Hundar eru frábærir æfingafélagar. Þeir kvarta aldrei, hætta ekki við æfingu á síðustu stundu og eru eiginlega alltaf til í að fara út með þér! Þótt það kólni í veðri þarf ekki að skilja hvutta eftir heima. Sumir hundar fæðast nefnilega með harðfennið í blóðinu. Á Íslandi er starfræktur Sleðahundaklúbbur þar sem útivistarfólk og ferfætlingar koma saman til að hrista á sér skankana. Okkur lék forvitni á að vita meira svo við fengum Kolbrúnu Örnu Sigurðardóttur, hundaeiganda og ritara klúbbsins, til að sitja fyrir svörum.
Hvers vegna heldur þú að sleðahundasportið hér á landi sé ekki stærra en það er?
„Það er góð spurning. Ég hef oft velt þessu fyrir mér. Það er nefnilega fjöldinn allur af hundum á Íslandi, sem henta vel í þetta skemmtilega sport og sennilega er stór hluti þeirra ekki að fá nægilega mikla, líkamlega útrás, því miður. En svo má ekki gleyma því að sportið sem slíkt er ekki mjög gamalt hér á landi. Hundamenningin hér er í heild sinni nokkrum áratugum eftir á ef við berum okkur saman við aðrar Evrópuþjóðir. Sleðahundaklúbbur Íslands var stofnaður árið 2010 en hann hefur haft það að stefnu sinni að kynna sportið og virkja fleiri til þess að stunda það. Klúbburinn hefur haldið út mótum, hittingum og nýliðakynningum. Núna frá því í vor hafa verið haldnir vikulegir hittingar þar sem fólk hittist og skokkar, gengur eða hjólar saman með hundana sína. Mjög góð stemming hefur skapast í kringum þessa hittinga. Það er líka gaman að sjá fleiri tegundir koma í klúbbinn en það er algengur misskilningur að sleðahundasportið sé bara fyrir sleðahunda.“
„Góður sleðahundur þarf að hafa gott jafnaðargeð og geta unnið vel með öðrum hundum.“
Hvað þykir þér skemmtilegast við sportið?
„Samveran með hundunum er í efsta sæti og það að vinna að markmiðum í samvinnu með þeim er mjög gefandi ferli. Markmiðin geta verið misjöfn, t.d. að bæta þol og styrk, bæta tækni í braut, vinna að meiri hraða, kynna nýjan hund í teymi og finna réttan stað fyrir hann þar. Stundum er maður að vinna með fleiri hunda saman og stundum bara einn en fyrir mér er hvort tveggja jafn gefandi. Þessi tilfinning að ég og hundurinn eða hundarnir erum að stunda íþrótt saman er ólýsanleg. Sleðahundasportið er íþrótt og maður verður að nálgast þetta sem slíkt. Það þarf að bera virðingu fyrir æfingafélaganum (hundinum) sem og keppinautum. Eins er mikilvægt að setja sér raunhæf markmið og nálgast þau af skynsemi. Sumir vilja keppa til þess að bæta tíma og ná sæti og aðrir vilja æfa en ekki keppa. Sumir vilja æfa með öðrum og sumum vilja æfa einir. Sama hvernig fólk kýs að hafa það þá er pláss fyrir alla.“
Er hægt að stunda það allan ársins hring?
„Já, sportið inniheldur nokkrar greinar en aðeins tvær þeirra krefjast þess að hafa snjó – hundasleðaakstur og skíða-jöring. Sú síðnefnda er mjög skemmtileg grein þar sem maður skíðar á gönguskíðum, yfirleitt með einn til tvo hunda sem toga mann áfram. Í sleðaakstrinum ræður hver og einn því hvað hann æfir með mörgum hundum en hér á Íslandi er algengast að keppa með tvo til sex.“
Er þetta hættulegt?
„Nei ég myndi ekki segja það en auðvitað er heilbrigð skynsemi alltaf góð. Nota hjálm á hjólinu og setja ekki fleiri hunda fyrir sleðann, skíðin eða hjólið en maður ræður vel við.“
Hefur hver sleðahundur sérstakt hlutverk?
„Þegar fleiri hundar eru settir fyrir sleða er ákveðin hlutverkaskipting í teyminu. Aftastir, næst sleðanum, eru hjól-hundar. Þeir eru yfirleitt sterkustu hundarnir og hafa það mikilvæga hlutverk að draga sleðann áfram. Fyrir framan þá og upp að næst fremstu röð eru svo liðs-hundar. Þeir hjálpa til við að draga og viðhalda hraða. Í næstfremstu röð eru sveiflu-hundar sem aðstoða við að setja hraðann og beygja sleðanum. Fremst eru svo einn eða tveir forystu-hundar sem hlýða skipunum þess sem ekur sleðanum. Mikið traust þarf að ríkja á milli ekilsins og hundanna sem leiða hópinn.“
Hvað er það sem gerir góðan sleðahund? Er einhver tegund betri en önnur?
„Góður sleðahundur þarf að hafa gott jafnaðargeð og geta unnið vel með öðrum hundum. Hann þarf að hafa viljann til að draga, vera þannig byggður að hann endist vel og lengi í vinnu undir krefjandi aðstæðum og geta t.d. klofið snjó á ferð án þess að eyða of mikilli líkamlegri orku í það. Hundurinn þarf einnig að hafa ákveðna eiginleika sem gera honum kleift að verjast snjó og kulda. Þær tegundir sem eru best til þessa fallnar eru sleðahundategundirnar Alaskan Malamute, Siberian Husky, grænlenskur sleðahundur, Samoyed og Alaskan Huksy.“
Er eitthvað sem þér þykir misskilið við sportið sem þú myndir vilja leiðrétta?
„Sumir halda að hundarnir hafi ekki val, að þeir séu hreinlega þvingaðir til að draga og ráði því ekki hvenær þeir stoppi. Það er hinsvegar ekki rétt. Við segjum oft að teymið fari ekki hraðar en hægasti hundur þess. Ef einhver hundanna vill hægja á sér eða stoppa, þá gerir hann það. Annað sem fólk þarf að skilja varðandi sleðahunda er að þeir hafa verið ræktaðir sem slíkir í mörghundruð ár. Það liggur þeim því djúpt í eðli að draga og fá þeir út úr því mikla gleði og útrás. Þetta eru hundar sem hafa alveg ótrúlegt úthald og líkamlegt þrek sem varla er sambærilegt við aðrar tegundir.“
Geta allir stundað sportið?
„Já eins og áður hefur komið fram þá er sportið mjög fjölbreytt og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæf. Það eina sem þarf er viljinn til að hreyfa sig með hundinum sínum og að njóta þess að vera úti í náttúrunni.“
Hvað með þá sem eiga ekki sleðahunda? Hvert geta þeir leitað sem hafa áhuga á að prófa?
„Það eru allir velkomnir á hittinga Sleðahundaklúbbs Íslands – líka þeir sem eiga ekki hund en vilja samt kynnast sportinu. Vikulegir hittingar eru auglýstir á Facebooksíðu klúbbsins.“
Myndir: Orri Kristinn Jóhannsson