Hundraðshöfðinginn Þorvaldur Þórsson, eða Olli eins og hann er kallaður, er þekktur fyrir það að hafa gengið á hundrað hæstu tinda landsins árið 2007. Verkefnið kláraði hann reyndar á rétt rúmum níu mánuðum. Uppúr því kviknaði hugmyndin að bæta nokkrum tindum við. Þeir urðu 150 til viðbótar. Úti fékk hann til að segja okkur frá þessu verkefni sem lauk síðasta sumar. 

Þorvaldur V. Þórsson skrifar.

Til að undirbúa 100 tinda verkefnið þurfti ég að gera mikla leit á kortum og í heimildum hvar þessir 100 hæstu tindar væru. Þegar ég taldi mig hafa formlega lokið verkefninu þá hafði ég gengið á rétt um 160 tinda. Margir af þessum tindum voru annað hvort ekki nógu háir eða féllu ekki innan skilgreiningar á því hvað sjálfstæður tindur er. 

Við Tindaborg í Öræfum.

Ég setti mér ákveðin skilyrði og eitt þeirra var að tindur er löglegur ef hann stendur 50 metra eða meira upp úr umhverfi sínu. Þetta höfum við kallað trónun sem er þýðing á enska orðinu „prominence“. Af hundrað tindunum þá eru nánast allir 1400 metrar eða hærri. Við höfum talið nauðsynlegt að hafa listann yfir 100 hæstu toppa með 105 nöfnum þar sem nákvæmni á hæðarmælingum er ekki fullkomin og margir toppar eru í kringum 1400 metra hæð. 

„ Á ferðum mínum við að eltast við alla toppa hærri en 1300 metrar, sem er í raun stórkostleg þráhyggja, hef ég náð að sjá marga ótrúlega fallega staði á landinu.“

Annað skilyrði sem ég setti mér var að fara ekki á bíl utan merkta slóða. Þetta tókst nokkuð vel þótt alltaf megi deila um hversu langt merktir slóðar ná. Það hefði til dæmis ekki verið gaman eftir á ef ég hefði að vetri til keyrt á milli toppa á meginjöklunum og gengið síðustu metrana á toppinn.

Eftir ég lauk þessu verkefni — að toppa hundrað hæstu tindana — hafa sex aðrir fjallamenn náð að ljúka því. Þegar 100 hæstu toppum Íslands var náð fór ég að líta í kringum mig eftir öðru verkefni því ég hef gaman af því að setja mér takmark. Þá varð til sú hugmynd að ganga á alla toppa á landinu sem eru 1300m eða hærri. Ég hafði enga hugmynd um hversu margir þeir væru en það fór mikill tími í að leita á kortum en ekki var hægt að treysta fullkomlega hæðamælingum á þeim.

Ég setti saman lista yfir alla þá staði og toppa sem ég ætlaði að ganga á og hafa sumir þessara toppa reynst lægri en kort segja en aðrir allt af 20-30 metrum hærri sem mér finnst óeðlilegur munur. Töluvert margir þessa toppa hafa engin örnefni. Ég hef eytt talsverðum tíma í að safna örnefnum.  Eins og eðlilegt er þá er alltaf erfitt að meta hvaða toppar eru nákvæmlega 1300 metrar eða hærri með GPS tæki því það er vitað mál að þau eru ekki fullkomin. Þegar margir hafa verið á ferð höfum við tekið meðaltal nokkurra tækja þegar möguleiki er á því. 

Olli á Hrútafjallstindi.

Um miðjan júlí síðastliðinn (2018) náði ég að ganga á síðasta topp á þeim lista sem ég hafði tekið saman og var það norðurtoppur Rótarfjalls sem ég hef ekki fundið örnefni á þrátt fyrir mikla leit. Þessi toppur er rétt suðaustan við upptök Heinabergsjökuls.

Spurningin er: Hvað eru margir toppar á landinu 1300 metrar eða hærri? Ég hef fundið rétt rúmlega 230 toppa og það voru ansi margir fallegir toppar sem ekki hafa staðist trónun eins og kallað er. Ég hef einnig gengið á talsvert marga toppa sem reyndust aðeins lægri en 1300 metrar.

Sem dæmi um hæðir tinda þá gekk ég á Sindra og Ásgrindur sem eru í norðvestur kantinum á Tindfjallajökli. Sindri er sagður á korti 1299 metrar en reyndist vera rétt rúmlega 1290 metrar en Ásgrindur sem áttu að vera lægri voru rúmlega 1300 metrar.  Annað dæmi er Háihnjúkur fyrir norðan Dyngjufjöll. Hann er sagður 1300 metrar á korti en var mældur hjá okkur á tveimur GPS tækjum 1332 metrar á öðru og 1330 metrar á hinu.  Nú veit ég að GPS tækin eru ekki alveg nákvæm en það ætti ekki að muna 30 metrum á þeim og kortum. Þetta segir mér það að ennþá gætu leynst staðir þar sem von eru á toppum sem munu bætast í hópinn á næstu árum. Mín tilfinning er sú að toppar 1300 metrar eða hærri muni reynast vera í kringum 240 þegar upp verður staðið. Þannig að það má áætla að hæð 250 hæstu toppa landsins verði í kringum 1290 metrar eða hærri. 

„Það svæði á landinu sem hefur komið mér mest á óvart er Goðahnjúkasvæðið austast í Vatnajökli.“

Þá kemur spurning hvar eru allir þessir toppar? Af 100 hæstu toppum landsins eru rúmlega 70 á eða við meginjöklana þannig að þeir sem ætla sér að fara á alla þessa tinda verða að vera vanir að ferðast á jöklum. Það svæði sem hefur flesta toppa yfir 1300 metrum er Tröllaskagi, þar eru um 70 toppar. Þar af eru 16 af þeim hærri en 1400 metrar. Allir þessir toppar eru utan meginjökla og má segja að þeir  sem vilja fara á sem flesta toppa hærri en 1300 metrar ættu að byrja á Tröllaskaganum. 

Útsýni frá Sveinsstaðafjalli á Tröllaskaga. Á Tröllaskaga eru 70 tindar hærri en 1300 metrar.

Á ferðum mínum við að eltast við alla toppa hærri en 1300 metrar, sem er í raun stórkostleg þráhyggja, hef ég náð að sjá marga ótrúlega fallega staði á landinu. Á mörgum stöðum er auðvelt að ganga en á öðrum getur verið mjög varasamt. Ég fór tvær ferðir upp í Esjufjöll á árinu 2018 og náði að komast á toppinn á fjórum mismunandi tindum í Vesturbergi Esjufjalla sem eru allir mjög varhugaverðir og ekki á færi nema þeirra sem kunna vel inn á snjó og ísklifur. Þessir toppar eru algerlega ófærir á sumrin þegar engin snjór er en hægt að komast á þá meðan snjór er í fjöllum. Þarna kemur inn á eitt mikilvægt atriði, sem er að eingöngu er fært á ákveðna toppa á ákveðnum tímum ársins og því gott að skipta þeim niður eftir árstíðum. 

Það svæði á landinu sem hefur komið mér mest á óvart er Goðahnjúkasvæðið austast í Vatnajökli.  Þar er ótrúleg náttúrfegurð, svæðið mjög fáfarið og erfitt að komast þangað.  Á svæðinu eru um 16 toppar á meðal 250 hæstu toppa landsins. Mitt uppáhalds göngusvæði er samt Tröllaskaginn og þreytist ég aldrei á að fara það eftir hryggjum og dölum og kanna svæði sem ég hef ekki séð áður. 

Góð áskorun er að finna topp sem er ekki á listanum yfir 250 hæstu toppa landsins og er yfir 1300 metrar á hæð. Umfram allt er að hafa gaman á fjöllum og ganga vel um okkar dýrmætu náttúru.