Á Öræfajökli má finna marga af hæstu tindum landsins sem raða sér mikilfenglega eftir börmum hans. Af þeim er Hvannadalshnúkur án efa þekktastur, ekki síst fyrir þá staðreynd að vera hæsti tindur Íslands (2.110 m). En þrátt fyrir að vera hæstur, eru ýmsir aðrir tindar taldir mun erfiðari viðureignar. Einn þeirra er Eystri Hnappur en hann er af sumum talinn fáfarnasti tindur Öræfajökuls. Eystri Hnappur stendur á suðaustur barmi jökulsins og trónir í 1.758 metra hæð en risavaxnar jökulsprungur umhverfis hann gera aðkomuna vandasama. Einn þeirra fáu sem reynt hafa við hann er Mike Reid en hann sá tindinn fyrst í návígi á tveggja daga námskeiði í fjallaleiðsögn með Jóni Heiðari Andréssyni, IFMGA fjallaleiðsögumanni, og varð hálfheltekinn af honum. Hér lýsir Mike reynslu sinni af Eystri Hnappi en með honum í för voru Rögnvaldur Finnbogasyni og Janet Ra Dost.

Texti eftir Mike Reid // Ljósmyndir eftir Mike Reid

Ég sá hana þegar ég horfði í átt að að víðfeðmu Atlantshafinu ofan af Eystri-Hnapp. Ég horfði niður á gönguskóna og rakti línuna í suðaustur eftir hrygg sem hvarf inn í skýjabakka sem nálgaðist hratt. Ég pírði augun til að reyna að sjá betur í gegnum skýin en gat bara séð byrjunina. Hvorki Brynka, Róbert, né Haukur, sem voru líka á námskeiðinu, höfðu heyrt um þessa leið upp á tindinn og var ég sannfærður um að þessi ómöguleiki hafi nokkrum sinnum bergmálað í tali fjallamanna þarna því hryggurinn er næsta óaðgengilegur, umkringdur djúpum sprungum.

Tveimur mánuðum síðar var ég búinn að sannfæra tvo fjallavini um að reyna við þetta klifur. Ég sagði Janet og Rögnvaldi að þetta væri mögulega ómögulegt en að við yrðum að reyna. Á björtum aprílmorgni spenntum við undir okkur skíðin og skinnuðum upp Stigárjökul. Fljótlega sáum við suð-austur hrygg Eystri Hnapps. Við ákváðum að sleppa skíðunum og fara í línu um það bil hundrað metra suður af hryggnum en þar verja risavaxnar sprungur Hnappinn eins og síki umhverfis kastala.

Þegar við lögðum af stað i línunni lögðust skýin yfir okkur þannig að við sáum rétt glitta í sprungurnar fyrir fram okkur sem voru nógu stórar til að gleypa bíla. Við þræddum þær eins varlega og við gátum en fljótlega komum við að sprungu þar sem eina leiðin yfir var 10 metra breið snjóbrú. Ég gaf Janet og Rögnvaldi merki um að hafa línuna strekkta en ég vissi að ef hún gæfi sig væri ég í vondum málum. Ég tók upp snjóflóðastöngina mína og byrjaði að pota í snjóinn fyrir framan mig þar sem ég mjakaði mér áfram.

Fyrir framan okkur var eins og bak á risaeðlu kæmi upp úr skýjunum

Nokkur varfærin skref í viðbót og stöngin fór í gegnum brúna í ekkert nema kalt jökulloftið hinum megin. Ég sneri mér til vinstri og stökk yfir mjóa sprungu og þaðan gat ég haldið áfram. Ég leit upp og eitt augnablik sá að fyrir framan okkur var eins og bak á risaeðlu kæmi upp úr skýjunum áður en þéttu þau sig aftur og allt varð hvítt á ný. Við héldum áfram en það rann upp fyrir mér að ég gæti hafa farið of langt í austur og misst af upphafinu á hryggnum. Ég ákvað samt að halda sömu stefnu þar til við komum að flötu svæði sem gerði mig órólegan því nú var ég alveg viss að við vorum komin af leið. Ég hafði verið viss um að upphafið á leiðinni yrði mjög sprungið en þarna vorum við komin að mjög flötu og sléttu svæði. Ég tók upp símann og skoðaði nákvæmara kort. Við vorum á réttri leið og þessi flati kafli markaði upphaf hryggsins sem var aðeins 30 metrum frá okkur.

Við höfðum komist í gegnum þetta völundarhús og þarna blasti við okkur hrikalegur ísveggurinn. Mér hálfbrá við að sjá hann og óvart slapp út blótsyrði sem best er geymt á minniskort GoPro-vélarinnar. Fljótlega sá ég klifurleiðina sem ég vonaðist til að kæmi okkur upp á topp. Hún var, eins og hægt er að ímynda sér þegar snjór þekur jökulís, vægast sagt ótraust. Með tvo snjóprófíla og eina skrúfu, sem veitti í rauninni lítið annað en andlega tryggingu, komumst við með herkjum upp á hryggspönnina. Rögnvaldur leiddi eftir hryggnum sem var mjög óvarinn og töluverða fallhættu beggja vegna. Þetta voru tvær spannir og tóku sinn tíma því við vildum búa til örugg og djúp fótspor þar sem við unnum okkur upp eftir íshryggnum. Janet leiddi loks síðustu spönnina þar til við komumst öll á leiðarenda. Tindinum náð.

Þessi saga, ásamt mörgum öðrum, birtist upphaflega í 9. tölublaði af Úti.

Hryggurinn var nokkuð krefjandi og öryggið skipti öllu máli.