Hvíta í Borgarfirði er ekki mikið hasarfljót. Fátt er um flúðir. Fljótið líður að mestu hægt niður Borgarfjörðinn, hlykkjast milli hárra bakka við gróin tún. Nema auðvitað við Hraunfossa. Þar er Barnafoss ekki beint árennilegur. En við fórum ekki niður hann þegar við fórum niður Hvítá fyrir um ári síðan á kajökum. Við lögðum í hann töluvert fyrir neðan Hraunfossa, þar sem áin er breið og rólyndisleg. Það var sunnudagur í ágúst. Síðdegi. Veðrið var milt en skýjað.
Verkefni dagsins var að prófa svokallaða origamí kajaka í íslenskri — rólegri — jökulá. Feðgarnir John og Bryan — hálfíslenskir og hálfbandarískir — hafa prófað þessa tegund af kajökum á nokkrum stöðum á Íslandi, við góða raun. Við Flatey, á Jökulsárslóni, á Þingvallavatni. Kajakarnir eru framleiddir af fyrirtæki í San Fancisco. Þeir eru brotnir saman og geymdir í tösku. Þannig er hægur leikur að ferðast með þá. Svo eru þeir settir saman á nokkrum mínútum við árbakka eða á strönd, þegar ætlunin er að leggja í hann.
Þetta er flott pæling. Og kajakarnir hafa slegið í gegn og hlotið urmul af verðlaunum í hönnun og útivist. Hægt er að kaupa nokkrar gerðir. Á vefsíðunni orukayak.com má skoða úrvalið, en verðbilið er frá 115 þúsund krónum upp í 320 þúsund.
Þeir buðu vel upp á það sem kajakar gera best: Að geta setið á vatnsfletinum og látið sig líða áfram, áhyggjulaust.
Kayjakarnir reyndust vel í Hvítá. Þeir buðu vel upp á það sem kajakar gera best: Að geta setið á vatnsfletinum og látið sig líða áfram, áhyggjulaust. Að vera staddur í síkri hugleiðslu í svona árfarvegi er svolítið sérstök upplifun. Maður sér landið frá allt öðru sjónarhorni. Það er eins og maður sé að læðast um það, á milli bakkanna, í felum frá öllu öðru. Aðeins fuglar eru þarna og kindur horfa á mann forvitnar.
Við mælum með þessu. Á einum stað á leið okkar var smá hasar. Það eru þrengingar í ánni við brúnna þar sem Borgarfjarðarbraut fer yfir Hvítá. Og þótt þessir tilteknu origamikajakar séu ekki gerði fyrir straumþungar ár, þá stóðust þeir raunina með prýði, og ræðararnir. Við ármót Hvítár og Reykjadalsár var farið á land, eftir um 35 kílómetra og um það bil fimm klukkustunda ferðalag á hraða vatnsins.