Það var meiriháttar skíðafæri á Karlsárfjalli. Við höfðum skinnað upp um morguninn og nú voru verðlaunin framundan. Við vorum að  renna okkur í stórum sveigjum niður harðpakkaða fönnina yfir Karlsárdal þegar ég sá Ingólf skjótast framyfir sig og lenda í snjóskafli nokkru neðar. Hann var alveg hreyfingalaus. „Ég er brotinn“ var það fyrsta sem hann sagði þegar ég kom til hans. Hann bæði heyrði og fann það gerast. Skíðið hafði lent á grjóti og báðar pípurnar fóru í sundur rétt fyrir ofan skíðaskóinn.

Mikilvægt að þekkja fyrstu viðbrögð ef slys verða í óbyggðum.

Þetta var töluverð aðgerð hjá Björgunarsveitinni á Dalvík. Þau komu ekki vélsleða upp í hæðina sem við vorum í og því þurfti að draga börurnar upp fjallið og slaka þeim niður aftur. Í millitíðinni höfðum við búið eins vel um sjúklinginn og frekast var hægt. Tekið frauðplast úr bakpoka, búið til einangrandi fleti til að liggja á, set úlpur utan um Ingólf og skiptumst á við að sitja upp við hann til að skýla honum fyrir vindi. Komið í hann verkjalyfjum.

Við erum enn að ræða, sennilega eru 8 ár síðan, hvort við hefðum átt að taka skíðaskóinn af honum í fjallinu eða ekki. Við ákváðum að gera það ekki og sársaukinn þegar hann svo á endanum var dreginn af á sjúkrahúsinu á Akureyri sprengdi alla skala þrátt fyrir deyfingu. Síðan þetta gerðist hef ég tekið tvö Wilderness First Responder námskeið hjá NOLS, sem eru leiðandi á sviði fyrstu hjálpar í óbyggðum, og myndi hiklaust fjarlægja skóinn til að sjá hver staðan væri, sérstaklega ef langt er í hjálp fagmanna. Þarna vorum við ekkert gríðarlega langt frá byggð; þið sjáið byggðina í Dalvík í bakgrunni, þannig að þetta var álitamál.

Það sem skiptir mestu máli er að vera með undirstöðuatriði í fyrstu hjálp svo rækilega festa í vöðvaminnið að maður þurfi ekki að hugsa mikið þegar svona slys gerast. Ég myndi alltaf ráðleggja útivistarfólki að taka 10 daga Wilderness First Responder námskeið og viðhalda þeirri þekkingu á tveggja ára fresti með styttri námskeiðum. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa undanfarin fimm ár boðið uppá námskeið í samstarfi við NOLS og í vetur verður hægt að sækja hjá þeim styttri námskeið sem tekur bara eina helgi. Betri fjárfestingu er varla hægt að hugsa sér fyrir þá sem eru mikið í útivist. Fjallaskíði, fjallgöngur, klifur, sund, hlaup, fjallahjól; þetta eru ekki áhættulausar tómstundir og það getur skipt sköpum að vita réttu viðbrögðin þegar slysin verða.