Síðsumar og fram á haust er góður tími til fjallahjólreiða. Við segjum ágúst, september. Oft er veðrið hið ferskasta, þótt ögn kaldara sé í veðri, og eins eru færri á ferli á göngustígum. Þá er líka snjór eins mikið farinn og hann yfirleitt mun fara, áður en hann kemur aftur. Hér mælum við með fimm afbragðs fjallahjólaleiðum. Það er um að gera að græja sig upp og vinda sér í eina, tvær, þrjár, fjórar. Jafnvel fimm. Verið úti!


Fimmvörðuháls

25 km  – Uppsöfnuð hækkun: 1150 m.

Þessi margrómaða gönguleið er krefjandi á hjóli, en fegurðin og fjölbreytnin svíkur engan. Við leggjum upp frá Þórsmörk. Bera þarf hjólið talsvert fyrri hluta leiðarinnar eða þar til að komið er að gígunum Magna og Móða. Þar taka við mjög þétt og skemmtileg einstigi sem nýtast sem frábærir hjólastígar. Frá Baldvinsskála tekur við grófur malarvegur að vaðinu þar sem farið er yfir göngubrú. Þaðan er hægt að velja um að taka fjallveginn áfram niður að Skógafossi eða göngustíginn meðfram Skógárgljúfri. Við sýnum síðari leiðina hér á kortinu.

Við mælum með að fara þessa leið í lok ágúst fram í lok september. Fram að því getur verið snjóþungt efst á hálsinum og jafnfram mikið af göngufólki á stígunum.


Háifoss

20 km – Uppsöfnuð hækkun: 400 m

Þetta er ógnarskemmtilegur hringur í Þjórsárdal. Við mælum með að byrja hann við skálann Hólaskóg og hjóla þaðan malarveginn upp að Háafossi, sem er svolítið erfitt klifur og kemur blóðinu vel á hreyfingu. Verðlaunin eftir puðið eru ekki slök: Náttúruperlan Háifoss. Þaðan liggur síðan stikaður stígur niður með Fossá, sem margir segja einu skemmtilegustu hjólaleið landsins. Leiðin liggur að fornminjunum að Stöng, þar sem er upplagt að anda að sér sögunni og menningunni, áður en hringnum er lokað með því að hjóla malarveginn að Hólaskóg aftur, með viðkomu í Gjánni. Nokkuð krefjandi leið á köflum. Sumir reiða hjólin niður bröttustu brekkuna, en aðrir láta sig gossa.

(Mynd: Bike Company)


Langi-Jón 

53 km – Uppsöfnuð hækkun: 630 m.

Þessi leið var hjóluð af þátttakendum í Landvættahópi FÍ síðasta vor og hönnuð af þjálfurum hópsins. Við nefnum hana hér með formlega Langi-Jón. Það nafn varð til í hópnum og við látum það standa. Þetta er falleg og á köflum krefjandi hjólaleið á jaðri Reykjavíkur sem tengir saman Hólmsheiði, Heiðmörk og Vífilstaðahlíð, með skóglendi, malarflákum og lúpínuökrum. Farið er inn í þann hluta Heiðmerkur sem er leyfilegt að hjóla á, sem margir kannast við sem gönguskíðasporið. Þar sem þetta er hringur er auðvitað hægt að byrja og enda hvar sem er, en ef pælingin er að hafa þetta fullkomið er best að byrja við Árbæjarlaugina og enda svo þar í heitum og köldum potti. Og gufu.

 


Vesturgatan 

55 km – Uppsöfnuð hækkun: 1100 m.

Þessa leið hjóla auðvitað fjölmargir á ári hverju með því að taka þátt í Vesturgötuhjólakeppninni sem er hluti af Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum. En það er líka stórkostlegt að hjóla þetta í rólegheitum. Best er að byrja við sundlaugina á Þingeyri og enda þar. Farið er yfir Álftamýraheiði í 544 m hæð og svo niður í Fossadal að sjó í Arnarfirði. Hinn mjög svo sérstaki og sögufrægi, ægifagri og hrikalegi, ýtuvegur Elísar Kjaran er svo hjólaður fyrir skagann, sem ber stundum nafnið Vestfirsku alparnir, og aftur inn í Dýrafjörð. Undirlagið á þessari leið er víða gróft og því mikilvægt að vera á góðum dekkjum.

(Mynd: Ágúst Atlason)


Fjallabak

40 km – Uppsöfnuð hækkun: 610 m.

Landslagið er engu líkt að Fjallabaki og ævintýri líkast að hjóla þar um. Við mælum með leiðinni frá Pokahrygg niður að Hvanngili. Það er þægileg, en löng, dagleið og leiðin er mestmegnis á fjallvegum nema síðasta spölinn, þar sem þræddur er slóði frá Álftavatni að Hvanngili. Leiðin býður upp á mikið og skemmtilegt vatnasull, þar sem farið er nokkrum sinnum yfir upptakakvíslar Markarfljótsins og meðal annars hjólað eftir farvegi Laufalæks. Til þess að fara þessa leið þarf að semja við einhvern um að vera á bíl. Keyra þarf að Pokahrygg og fara svo með bílinn á lokastað í Hvanngili. Viðkomandi þarf auðvitað helst að vera búinn að grilla þar læri, til að taka almennilega á móti hjólafólkinu. Upplagt að gista svo í skálanum.