Saga brimbrettasenunnar á Íslandi er ekki ýkja löng en hópur þeirra sem stunda þessa mögnuðu íþrótt hefur stækkað ört á síðustu árum. Í þessari stuttu grein lýsir Steinarr Lár Steinarsson því hvernig ævintýrið byrjaði, þeim hindrunum sem einkenndu það fyrstu árin og hvað það var sem í raun breytti öllu – aldan við Þorlákshöfn. Deilurnar um ölduna við Þorlákshöfn hafa varla farið fram hjá mörgum en fyrir þá sem ekki þekkja til getur verið erfitt að skilja hversu mikilvæg hún er fyrir brimbrettasenu Íslands og mikilvægi þess að varðveita hana. Í gær fór í loftið stutt heimildarmynd, SAVE THE WAVE, sem sýnir hlið brimbrettafólks á málinu og mælum við með því að allir útivistar- og náttúruunnendur horfi á hana. Hér er svo grein Steinars í heild sinni en hún birtist fyrst í 12. tölublaði Úti.
Texti: Steinarr Lár Steinarsson /// Myndir: Berglind Jóhannsdóttir.
Árið var 1996 þegar nokkrir ungir snjóbrettamenn heyrðu sögur af því að bandarískur hermaður frá Keflavíkurflugvelli hefði stigið öldur í Stóru-Sandvík á Reykjanesi. Forvitni þeirra á því hvort möguleiki væri að brima á Íslandi fór vaxandi og þeir pöntuðu sér því blautbúninga til að freista gæfunnar. Engin voru brimbrettin í landinu og því þurftu þeir nú að ferðast erlendis eða með öðrum leiðum komast yfir brimbretti. Engin var skilningurinn á ölduhegðun og ekki var að fagna ölduspálíkani á netinu eins og nú telst sjálfsagt að styðjast við. Því óku þessir ungu menn, rétt komnir með bílpróf, um strendur landsins í aftaka veðrum í leit að öldum. Búnaðurinn var lélegur og notast var við plastpoka ofan í strigaskóm í stað neópren-skóa eins síðar komu til sögunnar. Þetta var því heilmikil ævintýramennska og þótti foreldrum og öðrum nærstöddum þetta algjört glapræði. Við höfðum keyrt strandlengju Íslands alla og fundið nokkra staði þar sem öldur brotnuðu, en víða var aðgengi að þeim mjög erfitt eða illu heilli ekki hægt að komast upp úr sjónum þar sem straumar báru okkur í burtu frá vari eða innsiglingu. Íþróttin þróaðist lítið sem ekkert fyrstu tvö árin, enda brotna öldur við Íslandsstrendur flestar ekki nema 5-10 sinnum á ári og því erfitt að ná tökum á sportinu. Það var góður dagur ef einn úr hópnum náði einni öldu þann daginn, þá fögnuðum við allir saman eins og viðkomandi hefði varið víti frá Messi.
Búnaðurinn var lélegur og notast var við plastpoka ofan í strigaskóm í stað neópren-skóa eins síðar komu til sögunnar. Þetta var því heilmikil ævintýramennska og þótti foreldrum og öðrum nærstöddum þetta algjört glapræði.
Það var svo ekki fyrr en árið 1998 þegar við félagarnir gengum yfir grjótgarðinn við Hafnarnes í Þorlákshöfn að við áttum stærstu upplifun og uppgötvun okkar ævi. Eftir að hafa keyrt tugi þúsunda kílómetra í leit að öldu kom í ljós að hina fullkomnu öldu var að finna í bakgarðinum hjá okkur. Við trúðum ekki okkar eigin augum. Svona öldu höfðum við aðeins séð í bíómyndum á VHS-spólum. Við öskruðum, góluðum og föðmuðumst þarna á völtum grjótgarðinum. Þetta var stærsta augnablik lífs okkar allra sem þarna stóðum. Aldan í Þorlákshöfn hefur allt. Hún er löng eða um 400 m. Hún virkar bæði í flóði og fjöru. Botninn undir öldunni sem býr til brotið er hlaðinn stórum, rúnnuðum steinum sem bæði gerir yfirborð sjávar slétt og einnig tryggir að aldan brotnar jafnt á þessum 400 metra kafla. Það er bæði auðvelt að komast út í ölduna við Hafnarnesvita og, það sem mikilvægara er, þá er auðvelt og öruggt að komast þar upp úr sjónum. Að leika sér úti í sjó í miklu ölduróti er krefjandi og skal enginn taka því af léttúð. Þessar náttúrulegu aðstæður gera ölduna í Þorlákshöfn að langbestu öldu Íslands og í kringum hana hefur íþróttin sem nú er Ólympíuíþrótt byggst upp á Íslandi. Það hefur verið okkur mikil gleði og gæfa að hafa öldu sem brotnar yfir 100 daga á ári svo nálægt höfuðborgarsvæðinu. Aldan hefur verið mikil og góð landkynning og komið fram í öllum alþjóðlegum brimbrettamyndum síðastliðna áratugi sökum gæða sinna. Líkt og fjallgöngufólk ferðast um heiminn til þess að klífa fallegustu tindana, ferðast brimbrettafólk um heiminn til að brima bestu öldurnar. Það má segja að aldan í Þorlákshöfn sé nú á við Kilimanjaro, Mont Blanc og Matterhorn í brimbrettaheiminum.
Eftir að hafa keyrt tugi þúsunda kílómetra í leit að öldu kom í ljós að hina fullkomnu öldu var að finna í bakgarðinum hjá okkur. Við trúðum ekki okkar eigin augum.
Nú eru því miður áform um að setja landfyllingu í óljósum tilgangi yfir ölduna í Þorlákshöfn og berst brimbrettafólk nú fyrir tilveru sinni á Íslandi. Það eru nú yfir 500 manns sem stunda íþróttina á þessu svæði, en hópurinn fer ört stækkandi. Við, útivistarfólk á Íslandi, verðum að standa saman gegn ágangi stóriðju á náttúruperlur okkar. Hvort sem það er alda, gönguleið, foss eða eitthvað annað, og hvers konar útivist við stundum helst, þá verðum við að standa saman þegar fjársterkir aðilar sjá gróðatækifæri í eyðileggingu náttúrunnar okkar. Við hvetjum því alla sem annt er um landið sitt að kynna sér þetta mál og styðja okkur brimbrettafólk og baráttu okkar gegn stóriðju á svæðinu og eyðileggingu öldunnar. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta eftir allt, aldan okkar allra og komandi kynslóða.