Vaxandi vinsældir utanvegahlaupa hafa varla farið framhjá mörgum undanfarin misseri, bæði hér á Íslandi sem og víðar. Einn fylgifiskur þeirra eru spennandi utanvegahlaupakeppnir sem sprottið hafa upp á mörgum fegurstu svæðum landsins. Það nýjasta er Öræfahlaupið en það verður haldið 31. ágúst næstkomandi og fer með fólk eftir 23 km af stórbrotnu umhverfi Skaftafells sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarðinum.
Hlaupið hefst við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli en hlaupaleiðin liggur um Kristínartinda þar sem frábært útsýni er um fjalllendi Öræfanna og þaðan er svo hlaupið inn í hinn fagra Morsárdal áður en haldið er til baka að þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli. Hækkun leiðarinnar er um 1.000 metrar en hlaupaleiðina má finna á Strava og frekari upplýsingar um keppnina og skráningu má finna hér.