Allt var kalt. Það virtist vera að bæta í vindinn og það hrikti og brast og brakaði í öllum útveggjum. Studlhutte var umvafinn kulda sem þrýsti sér inn um allar rifur gamla fjallakofans. ískristallar fuku inn í gegnum panelinn eins og örfínn ryksalli. Þetta var í mars.
Róbert Marshall skrifar.
Útidyrnar opnuðust með hvelli og þungir sólar þrömmuðu yfir forstofuna. Inní borðstofuna kom snjóbarinn þreyttur maður með lambhúshettu. Þetta var annar Pólverjanna sem höfðu lagt af stað á sama tíma og við, neðar í Ködnitz dalnum um morguninn. Hann settist umsvifalaust á bekk, dró hitabrúsa uppúr poka sínum, drakk einn bolla og rauk út aftur, væntanlega til að finna félaga sinn. Úti var fjúk og blint á köflum.
„Náðum að hækka okkur á rúmum þremum tímum um þúsund metra og áttum um eitt þúsund eftir í tind Grossglockner, hæsta fjalls Austurríkis.“
Þeir höfðu gengið á snjóþrúgum en máttu sín lítils gegn jöfnum hraða okkar sem gengum á breiðum fjallaskíðum og splittbretti með skinnum og broddum. Við þrjú höfðum haldið jöfnum hraða allan morguninn. Stoppuðum aðeins til að fækka fötum og fá okkur vatnssopa. Náðum að hækka okkur á rúmum þremum tímum um þúsund metra og áttum um eitt þúsund eftir í tind Grossglockner, hæsta fjalls Austurríkis.
Inni í kofanum voru dýnur og teppi og borð og bekkir eins og í íslenskum fjallaskála. Eina mögulega uppspretta hita var viðarmaskína í eldhúshorni borðstofunnar. Engin olíuvél eins og í skálum Ferðafélagsins. Þarna var eldiviður og öxi, eldspýtur og bréfrifur til að kynda. Andreas, leiðsögumaður okkar, hafði strax byrjað að reyna að koma lífi í maskínuna og þegar Pólverjarnir komu á endanum báðir innúr storminum sem nú var að ná hámarki þarna á fjallshryggnum var kominn lítill ylur úr henni. Það snarkaði úr eldhólfinu en viðurinn var kaldur og rakur og hitinn var ekki nægur til að koma vatni til suðu.
Við höfðum fyllt heilan plastpoka með hreinum snjó og vorum byrjuð að bræða hann í stórum potti sem við höfðum hreinsað eftir fremsta megni. Allt leirtau og öll hnífapör voru drulluskítug og ónothæf.
„Það var komið brjálað veður. Mun verra en spár höfðu sagt til um.“
Pólverjarnir komu sér úr blautum snjóugum jökkum og hentu yfir sig dúnúlpum til að missa ekki niður hita á meðan við móktum í einu horni skálans. Það var ljóst að við myndum ekki fara meira út þennan daginn jafnvel þó klukkan væri bara rétt gengin fram yfir hádegi. Það var komið brjálað veður. Mun verra en spár höfðu sagt til um. Andreas bað okkur um að hafa auga með vatninu og fór uppá svefnloft til að leggja sig. Ég fyllti meiri snjó í pottinn og lagðist aftur í hornið. Pólverjarnir voru búnir að færa sig nær eldavélinni og höfðu sett litla útilegupotta með snjó á vélina.
En þeir voru ekki ánægðir með hitann. Þeir voru í kringum þrítugt og vel búnir. Vanir fjallamenn. Þeir komu í skálann um klukkustund á eftir okkur og höfðu lent í verra veðri. Við höfðum gengið berhent á peysum þar til síðasta hálftímann þegar veðrið versnaði snögglega.
Ég var syfjaður og bað þá að fylgjast með vatninu og láta mig vita þegar það syði og heyrði í gegnum mókið hvernig þeir færðust hægt og rólega í aukana við að koma alvöru lífi í maskínuna.
Úti gnauðaði vindurinn á hornum og veggjum kofans og bauðst til að fjarlægja laus borð, útveggi, jafnvel þakið. Vont veður í þrjúþúsund metra hæð í Ölpunum er ekkert grín. Þetta var grimm og frek norðanátt. En Studlhutte hafði staðið þarna á hálsinum í áratugi og var ekkert á förum. Allt lauslegt var löngu fokið útí buskann.
Gegnum svefninn heyrði ég að Pólverjarnir æstust yfir eldavélinni sem var eins og sjötta manneskjan í skálanum. Fyrr en varði einhentu þeir sér af alefli við aðkoma almennilegum hita á kvikindið. Í gegnum svefninn heyrði ég þá djöflast í henni; hvetja hana áfram, snúa hnöppum, opna lok, lyfta hellum. Þeir settu sig inní verkfræðina, hönnunina, lögunina, þreifuðu eftir hita, ekki bara ofaná, heldur þukluðu á hliðinni og bakvið.
Hvernig hugsar svona eldavél?
„Blíðmælgin var áberandi á köflum og birtist í orðum sem hljómuðu eins og „ljúdmí, ljúdmí“ og svo krossbölvuðu þeir henni þess á milli með formælingum sem hljómuðu eins og hrúga af samhljóðum „Snitznískí, sníznískí, Sntnsznaks!““
Það var engu líkara en þeir væru að setja sig inní þankagang hennar og tala hana til. Blíðmælgin var áberandi á köflum og birtist í orðum sem hljómuðu eins og „ljúdmí, ljúdmí“ og svo krossbölvuðu þeir henni þess á milli með formælingum sem hljómuðu eins og hrúga af samhljóðum „Snitznískí, sníznískí, Sntnsznaks!“ Svo hlógu þeir glaðlega þegar lítill logi tók sig upp og það brast í kvisti. Þeir handléku viðinn og ég ímyndaði mér að annar þeirra segði: „Þessi fjárans viður, hann er svo rakur að myndi ekki brenna í helvíti.“
Örstutt þögnin boðaði kaflaskipti: uppgötvun. Þeir ruddu öllum pottum til hliðar og stöfluðu froströkum viðarkubbum ofan á vélina. Það hvissaði í þeim þegar þeir lögðust á hitann og gufan rauk upp af þeim. Eftir örlitla stund var borðstofan eins og gufuklefi og þeir hentu fyrsta forhitaða viðnum inn í maskínuna. Hún blossaði upp.
Ég hafði greinilega sofnað því ég hrökk upp við að þeir hrópuðu glaðir eitthvað sem gat bara þýtt: Það sýður!
„Það mikilvægasta í allri útiveru og hreyfingu. Vatn. Lykillinn að lífinu.“
Það var kominn góður hiti í borðsalinn. Þá var bara að fylla stóran ruslapoka af hreinum snjó og moka á pottana. Vatn í þurrmat, vatn í te, vatn í kaffi, vatn í kakó. Það mikilvægasta í allri útiveru og hreyfingu. Vatn. Lykillinn að lífinu.
Fyrir íslenskan fjallamann er ferðalag á fjallaskíðum um Alpana líkast því að ganga inní himnaríki. Nýfallinn snjór á tröllvöxnum tindum í skýjaborg. Morguninn efir óveður boðar nýrri dag en áður.
Um nóttina stóðu yfir umfangsmiklar framkvæmdir á himnum. Við vorum í vetrarhúsi Studlhutte en það er öllum opið yfir veturinn. Þegar lagst er til hvílu í mínus tuttugu gráðum á slíkum stað er oft gott að muna eftir því að pissa fyrst. Minnst þrisvar. Losa vatn. Það vill enginn yfirgefa heitan dúnpoka til að heimsækja útikamarinn við svona aðstæður.
Á meðan við sváfum á ísköldu risi fjallakofa í miðju álagsprófi var endurraðað í himnaríki. Brekkuskálin framundan var orðin full af snjó. Hengjur höfðu verið teknar niður og settar upp á nýjum stað. Nú voru hlíðar sem stóðu hlémegin við bálhvassa norðanáttina fullar af snjó. Vatn í föstu formi. Lykillinn að eilífðinni. Í fegurðinni feigðin. Klisjukenndur dauði við hvert fótmál: þrennt fórst í snjóflóði í Austurrísku ölpunum. Lífið er hendingum háð. Þú ert í landi guðs.
Getur verið að maður sé mest lifandi þegar þessi staða er komin upp? Viðvarandi hættuástand. Ef þú manst það sem þú hefur lært geturðu komist af. Ef þú verður kærulaus geturðu dáið. Snjóflóðahættumat 101 kennir að meta landslag útfrá hættu. Fara eftir hryggjum. Ekki undir hættusvæði. Vera með ýli innanklæða, stöng og skóflu í bakpokanum. Skipta upp hópnum þegar farið er yfir brekkur sem gætu farið af stað en missa engan úr augsýn. Við fylgjum reglunum og svífum niður fjallið í hægum og varfærnum bogum. Eitt í einu. Púðrið létt og laust og mjúkt udnir brettinu. Samferðamennirnir á undan á skíðum. Guðdómleg veröld alpanna allt í kring. Vindurinn á kinnunum hinum megin við gyllt öryggi skíðagleraugnanna. Hjálmurinn funheitur. Allt eins og það verður best. Náttúruöflin og þú. Landið í manninum. Maðurinn í landinu. Í landi guðs.