
Auður Elín Björnsdóttir sýnir snilli sína í fljótinu en hún náði 1. sæti í spretti og 2. sæti í „slalom”.
Töluverður uppgangur hefur verið í kajaksenunni á Íslandi síðustu ár og ekki síst fyrir tilstilli árlegu kajak-keppninnar Túrbó Kayak Festival sem Arctic Rafting stendur fyrir. Í ár verður keppnin haldin 17. ágúst næstkomandi og verður keppt í tveimur greinum: svigkeppni og spretti. Í svigkeppni, eða „slalom”, keppast þátttakendur um að ná besta tímanum niður fljótið og þurfa að klukka sig inn á fána á nokkrum stöðum. Ef ekki tekst að klukka sig inn fær þátttakandi tímarefsingu. Sprettur er svo aðeins einfaldara fyrirkomulag en þar reyna keppendur að komast niður ákveðinn kafla í fljótinu á sem stystum tíma.
Keppnin er innblásin af eldri hefð en Kayakklúbburinn stóð fyrir Tungufljótskappróðrinum árin 2006-2012 en stofnendur klúbbsins voru brautryðjendur straumvatnskajaksportsins á Íslandi og hafa átt stóran þátt í vexti íþróttarinnar hér á landi. Markmiðið með Túrbó er fyrst og fremst að sameina kajak-áhugafólk með skemmtilegum viðburði og að lokinni keppni er haldið á Drumboddsstaði þar sem fram fer verðlaunaafhending og skemmtun um kvöldið. Eins og nafnið gefur til kynna þá er Túrbó ekki einungis keppni heldur hátíð og því tilvalið fyrir alla sem hafa áhuga á útivist að skella sér og fylgjast með keppninni.
Skráning og allar frekari upplýsingar má finna hér.
Instagram: Túrbó Kayak Festival og Arctic Rafting.
Ljósmyndir: Björn Júlíus Grímsson og Zöe Ruth Erwin.

Viktor Þór Jörgensson og Reynir Óli Þorsteinsson, fara yfir málin að keppnisdegi loknum.

Reynir Óli Þorsteinsson dansar við strauminn.

Johan Holst í kröppum dansi.