Nú þegar æska landsins er að útskrifast úr framhaldsskólum og margir að leita sér að háskólanámi við hæfi teljum við á Úti fulla ástæðu til að benda á einn góðan möguleika fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á útivist: Ævintýraleiðsögunám á Keili.
„Þetta er átta mánaða nám á háskólastigi með mikla atvinnumöguleika bæði hér heima og erlendis,“ segir Arnbjörn Ólafsson hjá Keili. „Fjórir mánuðir af þessum átta fara fram í verklegri kennslu víðsvegar um landið, þannig að nemendur fá gott tækifæri til að ferðast um og stunda verklegu áfangana í náttúru Íslands.“
Keilir hefur boðið uppá þetta nám í nokkur ár. Um 70 manns, á öllum aldri, hafa útskrifast úr náminu. Námið er sambærilegt við það sem viðmælandi okkar hér á Úti, ævintýramaðurinn Jökull Bergmann, sótti sér til Kanada. Boðið er upp á námið í nánu samstarfi við Thompson Rivers University (TRU) í Kanada, þar sem Jökull nam, og útskrifast nemendur með alþjóðlega viðurkennt skírteini frá þeim (Adventure Sport Certificate).
Það er einmitt upplagt, segir Arnbjörn, af menn vilja svo halda áfram í frekara nám, að fara í kjölfarið út til Kanada í Thompson Rivers. Eða fara til dæmis í ferðamálafræði hér heima.
„Það fá hinsvegar eiginlega allir atvinnutilboð áður en þeir ljúka náminu, bæði hér heima og erlendis, þannig að nemendur eru eftirsóttir starfskraftar,“ segir Arnbjörn.
Námið hljómar ekki leiðinlega: Nemendur eru viku í Breiðafirðinum á sjókajak, viku á Tröllaskaga á fjallaskíðum, viku á straumvatnskajak í Hvítá. Svo er dágóðum tíma varið í óbyggðaferðir á Skaga, klifur á Suðurlandi, flúðasiglingar í Skagafirði, jöklaferðir í Svínafelli og margt fleira.
Ekki galið. Umsóknarfrestur er til 11.júní.
Ef þið eruð ekki sannfærð þá skoðið þetta á Instagram hér.
Svo verður Keilir líka með opinn kynningarfund um námið í Midgard á Hvolsvelli, annað kvöld, fimmtudaginn 31. maí, kl. 20:00. Allir eru velkomnir.