Einar Skúlason fór í spor landpósta fyrri alda og gekk 176 km langa póstleið frá Hornafirði til Borgarfjarðar eystri síðsumars í fyrra. Hér er ferðasagan.

Einar Skúlason skrifar

Ég hef lengi verið áhugasamur um gamlar þjóðleiðir og gekk mína fyrstu leið um 15 ára aldur þegar ég fór Leggjabrjót frá Þingvöllum í Botnsdal. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að þetta tengist miklum bókalestri og að þjóðernisrómantískar bækur Ármanns Kr. og fleiri höfunda hafi ýtt undir það að ég var spenntur fyrir svona gönguleiðum auk þess sem ég hafði gengið með ömmu minni um fjörur og hlíðar Hvalfjarðar frá því að ég man eftir mér. Ég hef líka stofnað þrjá gönguklúbba og alltaf farið Leggjabrjót í fyrstu ferð, en þriðji gönguklúbburinn, Vesen og vergangur, hefur verið lífseigastur og átti sjö ára afmæli í haust.

Einar hvílir lúin bein.

Þegar maður hefur áhuga á þjóðleiðum þá er stutt yfir í að stúdera gömlu landpóstana enda fóru þeir gangandi og ríðandi og nýttu auðvitað þjóðleiðirnar, enda var það samgöngukerfið á landi áður en bílaöldin gekk í garð. Áhugi minn á landpóstunum varð til þess að mig langaði til að setja mig í þeirra spor og gekk því frá Reykjavík til Ísafjarðar um póstleiðir og gamlar þjóðleiðir í seinni hluta október árið 2016. Sú ferð slökkti síður en svo áhugann. Ég ákvað því næst að fara póstleiðir og gamlar þjóðleiðir um Austfirði frá Hornafirði til Borgarfjarðar eystri. Sú ferð var um mánaðarmótin ágúst – september 2018 og tók átta daga. Á þessum tíma gekk ég 176 km og uppsöfnuð hækkun var 7050 m.

Ég var með allt á bakinu, tjald, svefnpoka, dýnu, prímus, mat, aukaföt, sjúkrabúnað og þess háttar. Ég held að yfirleitt hafi bakpokinn verið um 16 kg. Ég verslaði auk þess á Fáskrúðsfirði og á Seyðisfirði á leiðinni og sendi aukavistir á Seyðisfjörð.

Það var meira táknrænt en nokkuð annað að byrja Hornafjarðarmegin. Leiðin yfir Almannaskarð er stutt og þægileg, gömul alfararleið, póstleið og þjóðvegur þangað til göng voru grafin. Eftir það fór ég á puttanum að Lónsheiði.

„Á leiðinni varð ég fyrir því að misstíga mig og var það slæmt. Ég notaði íþróttateip til að festa ökklann og skipti svo um teipið á tveggja daga fresti til loka ferðarinnar.“

Lónsheiðarvegurinn var hluti af hringveginum fram á áttunda áratuginn eða þangað til hringvegurinn var færður út á Hvalsnes og meðfram Hvalsnes- og Þvottárskriðum. Þess vegna er þægilegt að ganga hann og örugglega fínt að hjóla. Auðvitað hefur vegurinn látið undan á nokkrum stöðum við ræsin en annars er hann góður. Á leiðinni varð ég fyrir því að misstíga mig og var það slæmt. Ég notaði íþróttateip til að festa ökklann og skipti svo um teipið á tveggja daga fresti til loka ferðarinnar.

„Ég tjaldaði í ca 150 m hæð og svaf illa í slagviðri um nóttina og hélt svo áfram morguninn eftir.“

Tveir möguleikar voru fyrir hendi vegna þessarar leiðar. Annars vegar að fara upp frá Blábjörgum og hins vegar að fara upp með Svíná á Melrakkanesi. Var bent á seinni leiðina í árbók FÍ og ég valdi hana. Ég tjaldaði í ca 150 m hæð og svaf illa í slagviðri um nóttina og hélt svo áfram morguninn eftir. Þetta var leiðinleg leið og nokkuð grýtt í skriðunum undir Hnútu og engin sjáanleg merki um gamlar götur. Ég myndi því frekar mæla með því að fara upp frá Blábjörgum og Stekká upp á Stekkjarhjalla og áfram þægilegustu leið um Hnútuhjalla og svo niður eftir augljósum hjalla sem lækkar sig í áttina að Bragðavöllum.

Ég gekk áfram inn allan Hamarsdal og tjaldaði skammt frá Veturhúsum síðdegis sama dag og fór snemma að sofa eftir svefnlausa fyrri nótt.

Leiðin um Veturhúsaskarð var ekki beinlínis alfararleið og var farið um Hálsa skammt frá Djúpavogi. Ég ákvað frekar að fara um skarðið af tómri ævintýramennsku. Hægt er að sjá vörðubrot öðru hvoru á leiðinni upp hlíðina, annars er þetta grýtt á köflum og stundum er hægt að sjá votta fyrir slóða sem kindurnar halda við. Leiðin niður úr skarðinu er grýttari ef eitthvað er og þess vegna er það á sig leggjandi að ganga innar til að hitta á jeppaslóða sem liggur langleiðina í Veturhúsaskarð. Ég valdi að skáskera hjallana innar og glímdi því við grýttu kaflana í góða stund þangað til ég kom að jeppaslóðanum og gekk eftir honum alla leið niður í Fossárdal. Þar fékk ég góðar viðtökur, köku og te og tók tvö bréf áfram með mér og þau skutluðu mér fyrir botn Berufjarðar að samnefndum bæ þar sem er upphafsstaður gönguleiðar um Berufjarðarskarð.

Mjög fjölfarið var um Berufjarðarskarð fyrrum af landpóstum og öðrum og er sjálft skarðið í 700 m hæð. Gatan er víða greinileg og bæði vörðuð að hluta og stikuð. Ofarlega má sjá mjög greinileg ummerki eftir vegagerðina forðum. Leiðin er þægileg en líklega örlítið brattari Breiðdalsmegin. Þegar ég kom niður í Breiðdal var farið að skyggja og síðasta klukkutímann gekk ég í myrkri meðfram veginum. Engin umferð var og því erfitt að húkka far. Ég hafði týnt vettlingnum mínum í Hamarsdal og ætlaði að kaupa nýja lopavettlinga á Breiðdalsvík svo að ég ákvað að prófa að hringja á hótel Bláfell og athuga hvort einhver væri á ferðinni. Sú sem svaraði ákvað einfaldlega að skutlast eftir mér og í kjölfarið fékk ég svo gott tilboð í mat og gistingu á hótelinu að ég, tjaldið, svefnpokinn og prímusinn fengu að eiga sig þetta kvöld.

Ég fékk mat og gistingu hjá góðum hjónum á Fáskrúðsfirði og afhenti tvö bréf í þorpinu.“

Hákon dýralæknir gaf mér lopavettlinga og skutlaði mér að Gilsá þar sem má finna upphafsstað gönguleiðarinnar um Reindalsheiði og er jeppaslóði nánast alveg upp á heiðina í 880 m, þó að gamla leiðin sé á köflum utan slóðans. Reindalsheiði var fjölfarin og gamla gatan er sérstaklega heilleg neðan við heiðina Tungudalsmegin og margar fallegar hleðslur og vörður að finna þar. Annars er þetta greiðfært nema þegar komið er í kjarrið í Tungudalnum. Þar er nokkurra kílómetra erfiður kafli. Ég fékk mat og gistingu hjá góðum hjónum á Fáskrúðsfirði og afhenti tvö bréf í þorpinu.

Einar fékk nýja lopavettlinga á Breiðdalsvík.

Ég fékk far inn að Hrafnagili og var því kominn í ca 300 m hæð þegar ég lagði af stað fótgangandi í slagviðri. Öðru hvoru var sæmilegt skyggni en við Stuðlaskarðið var þoka og á tímabili tapaði ég slóðanum og þurfti að glíma við grýttar hlíðar til að taka rétta stefnu á skarðið. Þegar upp var komið fann ég slóðann aftur og fylgdi honum alveg niður. Gatan er nokkuð góð fyrir utan kafla neðan við skarðið Fáskrúðsfjarðarmegin. Ég gekk svo alveg til Reyðarfjarðar og fékk far þaðan á Eskifjörð og komst í kærkominn heitan pott í sundlauginni. Tvö bréf komust til skila á Eskifirði. Svo gekk ég aðeins inn á Eskifjarðarheiði og tjaldaði.

Alfaraleiðin um Eskifjarðarheiði var mjög fjölfarin eftir að Eskifjörður tók við af Seyðisfirði sem miðstöð verslunar á Austurlandi og sér þess merki í vegalagningunni. Fylgdi ég gömlu götunni alveg upp á hæsta punkt heiðarinnar en fór þá af götunni og áleiðis upp á slakkann (900 m) milli Jökulkinnar/Fannar og Slenjufjalls og þaðan niður á Mjóafjarðarheiði. Er þetta á köflum mjög grýtt leið og sérstaklega Mjóafjarðarmegin og þarf að fara rólega. Eitthvað var um að menn færu þessa leið áður fyrr en umferð varð aldrei mikil.

Frá Bræðravötnum á Mjóafjarðarheiði lá leiðin upp með hjöllum og svo inn á gömlu þjóðleiðina yfir Gagnheiði við Barnárnar og sáust þar vörður og vörðubrot upp á heiðina (900 m) og áleiðis niður Seyðisfjarðarmegin. Var þetta ólíkt þægilegra við að eiga en leiðin niður á Mjóafjarðarheiði fyrr um daginn. Um kvöldið gisti ég í húsi á Seyðisfirði og borðaði á Frú Láru.

Leiðin yfir Hjálmárdalsheiði er gömul póstleið og þangað sóttu Borgfirðingar og Loðmfirðingar verslun til Seyðisfjarðar. Gatan er þægileg upp Skógarhjallana og upp á Hjálmárdalsheiðina enda fjölfarin miðað við aðrar leiðir á Austurlandi eftir að Víknaslóðir urðu eftirsótt göngusvæði. Á Hjálmu hitti ég eina fólkið á göngu þessa átta daga, en alls hitti ég sjö manns þennan dag. Húsráðendur á Sævarenda voru á staðnum og buðu upp á te og með því en svo hélt ég áfram og fór inn á Fitjar og að Orustukambi og ætlaði að sjá til hvort ég myndi tjalda.

„Tvö bréf komust til skila á Eskifirði. Svo gekk ég aðeins inn á Eskifjarðarheiði og tjaldaði.“

Stór hjörð hreindýra varð til þess að ég hélt áfram enda ekki á hverjum degi sem maður kemst mjög nálægt svona hópi í stillu og björtu veðri. Ég fylgdi hjörðinni nánast alla leið upp í Kækjuskörð en þar skildu leiðir og ég fór niður Kækjudal og tjaldaði að lokum í mynni hans enda var þá komið myrkur. Daginn eftir gekk ég til Borgarfjarðar/Bakkagerðis og kláraði gönguna um hádegisbilið á áttunda degi.

„Það er mér alltaf efst í huga að ímynda mér hvað fólk var að hugsa sem fór um þessar slóðir fyrr á öldum og hvert leiðir þeirra lágu.“

Mér leið vel flesta daga þó að ég hafi auðvitað verið þreyttur stundum seinnipartinn og á kvöldin, en var sprækur á morgnana eftir sæmilega hvíld. Mér leiðist sjaldan þegar ég geng einn enda svo margt að sjá nær og fjær og ég þarf sífellt að reyna að minna mig á að taka myndir því að ég á það oft til að gleyma því. Kannski fer ég í hálfgerða leiðslu þegar ég er svona einn á ferð, en það er mér alltaf efst í huga að ímynda mér hvað fólk var að hugsa sem fór um þessar slóðir fyrr á öldum og hvert leiðir þeirra lágu.