Sigurður Stefánsson, sem slasaðist í árekstri við Bjarna Birgisson í Bláalónskeppninni á laugardag, segist bæði hissa og fúll á þeim sem hjóluðu framhjá eftir slysið. Þrír hafi farið framhjá þeim eftir að þeir Bjarni féllu í jörðina, sá fyrsti 10 sekúndum eftir atvikið og svo tveir til viðbótar með 10 sekúndna millibili.

Eins og við sögðum frá fyrr í dag rotuðust þeir báðir við fallið enda á leið niður bratta og grófa brekku á 50 kílómetra hraða. Á Strava sést að þeir eru hreyfingarlausir en þar sést líka þegar þrír næstu hjólarar bruna framhjá þeim. Það voru síðan þeir Helgi Berg og Kristján Árni Jakobsson sem komu að þeim, námu staðar og aðstoðuðu þá á fætur.

Sigurður fór með sjúkrabíl heim eftir slysið og fór í tveggja tíma aðgerð á hendi á sunnudag þar sem settir voru tveir pinnar í þumal og vísifingur ásamt því að laga liðbönd sem höfðu slitnað.

Sigurður var lemstraður um allan skrokkinn eftir slysið.

„Við erum báðir heppnir að vera með óskaddaðan haus og mænu eftir að Bjarni hjólaði fyrir mig, sem bara gerist og er hluti af þessu. Allt annað grær en verst í þessu er að sjá að þrír reyndir hjólarar fari fram hjá okkur þar sem við lágum meðvitundarlausir á götunni,“ sagði Sigurður í samtali við Úti síðdegis.

„Þeir strákar sem komu okkur til bjargar voru alveg frábærir,“ segir Sigurður,  en hann er allt annað en ánægður með þá sem hjóluðu framhjá. Hann segist ekki muna eftir sér fyrr en að minnsta kosti 10 mínútum eftir slysið. Eins og sjá má er hann verulega lemstraður og höndin illa farinn. Við greindum frá því í dag að Bjarni hélt áfram en man lítið eftir þeirri ákvörðun.