„Matterhorn er þannig áskorun að fjallið tekur sér bólfestu í huga manns og situr þar sem fastast frá því hugmyndin að uppgöngu kviknar og líklega til æviloka.“

Hyldýpið blasir við beggja vegna, svitinn drýpur af þér, þú hlustar á marrið í snjónum og eigin andardrátt og hvert einasta skref tekurðu hægt og vandlega. Á örmjóum tindi Matterhorn horfir maður þúsundir metra næstum því beint niður allt í kringum sig og bara má alls ekki detta.

Texti og myndir: Teitur Þorkelsson

Fullkomlega draumkennt háfjallaumhverfi Alpanna, endorfín, adrenalín og fjölmargar sælu-, þreytu- og gleðitilfinningar blandast saman í einstaka upplifun þegar maður, í þriðju tilraun, nær á tind þessa sögufræga og tígullega fjalls.

Ég er hér: Í fjallgöngunni allri og á tindinum sjálfum kristallast hin fullkomna núvitund í þessari einföldu setningu. Það kemst einfaldlega ekkert annað að í höfðinu á manni þá sex til níu tíma sem tekur að komast frá Hörnli fjallaskálnum (3.260m), á tindinn (4478m) og aftur niður í skála.

Í raun má með sanni segja að þessi tilfinning teygi sig bæði langt á undan og ekki síst á eftir sjálfum toppadeginum. Matterhorn er þannig áskorun að fjallið tekur sér bólfestu í huga manns og situr þar sem fastast frá því hugmyndin að uppgöngu kviknar og líklega til æviloka.

Það hjálpaði sannarlega til að margir höfðu séð óvænta fjölmiðlaumfjöllun um ferðir okkar þannig að meira að segja ókunnugt fólk óskaði manni til hamingju og vildi vita meira um ferðina hvort sem það var í sundi eða á förnum vegi.

Hvorugur okkar hafði mikla reynslu af svona bröttu og berangurslegu klettaklifri eins og Matterhorn svo við æfðum okkur í ísuðum klettagiljum í Esjunni, á Kirkjufelli við Grundarfjörð og Norðausturhrygg Skessuhorns.“

Til að fastsetja ferðina á Matterhorn byrjuðum við bræður á því snemma árs að panta og borga fyrir flugið til Genf í Sviss. Þá var það ákveðið. Hvorugur okkar hafði mikla reynslu af svona bröttu og berangurslegu klettaklifri eins og Matterhorn svo við æfðum okkur í ísuðum klettagiljum í Esjunni, á Kirkjufelli við Grundarfjörð og Norðausturhrygg Skessuhorns.

Nokkrum vikum fyrir komu til Sviss bókuðum við bílaleigubíl og leiðsögumenn. Það sem eftir var ferðar var allt bókað 1-5 daga fram í tímann, oftast í símanum samdægurs eða deginum áður. Ráðlegt er að bóka fjallaskála vel fram í tímann. Við vorum þó svo heppnir að geta að mestu breytt þeim bókunum eftir veðri en við breyttum áætlunum okkar í sífellu.

Stór tímagluggi fyrir veður og aðstæður reyndist vera lykilatriði í þessari ferð. Þú verður að gera ráð fyrir hæðaraðlögun, óveðrum og ísingu á þeim tíma sem þú ætlar upp. Ferðin var frá 6-22 ágúst 2018.

Frá flugvellinum í Genf ókum við til Chamonix og tókum kláfinn upp í Aiguille de Midi (3842 m) morguninn eftir. Það er ótrúleg upplifun að stíga út á snarbrattan hrygginn sem liggur niður í Hvíta dalinn og vera umlukinn þeim fjallasal. Fyrsta hæðaraðlögun var stórkostleg sjö tíma ganga yfir Hvíta dalinn til Ítalíu þar sem við sváfum í Torino skálanum (3375 m). Þar er útsýni til Ítalíu og upp til hins rosalega tinds Dent du Geant (4013 m).

Daginn eftir gengum við til baka, gistum í Cosmique skálanum (3613 m) og þá um nóttina lögðum við í hann á tind Mont Blanc du Tacul (4248 m).

„Í þessu veðri fórust þrír menn á svæðinu og vegna myndbanda á Facebook fengum við bræður símtöl frá fjölmiðlum til að lýsa aðstæðum. Stressuðust nú ættingjar á Fróni.“

Á tindinum sáum við svört óveðurský nálgast frá Ítalíu svo við komum okkur samdægurs alla leið niður í Chamonix. Í þessu veðri fórust þrír menn á svæðinu og vegna myndbanda á Facebook fengum við bræður símtöl frá fjölmiðlum til að lýsa aðstæðum. Stressuðust nú ættingjar á Fróni.

Nú var ferðinni heitið til Zermatt þar sem lokatakmarkið Matterhorn gnæfir yfir dalnum. Zermatt er undraland, bílar bannaðir, og raflest ferjar þig síðasta spölinn.

„Seinnipartinn daginn eftir vorum við komnir upp í Hörnli. Vegna grjóthrunsins voru óvenjufáir klifrarar á staðnum eða um tuttugu manns.“

Eftir eina nótt í Zermatt tókum við kláf nærri rótum Matterhorn og gengum í hinn dásamlega Gandegghutte skála (3029m) og snemma morguninn eftir fórum við þaðan með kláf og svo í 90 mín. skemmtigöngu á Breithorn (4164 m).

Nú vorum við vel aðlagaðir hæð og til í tuskið við rætur Matterhorn en þá var komið hávaðarok og ísing á fjallinu, skítaveðurspá og var nú uppgöngu frestað um 3-5 daga.

Eftir nokkurra tíma þunglyndi, snérum við til Frakklands og héldum í úrhellisrigningu á Mont Blanc eftir Gouter leiðinni. Við gistum eina nótt í Téte Rousse skálanum (3167m), fórum í þoku og snjókomu morguninn eftir upp í hinn frábæra Gouter skála (3835m) og náðum tindi Mont Blanc (4809 m) í heiðríkju við sólarupprás næsta dag.

Brunuðu nú bræður aftur til Zermatt þar sem sól skein á Matterhorn. Gengum við upp í Hörnli skála þar sem við áttum bókaða gistingu daginn eftir, klifruðum upp fyrsta lóðrétta 10 metra haftið og klungrið þar fyrir ofan áður en við héldum niður til Zermatt. Leið okkur mun betur andlega eftir að hafa bragðað aðeins á leiðinni.

Að morgni 19 ágúst með fullestaða bakpoka, bókaðan skála og reyrða skó fengum við símtal um að grjóthrun hefði lokað leiðinni upp í Hörnli og að enginn færi á fjallið í nokkra daga. Þvílík vonbrigði. Flugið heim eftir þrjá daga. Draumurinn var búinn.

Til að bjarga geðheilsunni leigðum við fjallahjól og hjóluðum frá okkur allt vit með þetta fjandans fjall glottandi í sólinni yfir okkur allan daginn. Við gjörsamlega kláruðum okkur þennan dag og komum niður lafmóðir, löðursveittir og með krampa í vöðvum.

Þá komu skilaboð frá franska leiðsögumanninum mínum: Stígurinn upp verður áfram lokaður EN þeir sem eru með

„Eftir góðan hádegismat í Hörnli komum við okkur niður til Zermatt og brunuðum til Genf þaðan sem við flugum heim daginn eftir. Það mátti ekki tæpara standa.“

leiðsögumann mega fara upp í fyrramálið.

Seinnipartinn daginn eftir vorum við komnir upp í Hörnli. Vegna grjóthrunsins voru óvenjufáir klifrarar á staðnum eða um tuttugu manns. Það var lítið sofið. Morgunmatur var klukkan 04:30 og hurðin opnuð 04:50.

Mikið lóðrétt klettaklifur og brött ganga í klettaklungri einkenna leiðina og treyst er á höfuðljós fram í birtingu. Stálboltar til trygginga eru víða og mikið um fastar línur og keðjur.

Það er mikill lúxus að vera með leiðsögumann á Matterhorn, maður er alltaf vel tryggður og fer hratt yfir. Ég tók margar einnar mínútu pásur til að ná andanum og taka myndir og video á svakalegustu stöðunum. Ein formleg tíu mínútna snakkpása er tekin við Solvay neyðarskýlið (4003m) og svipað á toppnum.

Ég hef aldrei klifrað svona hratt og var með dúndrandi hjartslátt og funheitur aðeins á ullarbolnum 90% leiðarinnar. Svissneski leiðsögumaðurinn sem Baldur bróðir hafði ráðið fór svo hratt yfir að hann náði aðeins nokkrum myndum í allri fjallgöngunni.

Klifur upp lóðrétta hamra, örmjóa hryggi og klettasyllur tekur við frá Solvay. Við fyrstu snjórönd setjum við á okkur brodda og tökum ísöxi í hönd. Löng og brött snjóbrekka tekur við og síðasta spölinn gengur maður örmjóa hryggi á toppinn.

Þetta er flottasti fjallstindur sem ég hef komið á.“

Þetta er flottasti fjallstindur sem ég hef komið á. Stórkostlegt útsýni um fjallasali til allra átta og beint niður í dalina fyrir neðan. Mont Blanc á sjóndeildarhringnum. Upplifunin var einhvern veginn eins og að vera á flugi.

Við náðum tindinum að morgni 21 ágúst. Leiðsögumaðurinn lætur mann síga stóran hluta leiðarinnar niður en samt tekur klifrið niður álíka langan tíma og upp. Baldur fór þetta allt á sex tímum en ég á átta og hálfum. Eftir góðan hádegismat í Hörnli komum við okkur niður til Zermatt og brunuðum til Genf þaðan sem við flugum heim daginn eftir. Það mátti ekki tæpara standa.

Þetta byrjaði allt með einni spurningu á íslenskum vetrardegi: Ef þú mættir velja þér draumafjall til að fara á í sumar hvaða fjall væri það? Spurningunni var svarað og undrið sem er ætlun mannsins varð að veruleika. Svarið var Matterhorn.