og til dæmis í Maríuhella.
——–
3. Fótabaðið við Gróttu.
Úti við Gróttu á Seltjarnarnesi er fótabað í fjörunni sem listakonan Ólöf Nordal bjó til. Það er ágætis skemmtun að leita að fótabaðinu. Svo er bara að rífa af sér skóna og sokkana, bretta upp buxurnar og dífa fótunum ofan í. Ef það er fjara er gaman að labba út að Gróttuvita. Passið að vera ekki það lengi við vitann að það flæði að. Þarna er líka gaman að skoða lífið í fjörunni, og fuglana.
——–
4. Fossatún
Við Fossatún hjá Grímsá í Borgarfirði er Tröllagarðurinn. Þar er hægt að ganga um og finna tröllin sem búa í náttúrunni. Á eftir er um að gera að njóta leiktækjanna sem þarna eru.
——–
5. Grábrók og Glanni
Uppi á Grábrók við Bifröst liggur greiðfær göngustígur. Grábrók er gígur sem gaus fyrir um 3400 árum. Gígurinn sést vel þegar upp er komið. Grábrók er skemmtilegt nafn. Það gæti verið nafn á skessu. Eftir Grábrók er upplagt að skoða fossinn Glanna í Norðurá og fá sér nesti í Paradísarlaut.
——–
6. Selirnir við Ytri-Tungu
Við eyðibæinn Ytri-Tungu á sunnanverðu Snæfellsnesi er fjara þar sem urmull af selum hefst jafnan við. Einkum er þar mikið af selum í júní og júlí. Stundum er erfitt að sjá þá, því þeir liggja oft kjurrir og eru ekki ósvipaðir á litinn og steinarnir.
——–
7. Sönghellir
Inni í Sönghelli við Arnarstapa á Snæfellsnesi er mjög skemmtilegt að syngja. Þar er bergmálið engu líkt. Á veggjunum er líka að finna fullt af eldgömlu kroti. Keyrið frá Arnarstapa upp veg 570 í átt að Snæfellsjökli. Eftir nokkra kílómetra komiði að hellinum. Syngið lög á leiðinni.
——–
8. Flatey á Breiðafirði
Ef leiðin liggur um Breiðarfjörð er um að gera að taka Baldur og stoppa í Flatey. Það er stórskemmtilegt að ganga um eyjuna, skoða gamla þorpið og í fjörunni sunnanmeginn er gamalt skipsflak sem börn geta prílað upp í.
———
9. Selárdalur
Í Brautarholti í Selárdal bjó listamaðurinn með barnshjartað, Samúel Jónsson. Selárdalur er afskekktur. Á leið um Vestfirði er þó vel þess virði að sýna börnunum kirkjuna hans Samúels og skúlptúruna. Á eftir er hægt að leika sér í hvítri fjörunni, eða ganga Selárdalsheiði ef allir eru í stuði, framhjá húsinu hans Gísla á Uppsölum.
———
10. Kjarnaskógur
Í Kjarnaskógi við Akureyri er vel hægt að gleyma sér með börnunum langt fram á kvöld, svo dögum skiptir. Þar eru leiktæki, skógarstígar, alls konar furðuverur og kjöraðstæður fyrir piknik og skemmtilega útileiki.
———
11. Dimmuborgir
Margir halda því fram að Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir eigi heima í Dimmuborgum við Mývatn. Dimmuborgir eru auðvitað heill ævintýraheimur þar sem endalaust má gleyma sér í kastölum, turnum, húsum og hellum hraunsins. Yfir nestinu má fræða börnin um jarðfræði Dimmuborga, sem er einstök.
———
12. Helgustaðanáma
Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma við Eskifjörð, fyrir austan. Akið til austurs úr Eskifirði, út fyrir Mjóeyri, þar til komið er að bílastæði. Þaðan er stutt ganga upp í námuna. Í námunni er enn fullt af silfurbergi sem er gaman að skoða, en alveg bannað að taka með sér. Þegar silfurbergið er borið að sólarljósi myndast flottir geislar.
———
13. Svartifoss og Bæjarstaðaskógur
Gangan upp að Svartafossi við Skaftafell er upplögð með börnum. Þar eru þægilegir stígar, ægifagurt stuðlaberg og hæsta fjall landsins í næsta nágrenni. Svo er hægt að ganga inn í Bæjarstaðarskóg að þessu loknu, sem er einhver flottasti villti birkiskógur á Íslandi.
———
14. Þakgil
Auðvitað er fullt af skemmtilegum stöðum til að tjalda á með börnin, en við ætlum að mæla með einum sérstaklega. Þakgil við Vík í Mýrdal er leynidalur, umkringdur mosavöxnum fjöllum á alla kanta. Á kvöldin er hægt að borða í helli.
———
15. Nauthúsagil
Nauthúsagil er ævintýralegt, þröngt gil með skemmtilegu vatnasulli sem endar hjá stórkostlegum fossi. Indiana Jones gæti ekki beðið um betra gil. Þið finnið það miðja vegu milli þjóðvegar 1 og Þórsmerkur.
———
16. Valahnjúkur í Þórsmörk.
Þetta er auðveld ganga upp frá skála Ferðafélags Íslands í Langadal, með stórkostlegu útsýni og möguleika á hringferð, sé gengið niður í Húsadal og þaðan í Langadal aftur. Á toppi Valahnjúks er úrvalsstaður fyrir myndatöku.
———
17. Gljúfrabúi
Fossinn Gljúfrabúi er rétt hjá Seljalandsfossi, bara minna frægur. Gangið inn í gljúfrið, prílið upp á steininn sem þar er, virðið fyrir ykkur dýrðina og verðið rennandi blaut. Svo er auðvitað gaman að bjóða börnunum upp á ferð á bak við Seljalandsfoss til að verða ennþá blautari. Alltaf gaman að fara á bak við foss.
———
18. Strokkur og Haukadalur
Fáir staðir í heiminum bjóða upp á gjósandi hver á nokkurra mínútna fresti. Geysir er frægur en Strokkur vinnur alla vinnuna. Það er um að gera að mæla hvað er langt á milli gosanna í Strokki. Svo er upplagt að fara í göngutúr og fá sér nesti í skóginum í Haukadal.
———
19. Fjaran við Eyrarbakka
Í fjörunni við veitingastaðinn Hafið bláa, við brúna yfir Ölfusá rétt hjá Eyrarbakka, má alveg gleyma sér í dágóða stund með krökkunum. Þar er hægt að safna kuðungum og skeljum og sandurinn býður líka upp á metnaðarfulla sandkastalagerð. Passið ykkur samt á hafinu.
———
20. Þingvellir
Ekki má gleyma Þingvöllum. Þar er hægt að þræða sig meðfram gjábökkum og rýna ofan í tært vatnið, leita að gömlum húsastæðum og fara yfir sögu lýðveldisins. Að ganga upp að Öxarárfossi er líka góð skemmtun. Svo getur verið gaman að telja tungumálin sem maður heyrir töluð af ferðafólki í Almannagjá.
Veistu um fleiri góða staði fyrir krakka? Sendu okkur línu: uti@vertuuti.is