Það var „allt gefið í botn í Bláalónsþrautinni“ á laugardagskvöld, eins og sigurvegarinn í kvennaflokki, Karen Axelsdóttir, orðar það í færslu sinni á Facebook. Karen vann frækilegan sigur. Hún skilaði sér í mark á tímanum 1 klst og 53 mínútum, og bætti þar með brautarmet kvenna um tæpar tvær mínútur. 

Keppnin fór fram við frábærar aðstæður að þessu sinni. Öfugt við keppnina í fyrra, sem verður í minnum höfð fyrir mikið harðræði. Veðrið lék við keppendur og meðvindur var mestallan tímann. Brautin var þurr en laus í sér á köflum. Það var því eitthvað um byltur og skrámur. Einn keppandi hlaut opið beinbrot á mölinni rétt fyrir drykkjarstöðina. 

Verðlaunahafarnir í kvennaflokki. (Mynd fengin af fésbókarsíðu HFR)

Sigur Karenar var einstaklega sætur. Hún á að baki frábæran keppnisferil í þríþraut og hjólreiðum. Byrjaði að keppa í þríþraut árið 2006 en lenti svo í áfalli árið 2012, þegar hún mjaðmabrotnaði við hjólreiðar á Spáni. Eftir að hafa jafnað sig á því, kom svo annað áfallið þegar hún hálsbrotnaði í Transalp hjólakeppninni í Ölpunum. Í viðtali við DV fyrir ári, í tilefni af opnun hjólastúdíós hennar í Sólum úti á Granda, orðaði Karen það þannig að við þessi áföll hafi hún „misst keppnisferilinn“. 

Við á Úti leyfum okkur að efast um það, miðað við árangurinn um helgina. Karen er komin aftur: „Að sigra Blálónsþrautina er fyrir mig persónulega mikið stolt þar sem mótið er langstærsta hjólamót ársins og brautin reynir jafnt á mann sem fjalla- og götuhjólara,” segir Karen í færslunni. Og svo þetta: „Rúsínan í pylsuendanum var að vinna liðakeppnina og hjóla síðustu km með vini mínum Inga en það var tilfinningatengt reunion þar sem hann var partnerinn minn í Transalp kepninni þegar ég hálsbraut mig og því miklir endurfundir hjá okkur.“

Alls kláruðu 650 manns keppnina. Tími Karenar var nákvæmlega 1:53:55. Í öðru sæti í kvennaflokki varð Anna Kristín Pétursdóttir á tímanum 2:07:28 og í því þriðja Hrefna S. Jóhannsdóttir á 2:07:48. 

Keppnin í karlaflokki var jöfn og spennandi. Ingvar Ómarsson sigraði á tímanum 1:38:28, en rétt á eftir honum kom Kristinn Jónsson á tímanum 1:38:30. Hafsteinn Ægir Geirsson, sem alloft hefur sigrað keppnina, kom þriðji í mark að þessu sinni á tímanum 1:39:03. 

Ótaldir eru svo allir persónulegu sigrarnir sem fullt af keppendum unnu með sjálfum sér. Ein af hetjum mótsins var Snorri Már Snorrason. Hann hjólaði brautina á enda, með Parkinson. 

Snorri Már kemur í mark, ásamt bróður sínum Heimi. (Mynd af síðu HFR.)