Marga langhlaupara á Íslandi dreymir um að taka þátt í hlaupi á borð við Marathon de Sables en það er frægt að endemum fyrir það hversu erfitt það er. Þar er hlaupið yfir Sahara eyðimörkina á 7 dögum en hlaup Elds og Ísa á Íslandi – Fire and Ice Ultra -, fer sömu vegalengd á 6 dögum.
Dave Annendale, skipuleggjandi hlaupsins, fullyrðir að hlaupið hér á Íslandi sé erfiðara en Marathon de Sables, sem hann hefur hlaupið nokkrum sinnum. Íslendingar, sem langar að reyna sig við alvöru áskorun á borð við margra daga langhlaup, eru því með eitt slíkt hlaup í bakgarðinum. Tvö reyndar, því sömu skipuleggjendur héldu í sumarbyrjun í ár 125 kílómetra þriggja daga hlaup á Reykjanesi sem 18 hlauparar, þar af einn Íslendingur, tóku þátt í.
Dave Annendale hefur alla sína æfi fengist við ævintýri og áskoranir. Hann var atvinnufjallamaður sem gekk og klifraði fjöll í Evrópu, á Indlandi, Nepal og Tíbet. Hann keppti líka í langhlaupum og vann við það í mörg ár að skipuleggja ofurhlaup á borð við Marathon de Sables. Hann hefur komið að skipulagningu ofurhlaupa á Suðurskautslandinu, í Namibíu, Kína, Mongólíu, Perú, Chile, Víetnam, Egyptalandi og Bretlandi. Hann kom fyrst til Íslands fyrir um 30 árum og heillaðist af landslaginu. Alla tíð frá því dreymdi hann um að skipuleggja hlaup á Íslandi. Hann kynntist núverandi eiginkonu sinni Jórunni Jónsdóttur þegar hann ákvað að láta verða af því árið 2011 að halda hlaup á Íslandi í fyrsta sinn. Þau giftu sig í Kverkfjöllum áður en hlaupið hófst 2015.
Fire and Ice ultra-hlaupið eða Hlaup elds og ísa fer nú fram í sjöunda skiptið, en hlaupið er frá Kverkfjöllum til Mývatns með viðkomu í Hvannalindum, Drekagili og Herðubreiðarlindum. Leiðinni er breytt á hverju ári, meðal annars til að vernda gróður, í samráði við landeigendur og Vatnajökulsþjóðgarð en farið er yfir mjög fjölbreytt og erfitt landslag. Hlaupnir eru samtals 250 kílómetrar á 6 dögum þannig að fólk þarf að vera í verulega góðu formi. Kortinu af leiðinni er haldið leyndu til að koma í veg fyrir átroðning en Dave segir að brautin sé yfirfarin fyrir og eftir hverja keppni. Tveir Sherpar, sem vinna fyrir hann, koma með til Íslands og starfa við keppnina.
Þátttakendurnir eru látnir bera allan búnað til hlaupsins, nema tjöld og vatn. Listinn yfir nauðsynjavörur er alvöru. Hann inniheldur meðal annars neyðarskýli fyrir einn mann, svefnpoka, höfuðljós og alla matvöru á meðan á hlaupinu stendur. Innihald pokanna er yfirfarið áður en farið er af stað svo engar tilraunir séu gerðar til að létta pokann en hann vigtar á bilinu 9-12 kíló. Búnaðarlistinn gerir ráð fyrir því hlauparinn geti séð um sig sjálfur í öllum aðstæðum.
Afar fáir Íslendingar hafa tekið þátt í hlaupinu hingað til. Hámarksfjöldi þátttakenda er 100 manns en um 80 hlupu hlaupið í fyrra. Í sumar eru fleiri en 100 skráðir en þau Jórunn og Dave telja að það verði svipaður fjöldi í ár og var í fyrra. Hlaupið fyllist alltaf mjög fljótt af fólki hvaðanæva að úr heiminum en svo eru alltaf einhverjir sem fresta þátttöku og flytja keppnisréttinn á milli ára. Flestir keppendur eru frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.