Árið 2007 ákvað Þorvaldur Víðir Þórsson, kallaður Olli, að ganga á alls 167 tinda á Íslandi til að finna út úr því hverjir væru hundrað hæstu tindar Íslands. Nú getum við hin notið góðs af verkefninu.

Það mætti halda að árið 2017, með allri þeirri tækni sem til er, væri búið að negla það nokkuð kyrfilega niður fyrir langalöngu hverjir væru hæstu fjallstindar Íslands.  En svo er ekki. Hvað er fjall og hvað er ekki fjall?

Hvenær er tindur sjálfstæður tindur, en ekki hluti af öðrum tindum? Hversu háir eru tindarnir í síbreytilegri veröld bráðnandi jökla? Til þess að ákvarða hverjir hæstu tindarnir á Íslandi eru þurfti umfangsmikla rannsóknarvinnu. Hún hefur nú farið fram.

„Tindur þarf að tróna minnst 50 metra yfir umhverfi sitt til þess að teljast raunverulegur tindur.“

Þorvaldur Víðir, Olli.

Árið 2007 ákvað Þorvaldur Víðir Þórsson, kallaður Olli, að finna út úr því hverjir væru hundrað hæstu tindar Íslands. Lagt var upp með þá skilgreiningu að tindur þyrfti að tróna minnst 50 metra yfir umhverfi sitt til þess að teljast raunverulegur tindur. Til að ákvarða hvaða tindar ná þessum mörkum þurfti að mæla ekki bara tindana sjálfa heldur einnig nálæga tinda og umhverfið í kring.

Þeir Kristján Þórhallur Halldórsson og Magnús Ingi Óskarsson voru næstir til að ganga á alla hundrað hæstu tindana.  Undanfarið hafa þessir þrír félagar, sem allir hafa lagt á sig gríðarlega vinnu við að mæla og ganga á alla þessa tinda, unnið að því að gefa út veglega bók um verkefnið með leiðarlýsingum og leiðbeiningum.

Á næstu 10 árum efnir Ferðafélag íslands til leiðangra á 100 hæstu tindana. Því verkefni var ýtt úr vör á 90 ára afmælisári félagsins 2017 og mun ljúka þegar félagið verður 100 ára. Allir geta tekið þátt í ferðunum og ekki er nauðsynlegt að vera félagi í FÍ. Eins er fólki vitaskuld frjálst að ganga tindana á eigin vegum.

Ferðafélagið býður hins vegar upp á vottun um það að fólk hafi klárað verkefnið. Allir sem klára að ganga á tindana, með vottun frá sérstakri verkefnisstjórn FÍ, fá heiðursnafnbótina Hundraðshöfðingi. Allar reglur um það hvernig slík skráning og viðurkenning fæst er að finna á heimasíðu Ferðafélagsins, www.fi.is.

Listinn yfir hundrað hæstu tindana:

Margir þeirra tinda sem eru á listanum yfir hundrað hæstu tinda landsins eru á jökli. Eftir því sem jöklar bráðna og breytast geta þessir tindar hækkað eða lækkað. Listinn er því lifandi og verður aldrei alveg endanlegur. Þetta er jafnframt ástæða þess að á listanum eru í raun alls 103 tindar, því erfitt er að gera upp á milli sumra þeirra í þessu síbreytilega umhverfi.

En hvað um það. Hér er alla vega listinn. Þá er ekkert annað að gera en að prenta hann út, troða honum í rassvasann og byrja að ganga. Svo er hægt að tikka smá saman í öll boxin.