Bjartur Týr Ólafsson, leiðsögumaður og fjallageit með meiru, hefur á síðustu árum skapað sér afskaplega gott nafn í útivistarsenu Íslands og víðar. Hann er 31 árs Eyjapeyi. Hann ver nú stærstum hluta ársins úti í Chamonix þar sem hann klífur hvern tindinn á fætur öðrum en kemur þess á milli heim á klakann og er sjaldnast lengi að leita uppi hvers kyns ævintýri. Við erum glöð að fá Bjart í hóp Útipenna en hér mun hann reglulega gefa okkur innsýn í einstök ævintýri sín úr háfjöllum héðan og þaðan ásamt hvers kyns jöklabrölti, ísklifri eða öðru brasi hér á Íslandi. Í fyrstu færslu Bjarts segir hann frá krefjandi en skemmtilegri ferð eftir Djöflahrygg du Tacul í Mont Blanc ásamt Soffíu Sóleyju Helgadóttur og Jóni Heiðari Andréssyni.
Texti og myndir: Bjartur Týr Ólafsson
Í lok júlí fórum við, Soffía og Jón Heiðar, í mikið ævintýri á Djöflahrygg Mont Blanc du Tacul, Arête du Diable. Leiðin dregur nafn sitt af fimm frístandandi tindum sem minna helst á horn djöfulsins og teygja sig hátt til lofts á þessum áberandi fjallshrygg. Leiðin er merkileg fyrir þær sakir að tindarnir fimm eru allir yfir 4.000 metra háir og teljast til þeirra 82 tinda Alpanna sem ná þeirri hæð. Þessir tindar eru einnig þeir erfiðustu á þeim lista, enda ekki á færi allra að klifra eftir bröttum granít turnum í slíkri hæð. Djöflahryggurinn er um 800 metra langur og liggur upp suðurhlið Mont Blanc du Tacul (4.248 m). Oftast er farið frá Torino fjallaskálanum sem liggur á landamærum Ítalíu og Frakklands í 3.375 metra hæð. Þaðan liggur leiðin þvert yfir jökulinn og upp bratt gil sem iðulega eru full af snjó og ís. Leiðin endar svo upp á du Tacul sem er þá sjötti 4.000 metra tindurinn þann daginn áður en leiðin heldur niður brattar hlíðar fjallsins norðanmegin og í kapphlaupi við kláf Aiguille du Midi sem er eina leiðin heim til Chamonix.
Bratt gilið … er einnig eins konar trekt fyrir grjót og ís sem á það til að fara af stað þegar hitnar með deginum. Að auki er mikilvægt að vera á undan öðrum klifrurum, bæði vegna gjóthrunshættu, en einnig er ekki hlaupið að því að taka fram úr á hryggnum.
Við vorum komin út myrkrið upp úr 2 eftir miðnætti. Tilbúin í stóran dag á fjöllum. Það er mikilvægt að leggja snemma af stað þegar svona stór leið er framundan. Jökullinn er bæði öruggari og fljótfarnari yfirferðar í næturfrostinu. Bratt gilið sem liggur upp á Djöflahrygginn er einnig hálfgerð trekt fyrir grjót og ís sem á það til að fara af stað þegar hitnar með deginum. Að auki er mikilvægt að vera á undan öðrum klifrurum, bæði vegna gjóthrunshættu, en einnig er ekki hlaupið að því að taka fram úr á hryggnum.
Okkur leið vel og við fórum hratt af stað. Við sáum nokkrar ljóstýrur á jöklinum, hópar sem ýmist voru á leið á Kuffner hrygg Mont Maudit eða Djöflahrygg Tacul. Við lögðum mikið upp úr því að komast meðal fremstu hópa og vissum að við þyrftum að hafa hraðar hendur til að ná því. Við klifruðum í þriggja manna teymi sem er aðeins meira mál og tekur venjulega lengri tíma en að klifra við annan mann. Hópurinn okkar var aftur á móti sterkur og við vissum að við gætum komist meðal þeirra fremstu. Við Jón vinnum báðir við fjallaleiðsögn í Ölpunum og búum yfir mikilli reynslu í fjöllunum þar. Soffía er líka mjög öflug og hörkufjallakona með mikla reynslu af fjallaskíðamennsku og leiðsögn.
Allir tindarnir eru þess eðlis að síga þarf niður af þeim svo … þeir krefjast því ekki einungis klifurfærni heldur einnig skilvirkrar línuvinnu og fumlausra vinnubragða við það að tryggja félagann á meðan sigið er niður af háum turnunum. Það er engin leið er að sneiða fram hjá þeim.
Eftir ágætis puð hafðist þetta og þegar við komum upp á hrygginn vorum við fremst. Jón lagði af stað í fyrstu spönn. Yfirferðin var mjög snúin, jafnvægishreyfingar á köldu granítinu og ekki var farið að birta nóg til þess að slökkva á höfuðljósunum. Hann leiddi vel og við Soffía fylgdum á eftir, skref fyrir skref. Tveimur línulengdum síðar stóðum við öll á toppi fyrsta tindsins, Corne du Diable. Allir tindarnir eru þess eðlis að síga þarf niður af þeim svo hægt sé að halda áfram eftir hryggnum. Þeir krefjast því ekki einungis klifurfærni heldur einnig skilvirkrar línuvinnu og fumlausra vinnubragða við það að tryggja félagann á meðan sigið er niður af háum turnunum. Það er engin leið að sneiða fram hjá þeim. Allt þetta ferðalag upp og niður gerir það einnig að verkum að erfitt er að snúa við úr leiðinni og því enn mikilvægara að halda rétt á spöðunum svo allt fari á besta veg.
Það var alveg á mörkunum að ég gæti klifrað þetta í svona stórum klossum og ég var í vandræðum með að koma fyrir tryggingu í bergið sem gæfi mér hugrekkið til þess að toga mig upp þetta síðasta haft.
Pointe Chaubert, Pointe Médiane, Pointe Carmen heita næstu þrír tindar og gengu þeir mjög vel. Við héldum fremstu stöðu í röðinni. Síðastur í röðinni var síðan sá erfiðasti L’Isolée, sem við kjósum að kalla Einbúann. Einbúinn er eini tindurinn sem hægt er að klifra utan um og hreinlega sleppa. Þegar þangað var komið tókum við þá ákvörðun að klífa hann, því við sáum ekki fram á að koma aftur á þessar slóðir í bráð. Aðrir hópar á fjallinu sneiddu fram hjá Einbúanum á meðan við gerðum okkur klár í síðasta topp Djöflahryggsins. Ég leit upp eftir turninum og lagði fyrstur af stað. Ég þurfti virkilega að taka á honum stóra mínum til að komast upp fyrsta haftið en við höfðum ákveðið að fljótlegra yrði að klifra alla leiðina í stórum fjallamennskuskóm í stað þess að vera með létta klettaklifurskó til skiptanna fyrir erfiða kafla. Eftir dágóða stund af temmilegu brasi var loks komið að erfiðasta tindi leiðarinnar. Krefjandi hliðrun eftir sléttu bergi með lítið af gripum gerir þennan kafla mjög varasamann. Ég vann mig upp eftir granítsprungu sem varð sífellt brattari og brattari. Það var erfitt að komast yfir lokahaftið á sprungunni þar sem auðveldara klettaklifur tók við. Það var alveg á mörkunum að ég gæti klifrað þetta í svona stórum klossum og ég var í vandræðum með að koma fyrir tryggingu í bergið sem gæfi mér hugrekkið til þess að toga mig upp þetta síðasta haft. Það tókst að lokum og hægt og rólega mjakaði ég mér upp úr brattasta kaflanum þar til kletturinn varð auðveldari. Loksins. Ég kallaði til Jóns að fylgja á eftir og svo kom Soffía. Allt hafðist þetta fyrir rest og það var sérstaklega góð tilfinning að komast loks upp á Einbúann eftir alla þessa fyrirhöfn. Við höfðum svo lengi talað um hann.
Þegar við komum niður af Einbúanum áttum við þó enn langt í land. Við vorum ekki lengur fremst í röðinni og langur klettahryggur beið okkar sem náði alla leið upp á du Tacul. Hryggurinn var laus í sér og nú farið að nálgast hádegi. Við þurftum að hafa allan varann á að fá ekki grjót í okkur á þessum kafla leiðarinnar. Við hreyfðum okkur hratt og örugglega og klifruðum saman upp þessi síðustu höft. Með athyglina í botni hlustuðum við stöðugt eftir grjót og litum reglulega upp til að sjá hvort allt væri ekki í lagi. Þegar toppnum á du Tacul var loksins náð gátum við svo andað léttar og gáfum okkur smá tíma til næra okkur og litast um. Útsýnið var stórkostlegt. Du Tacul, Mont Maudit og Mont Blanc mynda svokallaða Þriggjatindaleið upp á Mont Blanc og þarna vorum við farin að sjá klifrara sem voru á þeirri leið. Tu Tacul hafði verið minn fyrsti 4.000 metra tindur rétt um 12 árum áður svo það var gaman að koma þangað aftur. Við tókum nokkrar myndir, dáðumst af útsýninu og héldum svo af stað niður.
Fyrir ofan brekkuna hangir brattur jökullinn sem á það til að brotna niður hlíðina í miklum hita. Sólin skein og það var farið að hitna.
Afslöppunin varði stutt því hrikaleg norðurhlíð du Tacul var ennþá framundan. Þetta er brött brekka og krosssprungin. Fyrir ofan brekkuna hangir brattur jökullinn sem á það til að brotna niður hlíðina í miklum hita. Sólin skein og það var farið að hitna. Við þurftum því að fara niður eins hratt og við treystum okkur til. Leiðin var óvenju sprungin svo við þurftum að þræða sprungurnar vandlega. Næsta pása mátti ekki vera fyrr en á öruggum stað niðri á flötum jöklinum — alls ekki fyrr. Ferðin niður brekkuna gekk vel og blessunarlega komumst við niður hratt og örugglega. Nestispása og fatafækkun voru kærkomin enda orðið mjög heitt og fram undan leiðindabrekka upp í Aiguille du Midi kláfinn. Þarna fórum við hægt yfir, enda þreytt, og meðvituð um að við værum ekki í neinni hættu á að missa af kláfnum niður í bæ. Það var svo 12 tímum eftir að við höfðum lagt af stað sem okkur var troðið í kláfinn eins og sardínum með frísklegum túristum frá öllum heimshornum. Þeir störðu brosandi á okkur, uppgefin og syfjuð, algjörlega grunlaus um ævintýri okkar síðasta hálfa sólarhringinn.