„Mig langaði að sjá hvort ég gæti synt alla leið án þess að hafa undirbúið mig sérstaklega. Ég hafði lítið synt síðan í menntaskóla en hafði þó reynt við ýmsar þrekraunir og vissi að maður fer töluvert langt á þrjóskunni þegar skrokkurinn er löngu búinn að fá nóg.“
Þetta segir Eiríkur Stefán Einarsson lögreglumaður um ástæðu þess, í stuttu máli, að hann ákvað að synda fyrsta Urriðavatnssundið árið 2010.
Eiríkur er fæddur og uppalinn við Urriðavatn. Hann synti einn fyrst, en ári síðar synti vinur hans, Sigfús Kári Baldursson, með honum og luku þeir báðir sundinu. Árið 2012 slógust svo fjórir til liðs við Eirík, þeir Sigfús Kári, bróðir hans Hjálmar, Rúnar Þór Þórarinsson og Elmar Logi bróðir Eiríks. Þrír þeirra urðu að hætta vegna krampa og kulda, í slæmum aðstæðum, en bræðurnir Eiríkur og Elmar kláruðu sundið á klukkutíma og fimmtíu mínútum.
Árið 2013 var svo blásið í fyrsta skipti til keppninnar eins og við þekkjum hana. Urriðavatnssundið, undir heitinu Landvættasund — sem er 2,5 km — hefur síðan þá verið hluti af Landvættaáskoruninni. Tuttugu og fimm manns luku þá Landvættasundinu, ári síðar 54, svo 52, svo hundrað manns, svo 87 árið 2017 — við illan leik í vondu veðri — og árið 2018 159 manns.
Besta tímann í Landvættasundinu á Oddur Kristjánsson þríþrautakappi. Hann synti á 34 mínútum árið 2015. Sigfríð Einarsdóttir synti þá á 36 mínútum og 58 sekúndum, sem er besti tíma kvenna.
Jafnframt er boðið upp á styttri vegalengdir á ári hverju. Sérstakt ungmenna- og skemmtisund, 500 metrar, er nýjast.
„Það var líka hvati að ég hafði aldrei heyrt um að neinn hafði synt vatnið endilangt og það væri gaman að vera fyrstur til þess,“ heldur Eiríkur áfram, aðspurður um fyrsta sundið. „Ég var rúma tvo tíma ef ég man rétt sem er nú ekki glæsilegur tími í stóra samhenginu. En ég komst alla leið fyrir rest og bróðir minn Elmar stökk út í og fylgdi mér tæplega hálfa leið eftir að hafa verið í fylgdarbátnum fyrri part sundsins. Þar voru einnig æskuvinur minn Sigfús Kári og eiginkona mín Jónína.“
Þegar haft var samband við Eirík og spurt hvort ekki ætti að gera sundið að árlegum, skipulögðum viðburði, tjáði hann mönnum að honum þætti það ágæt hugmynd ef þeir sæju um alla skipulagningu og allt væri í samráði við landeigendur. „Ég vildi ekki taka þátt í utanumhaldinu sjálfur enda bý ég og starfa í Reykjavík og taldi að ekki væri hægt að treysta á mig vegna þess hversu ófyrirsjáanleg vinnan mín getur verið.“
Eiríkur tekur þó þátt í sundinu á ári hverju. Hann sker sig alltaf úr, enda syndir hann ekki í galla. Einnig er Eiríkur þekktur fyrir að synda bringusund. Þetta gerir það að verkum að það þykir einstaklega gott að fylgja Eiríki. Hann sést vel og syndir beint. Og þekkir leiðina.