Alexía Björg Jóhannesdóttir skrifar

Það er eiginlega alveg klikkað hvað blæðingar eru enn mikið tabú. Þegar ég var að æfa hlaup í fyrra og hitteðfyrra fyrir maraþon og Jökulsárhlaupið þá las ég allskonar hlaupablogg og fékk ráð frá fagmönnum og öðrum. Þar var farið í gegnum allt; mataræðið, æfingarnar, þarmaflóruna en aldrei var minnst á blæðingar einu orði. Þetta virðist vera eitthvað sem konur eiga að díla við í þögn. Þetta er þeirra einkamál!  En staðreyndin er að þetta hefur áhrif á hlaupin og er ekkert feimnismál.

„Þetta virðist vera eitthvað sem konur eiga að díla við í þögn.“

Innan hlaupa- og hjólaforritsins Strava hefur nú verið opnað á umræðuna um blæðingar. Nýverið efndi Strava til skoðanakönnunar meðal kvenna.  Um 14 þúsund konur út um allan heim svöruðu og sögðu meira en 90% kvennanna að blæðingar hefðu áhrif á hlaupin en aðeins um 20% þeirra höfðu rætt við þjálfarann sinn um blæðingar.   

Strava hefur í framhaldinu farið í samstarf við forritið FitrWoman þar sem konur geta skráð niður og fylgst með tíðahring sínum og fengið upplýsingar um næringu og æfingar í réttu samræmi við hormónabreytingarnar sem eiga sér stað í líkama þeirra.   

Oftast er frekar glatað að byrja á blæðingum þó maður viti að það sé jákvætt og þýðir að maður sé heilbrigður en að vera á blæðingum meðan þú hleypur maraþon er auðvitað bara hugmynd frá skrattanum. En það er alger óþarfi að örvænta eða hætta við hlaupið. Það er ýmsir valmöguleikar í boði.

Þú getur einfaldlega hundsað það, látið eins og þú sért bara alls ekki á blæðingum og látið allt gossa eins og Kiran Gandhi gerði í London maraþoninu 2015.

Hún gerði það reyndar til að vekja athygli á skömminni sem samfélagið virðist hafa tengt við blæðingar og einnig til að vekja athygli á öllum þeim konum í heiminum sem hafa ekki aðgang að hreinlætisvörum. 

Flestir kjósa auðvitað frekar að nota álfabikar, túrtappa eða einfaldlega bara dömubindi á hlaupunum. Allt þetta getur verið þó verið truflandi og pirrað auðveldlega. Hér er besta lausnin alltaf einstaklingsbundin, og engin snilldaralhliðalausn verið hönnuð ennþá.

Aukaverkanir blæðinganna eru ekki síður óþægilegar. Krampar, doði og höfuðverkir eru ekki svo velkomnir þegar tækla á maraþon. Þá getur verið gott að hafa verkjatöflur við höndina.  Við hlaup á blæðingum þarf líka að huga að því að auka járninntöku og drekka vatn því þá eru meiri líkur á ofþornun.

Svo er auðvitað hægt að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni og fá hormónalyf sem frestar blæðingum. Það er að sjálfsögðu ekki eitthvað sem hlauparar ættu að gera oft en fyrir einstaka maraþon ætti það kannski að sleppa.

Í öllu falli. Það þarf að ræða þessi mál!