Hálendishlaupið Fire and Ice Ultra var ræst í dag í áttunda skipti. Þetta 250 km ofurhlaup á Norðausturlandi var fyrst hlaupið árið 2012.
Lagt var af stað frá Dreka í Dyngjufjöllum í Vatnajökulsþjóðgarði. Þátttakendur hlaupa með allt á bakinu og gista í tjöldum í sex nætur. Komið verður í mark í Ásbyrgi laugardaginn 31.ágúst.
Um 50 manns taka þátt, en það er ámóta fjöldi og undanfarin ár. Þátttakendur koma frá 14 löndum: Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada, Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Portúgal, Þýskalandi, Sviss, Filippseyjum og Belgíu. Einn keppandi er frá Íslandi. Flestir þátttakendur koma frá Bretlandi, en þeir sem koma lengst að eru frá Ástralíu.
Fjórir hlauparar taka núna þátt í annað skipið, tveir fyrir nokkrum árum og tveir tóku líka þátt í fyrra.
Talsverður vindur var fyrsta hlaupadaginn, en allir þátttakendur skiluðu sér heilu og höldnu á leiðarenda fyrstu dagleiðina. Hægt er að fylgjast með á fésbókarsíðu hlaupsins.
Og í 2.tbl Úti var hin prýðilegasta umfjöllun um Fire and Ice hlaupið. Erfiðasta hlaup Íslands, án efa.