Eins og við höfum sagt frá var Bláalónskeppnin á laugardag alvöru „sufferfest“ eða þjáningarhátíð eins og myndirnar úr keppninni bera með sér.
Við höfðum ákveðið að þjáningarverðlaunin færu til hjólara númer 685 sem er Bjarni Birgisson en myndina fundum við í albúmi Kristins Atlasonar frá keppninni og sýnir Bjarna blóðugan og moldugan í hrauninu skömmu fyrir Ísólfsskálabrekkuna.
Við heyrðum í Bjarna og þessi stríðssaga er ansi hreint mögnuð. Hann og Sigurður Stefánsson lenda í harkalegu samstuði í grófu brekkunni rétt fyrir kröppu beygjuna í átt niður að drykkjarstöðinni. Þeir eru samkvæmt Strava á 50 kílómetra hraða þegar slysið verður. Líklega hefur framhjól Sigurðar rekist í afturdekkið hjá Bjarna. Þeir rotast og liggja báðir meðvitundarlausir með andlitið í jörðinni í 4 – 5 mínútur. Þrír eða fjórir hjólarar fara framhjá þeim í þessu ástandi en gera ekkert. Þegar farið er að huga að þeim ákveður Bjarni að hann ætli að klára keppnina en man ekkert eftir að hafa tekið þá ákvörðun.
„Ég man bara að ég var að hjóla framarlega, sennilega í hópi númer 2, og svo er ég allt í einu að hjóla einn“, hann segist líklega nýbúinn að átta sig á að eitthvað hefði gerst þegar þessi mynd var tekinn.
Bjarni var sendur í sjúkratjaldið við komuna í Bláa Lónið og þaðan á slysó í Reykjanesbæ þar sem augabrúnin var saumuð saman. Hann er rifbeinsbrotinn eftir áreksturinn.
Sigurði, sem lenti í samstuðinu við Bjarna, var fylgt niður að Suðurstrandavegi þar sem hann fór í sjúkrabíl. Hann braut á sér þumalfingurinn og þurfti í aðgerð á sunnudag. Bjarni er margreyndur hjólari og hefur tekið þátt í Bláalónskeppninni átta sinnum.