Það er óhætt að segja að námsframboð fyrir fólk sem hefur áhuga á náttúrunni og útivist hafi aukist töluvert undanfarið. Við sögðum um daginn frá spennandi námi í ævintýraleiðsögumennsku. Annar möguleiki fyrir ungt útivistarfólk er nám við nýjan Lýðháskóla á Flateyri.

Námið ber yfirskriftina Hafið, fjöllin og þú. „Þetta er námsleiðin fyrir þig sem dreymir um að upplifa náttúruna á nýjan hátt,“ segir í lýsingu á náminu. „Læra að ferðast um hana, vinna með hana, nýta hana og kanna á öruggan hátt.“

Í náminu afla nemendur sér alls konar reynslu, eins og að veiða þorsk, stunda skíðamennsku í vestfirskum púðursnjó, stúdera norðurljós, klífa fjöll, gera net klár til veiða, róa kajak, gera ljúfmeti úr alls kyns hráefni, fanga náttúruna á mynd og alls kyns fleira. Stór hluti námsins fer fram utandyra, í hvaða veðri sem er enda stór hluti námsins að upplifa og læra á náttúruna, og þar með sjálfan sig, í öllum sínum margbreytileika.

Helena Jónsdóttir framkvæmdastjóri Lýðháskólans segir að töluverð eftirspurn sé eftir náminu. Margir hafi sótt um. Hver sem náð hefur 18 ára aldri við upphaf námsannar getur sótt um skólavist. Umsóknarfrestur fyrir næsta skólaár rennur út á miðnætti 21. júní. Til að eiga öruggt skólapláss og húsnæði á heimavist fyrir næsta vetur þurfa umsóknir að berast fyrir þann tíma. „Eftir 21. júní munum við þó áfram taka við umsóknum,“ segir Helena. „Við tökum þá afstöðu til þeirra um leið og þær berast.“

„Við sjáum fram á afar spennandi og lærdómsríkan vetur með hópi af nemendum úr ólíkum áttum,“ segir Helena. „Allir eiga þessir nemendur það sameiginlegt að vilja taka frá heilan vetur, læra eitthvað nýtt og reyna á sig við nýjar aðstæður.“