Dramatíski áhyggjupúkinn á öxlinni á mér var búinn að sannfæra mig um það að ég myndi drukkna í Urriðavatnssundinu.
Alexía Björg Jóhannesdóttir skrifar.
Þar sem markmið mitt var að verða Landvættur sumarið 2017 þurfti ég að synda Urriðavatnssundið sem er 2,5 km langt sund í ca 14° heitu Urriðavatni. Æfingar byrjuðu í janúar með skriðsundnámskeiði. Einhvern veginn tókst mér að sneiða alveg framhjá skriðsundi í barnaskóla og hef aldrei lært það almennilega. Ég var örugglega eins og Mr. Bean þegar ég mætti á sundlaugarbakkann með allar græjurnar mínar í poka. Setti á mig sundblöðkur, tappa í eyrun, sundhettu, stór sundgleraugu og nefklemmu. Allt tilbúið og ég voða spennt en svo þegar ég byrjaði að synda skriðsundið þá var ég bara næstum dáin. Ég náði engan veginn að anda og synda á sama tíma. Samt er ég kona og á að geta gert marga hluti í einu. Með hverjum tímanum varð þetta örlítið betra en undir lok námskeiðs tilkynnti kennarinn að það tæki um 7-9 mánuði að mastera skriðsundið. Þar sem keppnin var eftir 5 mánuði þá ákvað ég að einbeita mér frekar að bringusundinu og synda það hratt.
Skellurinn varð þegar kom að því að færa sig úr sundlaug yfir í stöðuvatn. Myrkrið og dýptin umlauk allt. Það var ekki nokkur leið að sjá til botns og við svona aðstæður var mjög auðvelt að missa stjórn á hugsununum og handvissa sig um að nú væru endalokin komin. Það gerðist strax á fyrstu æfingunni. Sem betur fer var mér „bjargað“ um borð í bát þegar ég var farin að missa vonina og ofanda lengst úti í stöðuvatni.
„Á einhvern ljóðrænan hátt dönsuðum við saman, aldan og ég.“
Keppendur þurfa að verða sér út um sundgalla fyrir keppnina. Það eru einhver skemmtilegustu kaup sem ég hef gert. Þegar maður smeygir sér í níðþröngan neopran gallann þá stækkar egóið, maður verður beinni í baki og eiginlega bara breytist í ofurhetju. Við hjónin vorum orðin nokkuð lunkin við að skella okkur í gallann heima og keyra upp að Hafravatni og taka sprettinn þar. Stundum læddist að mér sú von að bíllinn myndi bila á leiðinni eða við yrðum stoppuð af löggunni svo ég þyrfti mjög nauðsynlega að spranga um Miklubrautina í sundgallanum mínum.
Dagana fyrir keppni voru margar andvökunætur þar sem ég var orðin nokkuð viss um að mér myndi takast að drukkna í þessum ódrukknanlega sundgalla. Samt var þráður í mér sem hlakkaði til og auðvitað kom ekki til greina neitt annað en að gera þetta. Þetta var áskorun sem mig langaði að tækla.
Þegar kom að keppnisdeginum sjálfum var veðrið snælduvitlaust og háar öldur. Ákváðu því keppnishaldarar að stytta sundið um helming en fullvissuðu æstu sundkappanna um að þetta væri alveg jafn erfitt og ef um fulla vegalengd væri að ræða. Tilfinningin að ganga út í vatnið var skemmtilega klikkuð. Þetta var nokkurn veginn eins og að fara í leiðangur til að bjarga lífi sínu. Það var áþreifanleg spenna, eftirvænting og hræðsla í rokinu sem barðist á andliti okkar. Svo byrjaði sundið og baráttan hófst. Það kom sér vel að ég hafði æft mikið bringusundið því ég náði að stinga mér undir öldurnar og á einhvern ljóðrænan hátt dönsuðum við saman, aldan og ég. Þegar rokið náði að skvetta hressilega í andlitið á mér þannig að ég missti andann þá var lykillinn að henda sér yfir á bakið og fljóta þannig meðan maður náði stjórn á önduninni aftur. Þannig gekk þetta nokkrum sinnum þar til ég var allt í einu búin með þetta, komin í mark skælbrosandi og lifandi í þokkabót.
Þrátt fyrir dass af dramatík var þetta hrikalega skemmtileg upplifun og ég myndi pottþétt mæta aftur næst. Ef ég væri ekki að fara í brúðkaup.