Björn Þór Guðmundsson starfar sem verkefnastjóri fjármögnunar og viðskiptaþróunar hjá GEORG, sem sérhæfir sig í rannsóknum á jarðhitaorku. Á milli þess sem hann grúskar í Excelskjölum notar hann lausar stundir til aflmikilla hjólreiða. Hann hefur nokkrum sinnum komist á pall í keppnum í götuhjólreiðum. Hér segir Björn frá þátttöku sinni í einni erfiðustu hjólreiðakeppni veraldar, á Majorka, og hvernig hann í þeirri eldraun komst alls ekki á pall — langt í frá — en varð hins vegar reynslunni, og óbærilegri þjáningunni, ríkari.
Texti: Björn Þór Guðmundsson // Myndir: Mótshaldarar.
Hjólabakterían er undarlegt fyrirbæri sem getur lagst með miklum þunga á fólk, gjarnan með ófyrirséðum afleiðingum. Karlmenn á miðjum aldri virðast vera sérstaklega móttækilegir fyrir bakteríunni þótt hún geti auðvitað herjað á okkur öll. Hún er lúmsk og getur komið manni í aðstæður sem engan óraði fyrir.
Fögur fyrirheit um að taka heilsuna föstum tökum, hreyfa sig meira, borða hollar og vera besta útgáfan af sjálfum sér er algeng smitleið. Að hugsa sem svo að maður geti komið sér í besta form lífsins, jafnvel þótt maður sér orðinn fimmtugur og lélegur í hnjánum. Af samfélagsmiðlum að dæma eru allir, nema þú, að ganga á fjöll, synda í sjónum, hlaupa maraþon, fara á fjallaskíði og hjóla hundrað kílómetra um helgar. Svo eru birtar glansmyndir frá stórviðburðum úti í heimi þar sem fólk nær markmiðum sínum eftir þrotlausar æfingar yfir vetrarmánuðina. Greina má andköf í hverju kommentinu á fætur öðru, þvílík hetjudáð! En myndirnar bera með sér að þessu fylgi ekki þjáningin ein því glampinn í augum þessa fólks bendir til þess að þarna sé eftir einhverju að slægjast. Þú spyrð sjálfan þig „af hverju ekki ég?“ og áður en þú veist af ertu búinn að senda skilaboð á vin sem getur kynnt þig fyrir hjólasamfélaginu. Hlaupin, fjallgöngurnar og skíðin henta jú ekki fyrir gömul hné og sjósund er ekki íþrótt að þínu mati. Þér er ráðlagt að skrá þig í hjólaklúbb, auglýsa eftir notuðu götuhjóli á Facebook, kaupa vattamæli, púlsmæli, hjólatölvu, hjólaskó, hjólabuxur, hjálm, gleraugu og nokkrar yfirhafnir sem henta mismunandi veðri. Svo er gott að eiga nokkrar tegundir hjólavettlinga, húfu inn undir hjálminn og skóhlífar ef það skyldi rigna. Það er hægt að sleppa með hálfa milljón í startkostnað ef maður er séður í innkaupum. Þú kaupir það ódýrasta sem þú getur fundið, mætir á þína fyrstu æfingu og velur hópinn með gömlu körlunum því þar átt þú líklega best heima. Svo kemur fyrsta brekkan og allt í einu ertu orðinn aftastur og farinn að berjast fyrir lífi þínu til þess eins að missa þá ekki frá þér. Hjartslátturinn er kominn í 180 og sviðinn í lærunum stigmagnast þar til að hann verður óbærilegur og þú gefst upp með blóðbragð í munni og nærð varla andanum, horfir á eftir hópnum hverfa handan við brekkuna og veltir því fyrir þér hvað hafi eiginlega gerst. Þetta endurtekur sig á næstu æfingu og þú ert plagaður af þeirri staðreynd að geta ekki haldið í við jafnaldra þína. Hugsunin um hvernig þú getir bætt þig verður sífellt ágengari. Hálfu ári síðar ertu kominn með einkaþjálfara og búinn að fjárfesta í nýju, fisléttu, koltrefjahjóli sem kostaði rúma milljón og pinnstífum skóm því það getur skipt sköpum, segir þjálfarinn. Þú hefur sett þér markmið um að geta hangið í hraðasta hópnum og ert farinn að æfa tvo klukkutíma á dag að meðaltali. Þú ert kominn með hjólabakteríuna.

Majorka 312 býður upp á magnað útsýni og virkilega góðar hjólaaðstæður þó hitinn geti vissulega komið manni í klandur
Majorka 312 – 5000 m. hækkun
Það var ekki nákvæmlega svona sem ég byrjaði í hjólreiðum en mjög nærri lagi. Keppnisskapið nærði bakteríuna í upphafi, fyrst þörfin fyrir að láta ekki stinga sig af og svo þörfin fyrir að stinga aðra af. En hjólabakterían vill alltaf meira svo ég fór að taka þátt í keppnum og leita nýrra áskorana. Sú stærsta, fram að þessu, fannst síðastliðið haust þegar við félagarnir Thomas Skov Jensen og Páll Snorrason ákváðum að skrá okkur í Majorka 312. Eins og nafnið ber með sér fer sú keppni fram á Majorka og er 312 km. Þá er ekki öll sagan sögð því hjólað er eftir endilöngum Serra de Tramuntana fjallgarðinum og hækkunin á leiðinni er um fimm þúsund metrar. Það er ekki að ósekju sem þessi keppni er talin ein erfiðasta eins dags keppni sem völ er á fyrir hinn almenna hjólreiðamann. Hún átti að fara fram 29. apríl 2023 svo við höfðum allan veturinn til að undirbúa okkur. Þetta var gulrótin sem við þurftum til að strita inni á æfinguhjólinu allan veturinn í skjóli frá kaldasta vetri aldarinnar.


Við flugum nokkrum dögum fyrr til Majorka ásamt konunum, notuðum tækifærið til að gera smá frí úr þessu. Það var kærkomin tilbreyting að komast í góða veðrið, hitinn rétt yfir tuttugu gráðum fyrstu dagana og þægilegt hjólaveður. Keppnin byrjar og endar í Playa de Muro á norðurströnd eyjunnar, stutt frá miðaldarbænum Alcudia. Stemningin í Muro var einstök. Þarna voru saman komnir þeir átta þúsund keppendur sem höfðu beðið spenntir við tölvuna þann 10. október þegar opnað var fyrir skráningu og verið svo heppnir að ná sér í miða. Þetta var sannkölluð hjólahátíð sem hófst tveimur dögum fyrir keppnina. Sölutjöld mynduðu langar raðir þar sem framleiðendur kynntu vörur sínar undir lifandi tónlist frá torginu við strandgötuna. Gleði og eftirvænting lá í loftinu, allir í stuði.
Ekkert átti að geta klikkað
Svo kom að keppnisdegi. Ég var búinn að æfa vel yfir veturinn, hafði tekið mataræðið föstum tökum og ekki verið jafn léttur í nokkra áratugi. Aukakílóin hjálpa víst engum í brekkunum. Ég var með plan um hvernig ég ætlaði að nærast, hvað ég ætlaði að borða og hvenær. Það gat í raun ekkert klikkað og bara formsatriði að klára þetta á tíu klukkutímum og enda í topp 50.

Björn og Thomas „njóta“ þess að hjóla niður til tilbreytingar
Við Thomas ákváðum að mæta klukkutíma fyrr á ráslínuna til að lenda ekki of aftarlega og sitja fastir í umferðarteppu fram eftir morgni. Við vorum mættir 5:30 en þrátt fyrir það voru líklega tvö þúsund manns fyrir framan okkur fyrir utan forgangshópa sem störtuðu á undan okkur. Palli var í góðum málum, hafði keypt sér VIP miða og var líklega ennþá sofandi þegar við Thomas stóðum þarna og biðum eftir ræsingu. Eftir að klukkan sló 6:30 liðu fimmtán mínútur áður en við hreyfðumst úr stað.
Hitinn eins og í bakarofni
Þetta byrjaði vel og við náðum að vinna okkur í gegnum mestu þvöguna. Veðrið var hagstætt í byrjun, skýjað og hitinn í kringum tuttugu gráður. Við komum fljótlega að fjallgarðinum en stærstur hluti hækkunarinnar á sér stað fyrstu 150 km þegar hjólað er yfir Serra de Tramuntana. Þessi kafli einkennist af mislöngum brekkum þar sem meðalhallinn er 5-7%. Mér leið vel og við Thomas, ásamt nokkrum öðrum, vorum stöðugt að vinna okkur framar í hópinn og misstum enga fram úr okkur. Svo náðum við Palla sem hafði tekið því rólega framan af. Þegar leið á morguninn braust sólin í gegnum skýjahuluna og hitinn varð snögglega eins og í bakarofni. Nú var eins gott að drekka vel, taka inn saltpillur og borða eins mikið og maður gat í sig látið. Ég taldi mig vera með nægan vökva og næringu til að endast fyrstu hundrað kílómetrana og við vorum sammála um að sleppa fyrstu drykkjarstöðinni til að ná forskoti á þá sem þar stoppuðu. Upp úr hádegi sá loks fyrir endann á fjallgarðinum og allir farnir að hlakka til að komast á flatari hluta leiðarinnar. Þetta var búin að vera þétt keyrsla, stöðugt upp og niður í marga klukkutíma, og þeirri hugsun skaut upp í hugann að síðustu 160 km yrðu mun auðveldari. Þar skjátlaðist mér hrapalega.
Eftir rúmar sex klukkustundir á hjólinu var hitinn kominn í 36 gráður. Krampi, smá stingir hér og þar en ekkert til að hafa áhyggjur af. Ég hafði einu sinni áður fengið krampa í hjólakeppni en tekist að vinna mig í gegnum það. Við hjóluðum upp síðustu löngu brekkuna og svo var allt sett á fulla ferð niður hinu megin út úr fjallgarðinum. Krappar beygjur þar sem slegið var af og gefið í til skiptis, kveikt og slökkt á löppunum, líklega ekki það sem maður sem byrjaður er að fá krampa þarf á að halda.
„Neðst í brekkunni tókst mér að stöðva hjólið en komst ekki af því, gat einfaldlega ekki hreyft á mér fæturnar.“
Komst í hann krampann
Fæturnir byrjuðu að stirðna og sársaukinn sem þessu fylgdi var eins og sinadráttur sem lagast ekki sama hvað maður gerir. Ég gat ekki snúið pedölunum, hver einasti vöðvi í fótleggjunum var eins og grjót viðkomu. Neðst í brekkunni tókst mér að stöðva hjólið en komst ekki af því, gat einfaldlega ekki hreyft á mér fæturnar. Við vegkantinn stóð fólk og fylgdist með keppninni. Spánverji á miðjum aldri kom hlaupandi mér til aðstoðar. Eftir á að hyggja var eins og hann hefði reiknað með þessu. „Á þessum stað koma menn rúllandi niður brekkuna með krampa og hafa gert frá örófi alda,“ gæti hann hafa verið að útskýra fyrir einhverjum áhorfandanum rétt áður en ég birtist með angistarsvip í brekkunni fyrir ofan þá. Hann hjálpaði mér af hjólinu svo ég gæti lagst á gangstéttina, dró magnesíum gel upp úr vasanum, svo koffínskot og sætabrauð sem hann skipaði mér að borða. Meðan ég reyndi að koma þessu niður sótti hann vatnsflösku og hófst svo handa við að nudda á mér lappirnar. Þetta var þjónusta sem ég hef ekki fengið á allra bestu hótelum, veitt á skítugri gangstétt einhvers staðar á Majorka.

Krampinn mættur og ekkert sem benti til þess að hann myndi kveðja fljótlega
En þrátt fyrir viðleitni þessa nýja besta vinar míns þá gekk illa að ráða niðurlögum krampans og þeirra verkja sem honum fylgdu. Ég hef líklega legið þarna og veinað í einar tíu mínútur áður en ég gat sest upp og reynt að átta mig á stöðunni. Hvernig hafði ég komið mér í þessi vandræði? Það var ekki nokkur leið að ég gæti haldið áfram, hvað þá hjólað þá 160 km sem eftir voru í mark. Þetta var búið. Ég sendi skilaboð til Palla þess efnis að ég væri líklega hættur. En hvernig átti ég að komast aftur heim á hótel? Hér voru engir starfsmenn keppninnar sjáanlegir og örugglega löng bið eftir leigubíl í þessari sveit. Eftir dágóða stund komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að reyna að koma mér heim af sjálfsdáðum, settist aftur upp á hjólið og rúllaði löturhægt af stað, einn snúning í einu. Ég virtist geta haldið mér gangandi svo lengi sem ég þurfti ekki að beita neinu afli sem heitið gat á pedalana, ef það gerðist kom krampinn fljótt aftur og ég þurfti að stoppa. Það eina sem ég gat gert var að borða og drekka eins mikið og ég gat í þeirri von að vöðvarnir næðu vopnum sínum á ný.
„Margir spurðu hvort ekki væri allt í lagi og mitt eina svar á þessum tímapunkti var að lyfta upp þumlinum til merkis um að hér væri allt í toppmálum, náhvítur í framan með ofþornun á háu stigi.“
Ofþornun, óráð og ógleði
Ég borðaði og fyllti alla vasa af orkugelum á næstu drykkjarstöð en matarlystin fór hratt þverrandi. Eftir 200 km var mér orðið svo óglatt að ég þurfti að stíga af hjólinu og setjast út í vegkantinn. Hver keppandinn á fætur öðrum hjólaði framhjá mér. Margir spurðu hvort ekki væri allt í lagi og mitt eina svar á þessum tímapunkti var að lyfta upp þumlinum til merkis um að hér væri allt í toppmálum, náhvítur í framan með ofþornun á háu stigi. Ég gat tekið litla sopa af brúsanum en kom engu öðru niður. Nú voru góð ráð dýr, 110 km eftir og ég stóð aftur frammi fyrir þeirri spurningu hvernig ég ætti að koma mér heim. Þarna var ég staddur lengst uppi í sveit og ekkert fólk við vegkantinn. Allt í einu áttaði ég mig á því að ég sat í brekku milli tveggja runna og hugsaði sem svo að þarna gætu jafnvel leynst snákar eða einhver önnur óhræsi svo ég ákvað að forða mér. Seinna kom í ljós að ég var margstunginn á bakinu, líklega á þessum stað.

Mikilvægt að eiga góðan þjáningabróður
Við tóku u.þ.b. fimm klukkustundir af reglulegum krampaköstum og stanslausri ógleði, fullkomið „survival mode“. Þegar 30 km voru eftir renndi ég inn á síðustu drykkjarstöðina. Þarna var fullt af fólki samankomið til að fagna þeim sem voru komnir svona langt, ærandi tónlist og einskonar karnival stemning. Það var hrópað, klappað og flautað þegar ég renndi í hlaðið en mér stökk ekki bros á vör á þessum tímapunkti, fannst þetta óþægilegt og botnaði satt að segja ekkert í þessu. Ég fór að velta fyrir mér hvort ég væri kominn í mark, hvort þetta væri endapunkturinn þótt Garmin tækið segði að það væru 30 km eftir. Ég var hættur að geta hugsað skýrt, stóð þarna eins og álfur út úr hól og snerist í hringi. Ég vatt mér að einum keppanda og spurði hvort við værum komnir í mark en hann brosti bara og hristi hausinn. Síðustu 5 klukkustundirnar hafði ég ekkert borðað og hugsaði sem svo að það væri raunverulega hætta á því að ég dytti niður dauður ef ég héldi áfram, slík var vanlíðanin. En það var ekki valkostur að hætta þegar svona stutt var eftir.
Batteríslaus í mark eftir 12 tíma
Á einhvern undarlegan hátt, eftir því sem endamarkið nálgaðist, óx mér ásmegin á hjólinu. Síðustu 10 km leið mér mun betur og gat allt í einu farið að hjóla á eðlilegum hraða án þess að krampi og ógleði hefðu mikil áhrif. Eftir rúmar tólf klukkustundir kom ég í mark, rúmum klukkutíma á eftir félögum mínum Thomas og Palla. Það var engin móttökunefnd við endalínuna enda vissi mitt fólk ekki hvenær eða hvort ég kæmi í mark af sjálfsdáðum. Konan mín hafði fylgst með mér í gegnum Strava en síminn minn orðið batteríslaus um miðjan daginn. Henni dauðbrá þegar við hittumst uppi á hóteli, ég leit víst út eins og beinagrind.

Við hittum ferðafélaga okkar á veitingastað um kvöldið. Mér leið þokkalega en hafði litla lyst á matnum. Þau tóku mér eins og týnda syninum, líklega dauðfegin að ég skilaði mér heim lóðréttur en ekki láréttur. Eftir situr spurningin; var þetta þess virði? Svarið er ekki einfalt. Ég vissi að þetta yrði mikil áskorun en hefði aldrei geta reiknað með því sem þarna gerðist. Að því leyti var þetta dýrmæt reynsla og ég gerði fullt af mistökum sem hægt er að læra af. Illa haldinn af hjólabakteríunni ýtti ég sjálfum mér út að ystu þolmörkum og fékk að kynnast því hvernig hausinn á mér tekst á við slíkar aðstæður. Þetta var ekki ein af þessum stundum þar sem maður kemur skælbrosandi í mark og það voru engar glansmyndir teknar við endalínuna til að setja inn á samfélagsmiðla. En bakterían er söm við sig og eftir því sem frá líður verður sú hugmynd að mæta þarna aftur og gera betur ekki svo galin.
Paris–Roubaix er ein elsta og þekktasta hjólakeppni heims og fræg fyrir hversu erfið hún er. Keppnin er haldin ár hvert annan sunnudag í apríl og um hana var gerð þekkt heimildarmynd á áttunda áratugnum sem bar nafnið Sunnudagur í helvíti. Þetta var minn sunnudagur í helvíti, þótt hann hefði lent á laugardegi.
Þessi saga birtist upphaflega í 11. tölublaði af Úti.
