Jökull Bergmann í Skíðadal er ókrýndur konungur fjallaskíðamennsku á Íslandi. Hann er líka brautryðjandi í ferðaþjónustu. Aldrei hefur verið skíðað jafnmikið á Tröllaskaga. Jökull talar við Úti um skíðin og klifrið, fyrirtækið, ósnortna fegurð og miskunnarleysi fjallanna.

Jökull Bergmann er fyrir löngu orðinn að goðsögn í samfélagi íslensks fjallafólks. Hann hefur staðið  fyrir ævintýralegri uppbyggingu á fyrirtæki sínu Bergmönnum – Arctic Heli Skiing, á heimaslóðum forfeðra hans að Klængshóli í Skíðadal, hann býr yfir gríðarlegri fjallareynslu, hefur langmenntað sig í fjallaleiðsögn og þannig aflað sér víðtækra réttinda til leiðsagnar á alþjóðavettvangi. Jökull er fyrsti alþjóðlega faglærði fjallaleiðsögumaður okkar Íslendinga og hefur ennfremur lent í tveimur hrikalegum fjallaslysum sem fæstir hefðu átt afturkvæmt úr. Nafnið sjálft hefur að auki átt sinn þátt í að byggja upp áru og ímynd manns sem virðist fæddur, eða að minnsta kosti skírður, til að vera á fjöllum.

Hann er að norðan. „Ættfeður mínir hafa búið þarna í Skíðadalnum kynslóðum saman þannig að þarna hefur fjölskylda mín elst við kindur um fjöll og firnindi uppúr þessum þröngu dölum á Tröllaskaganum,” segir Jökull og bætir við að hann hafi að mörgu leyti alist upp hjá ömmu sinni og afa á Klængshóli.  „Þau voru bændur en líka miklir náttúruunnendur. Afi minn var í því að skjótast uppá fjallatinda bara til að skoða og kanna landið. Þau innstilltu mig inná þetta hugarfar gagnvart náttúrunni.”

Það kom því af sjálfu sér að Jökull fékk mikinn áhuga strax sem unglingur í Reykjavík á tæknilegri fjallamennsku, klifri og ísklifri. Á sama tíma og jafnaldrar hans fölsuðu skilríki til þess að komast inná skemmtistaði, gerði hann slíkt hið sama til að komast í nýliðaþjálfun hjá Flugbjörgunarsveitinni. Hóf þjálfun þar 16 ára gamall.

„Mér tókst að leyna aldri mínum þar til ég var orðinn nógu góður til að þeir skutluðu mér ekki öfugum út þegar þetta komst upp. Þarna komst ég í kynni við menn sem voru í harðari efnum, í klifurlegum skilningi. Þetta leiddi til allskyns ævintýra og meðal annars til fyrsta ferðalags af mörgum í Alpana sumarið ‘94 þar sem ég var í heilt sumar að klifra allskyns leiðir sem engir Íslendingar höfðu verið að fara til þessa ásamt klifurfélaga mínum til margra ára, Ásmundi Ívarssyni. Ég kom til baka reynslunni ríkari.”

Jökull er sennilega Íslandsmethafi í frjálsu falli.

Fjallabröltið var ekki áfallalaust: „Ég lenti síðan í mjög slæmu klifurslysi í desember ´94. Setti sennilega Íslandsmet í frjálsu falli í klifri þegar ég hrapaði heila klifurspönn, sennilega um 50 metra. Kurlbraut á mér öklann og legginn á öðrum fæti. Skreið í 6 tíma, niður Blikdal í Esjunni illa haldinn af ofkælingu. Þetta voru erfið brot og mjög flókin viðgerð en hún tókst.“

Hann segist hafa verið kominn galvaskur aftur í Alpana sumarið 1996. Harðari og forhertari en nokkru sinni áður. Það sumarið klifraði hann margar af frægari leiðum Alpana í klassísku Alpaklifri, þar á meðal Norðurvegg Cima Grande í Ítölsku Ölpunum og hinn víðfræga Bonatti-turn á Dru sem er einn hrikalegasti tindurinn ofan Chamonix dalsins. Bonatti-turninn, og samnefnd klifurleið, hrundi reyndar í miklu grjóthruni árið 2005 svo að þeim fjölgar ekki sem hafa klifrað þá leið.

Jökull segir að þetta hafi í byrjun verið gert meira af kappi en forsjá. „Það sem varð manni til lífs er að áður en við fórum fyrsta túrinn í Alpana ’94 þá á sautjánda ári hafði ég kynnst frönskum strák, Gregory Facon, sem var skiptinemi á Íslandi og er enn einn af mínum bestu vinum. Fyrsta sumarið vorum við með honum og hans félögum sem allir voru galnir franskir klifrarar. Hann byrjaði á því að fara með okkur uppá Mont Blanc um leið og við komum út og auðvitað ekki hefðbundna leið heldur klifum við suðurvegginn á Mont Blanc sem er 2000 metra há ísbrekka. Hún endaði á ísklifri upp 15 metra háan yfirhangandi ísvegg. Við höfðum aldrei séð svona stór fjöll áður og aldrei klifrað neitt í svona lengdum. Gregory sagði okkur ekki að hafa áhyggjur, við ættum bara að elta hann. Hann er algert fjalladýr og klifrar ennþá í þessum stíl. Ég fékk mjög gott uppeldi hjá honum og í dag erum við með sömu menntun nema hann er menntaður fjallaleiðsögumaður í Frakklandi en ég með sömu gráðu frá Kanada.”

Lífið snerist um fjöllin og Jökull hafði ekki hugsað lengra en þau náðu. Það var svo í síðari Alpatúrnum að sú hugmynd kviknaði hjá Jökli að hægt væri að hafa ástríðuna að starfi. „Maður sá það í þessum fjallaþorpum þarna úti að það var mikil virðing borin fyrir þessari starfsstétt. Fjallaleiðsögumaðurinn var efstur í virðingastiganum þarna við hliðina á þorpslækninum og dómaranum. Það eru gríðarlegar hefðir tengdar starfinu og mýmörg dæmi þess að þarna séu strákar í fimmta eða sjötta lið í beinan karllegg að sinna leiðsögn.”

Hann segir að það hafi reynst auðvelt að fá vinnu hér heima við gönguleiðsögn. Hann fór fljótlega að vinna fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn og var einn af þeirra fyrstu starfsmönnum. „Ég var að leiðsegja í Skaftafelli þegar þar var á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna bara einn maður í göngutjaldi og gamall Lapplander jeppi. Þeir voru að byrja með sitt fyrirtæki og bjuggu þar með til starfsvettvang fyrir fjallaleiðsögn á Íslandi.”

Púður á Tröllaskaga. Mynd: Michael Neumann.

Jökull segist fljótlega hafa orðið meðvitaður um nauðsyn þess að safna mikilli reynslu, klifra, skíða og skrá hjá sér af nákvæmni tegundir af leiðum og erfiðleikagráður sem þyrfti til að komast í nám í fjallaleiðsögn. „Það er mjög langur aðdragandi að því að komast í þetta nám. Ef einhver byrjaði í dag sem ekkert hefur gert, tæki það kannski 5-7 ár að safna nægilegri reynslu bara til að geta sótt um.“

Hann segist hafa verið kominn með ákveðnar efasemdir um það hvort hann ætti að leggja þetta fyrir sig. Í fyrstu var hann spenntur fyrir því að verða fyrstur Íslendinga að ná sér í þau réttindi sem í boði voru en reynslan var orðin slík að hann gat gengið í þá vinnu sem honum sýndist á Íslandi. „Þá fór ég að velta fyrir mér hvort ég ætti að ganga í gegnum þessi próf bara til þess að koma heim til Íslands þar sem engra réttinda er krafist.”

„Ég var allt nema dauður.“

Í janúar 2002 lendir Jökull svo í stóru snjóflóði og slasast mikið. Þrír hálsliðir brotnuðu og 13 bein til viðbótar. „Ég var allt nema dauður. Spurningarnar sem blöstu við snerust um það hvort maður myndi lifa þetta af og hvaða hreyfigetu maður hefði.”

Á sjúkrahúsinu lá Jökull með allan líkamann í heilspelku og gerði það að markmiði sínu að hann skyldi komast aftur í form til að geta lokið þessu námi. Það varð að mjög stórri gulrót, segir Jökull og segist hafa einbeitt sér að batanum af miklu afli. Hálfu ári eftir slysið toppaði hann Kilimanjaro í Afríku með viðskiptavin.

„Það rann líka upp fyrir mér eftir slysið að þó það sé gott og blessað að vera leiðsögumaður þá þarf ekki nema eitt slys og maður hefur misst öll verkfæri til starfsins úr höndunum á sér. Líkami leiðsögumannsins er hans helsta verkfæri og eitt alvarlegt slys getur sett mann úr leik. Maður þarf þess vegna að vera með eitthvað varaplan í gangi.”

Það varð því úr að Jökull skráði sig í tveggja ára diplómanám í ævintýraferðamennsku við Thompson Rivers háskólann í Kanada. Hann segir námið hafa verið byggt upp þannig að fyrra árið hafi ólíkar tegundir ævintýraferðamennsku verið kynntar fyrir námsmönnum en seinna árið hafi farið í að vinna heilstæða viðskipta- og markaðáætlun fyrir eigið fyrirtæki. Það hafi verið lokaverkefnið. „Í mínu tilfelli vissi ég alveg hvað ég var með í höndunum hér á Tröllaskaganum. Allt sem ég hef verið að gera hér, lagði ég drögin að í þessum verkefnum sem ég vann við skólann.”

Jökull fékk inngöngu í kanadíska fjallaleiðsögunámið á sama tíma og hann var við Thompson Rivers og náði að sinna hvoru tveggja um skeið en var svo tvö ár til viðbótar úti í Kanada að ljúka náminu í fjallaleiðsögninni en þaðan útskrifaðist hann með alþjóðleg fjallaleiðsögumannaréttindi UIAGM/IFMGA vorið 2008.

„Við stofnuðum síðan fyrirtækið tíu mínútur í hrun. Ég var úti í Kanada þegar allt var geðveikt hér heima og kom síðan heim í hruninu og byrjaði að selja fólki ferðir til Íslands sem, vegna gengisins eftir hrun, kostuðu ekki neitt. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri.”

Hann segir Tröllaskagann vera einn af flottustu stöðunum í heiminum til að stunda fjallaskíðamennsku. „Ég var búinn að vera fimm heila vetur í Chamonix þar sem ég bjó eins ódýrt og mögulegt var og skíðaði alla daga, ásamt því að klifra vetraralpaleiðir, en það var samt ekki fyrr en eftir slysið að það rann skyndilega upp fyrir mér að ég er frá miðju paradísar.” Hann segist ekki hafa verið búinn að skíða mikið enda komi hann inn í útivistina í gegnum klifrið. „Þetta er í raun furðulegt vegna þess að ég kem af þessu svæði hér þar sem hefði verið svo miklu nærtækara að verða skíðamaður, en ég var ekki búinn að skíða svo mikið hér áður en ég byrjaði á því erlendis.”

Hann segir fyrstu viðskiptavinina sem komu með á Tröllaskagann hafa upplifað það að vera einir í heiminum. Fyrstu árin hafi engir verið í þessu. „Þetta hefur breyst mikið á síðustu árum. Síðast þegar ég skannaði internetið voru hátt í sjötíu fyrirtæki og fjallaleiðsögumenn í heiminum að selja viku langa fjallaskíðatúra á Tröllskagann sem allir eru nákvæmlega eins og fyrsta ferðin sem við markaðssettum. Suma daga yfir hávertíðina í apríl og maí eru hundruð manna á fjallaskíðum og manni líður eins og maður hafi skapað einhversskonar skrímsli. Það sama er með þyrluskíðamennskuna. Við vorum fyrst af stað en síðan hafa bæst við tvö skíðafyrirtæki sem eru að reyna að gera nákvæmlega það sama og við. Ég viðurkenni að það er pirrandi að hafa dregið vagninn í öll þessi ár og horfa á aðra starta í kjölsoginu. En maður er líka stoltur af því að hafa skapað fullt af störfum hér á svæðinu og í raun alveg nýjan starfsvettvang og tækifæri fyrir fólk. Það eru á bilinu tíu til fimmtán fjölskyldur hér sem lifa af því sem við erum að gera og þeim fjölgar hratt.”

Á toppnum. Mynd: Dirk Collins.

Hefur hann samviskubit yfir því að þyrluskíðamennska sé e.t.v. ekki mjög umhverfisvæn leið til að upplifa náttúruna? „Já, ég hef það að vissu leyti,” svarar hann. „Þetta er flókið fyrir mér á margan hátt sökum þess að rætur mínar liggja í fjallskíðun og klifri. En ég veit að það er massatúrisminn sem mengar margfalt á við það sem mín starfsemi mengar. Ég er með mjög dýra þjónustu sem ekki allir hafa efni á og á sama tíma er það fólkið sem kemur til okkar sem hefur mest um það að segja hvernig náttúruvernd er hagað og hvernig umræðan stýrist þar sem að það er jú því miður oftast peningavaldið sem hefur lokaorðið. Ég lít þannig á það sem okkar skyldu, sem erum í návígi við þetta fólk, að kenna þeim og kynna fyrir þeim gildi ósnortinnar náttúru og verndun hennar og vil meina að vægi þess að hafa beinan aðgang að þessu fólki sé mikið og gríðarlegt tækifæri fyrir rödd náttúruverndar, og ég nýti það. Ég veit líka að fjallaskíðamennska og þyrluskíðamennska fer ekki alltaf saman. Ég kynntist því á austurströnd Grænlands – þar sem að ég leiðsagði í fjallaskíðaferðum áður en þyrlan kom til sögunnar – hvað það getur verið mikil eyðilegging á upplifuninni að fá þyrlurnar yfir sig. Ég sá því í hendi mér að þetta yrði að vera þannig hér heima að við gætum flogið á önnur svæði ef fjallaskíðamenn væru í fjallinu. Þetta gengur ekki nema þyrluskíðunin beri virðingu fyrir hinni ferðamennskunni. Það tekur okkur t.d eina mínútu að fljúga vegalengd sem fjallaskíðamaður fer á deginum og þess vegna mjög auðvelt fyrr okkur að fara annað ef fólk er á svæðinu. Það er svo lítill hluti af þessu landsvæði hér sem er aðgengilegur fyrir fjallaskíðafólk, þannig að við höfum úr miklu að velja þegar við erum komin á loft.”

Mynd: Michael Neumann.

Jökull segir að leiðsögumenn á sínum vegum hafi það sem reglu að yfirgefa fjöll þar sem sést til fólks á fjallaskíðum. Þyrluskíðamennskan á auðvitað ekki að vera allsstaðar, segir Jökull. Hann bendir á að stór og mikil svæði á Austfjörðum henti vel til fjallaskíðamennsku en passi ekki vel fyrir þyrluskíðamennsku. Aðgengið þar sé frábært fyrir fjallaskíðafólk en landið sé hins vegar þannig að á stórum fjallgörðum séu kannski bara 3 til 4 leiðir sem eru skíðanlegar alla leið niður.

„Það er vel hægt að ferðast um alla Austfirði í flottum dagsferðum fyrir fjallaskíðafólk keyrandi milli staða. Þyrluskíðamennska myndi gleypa allt sem í boði er á mjög skömmum tíma og eyðileggja svæðið fyrir fjöldanum.” Þetta er eins og með allar auðlindir, það þarf að setja reglur og stýra til að eyðileggja ekki heildarupplifun fólks sama hvort að það ferðast fótgangandi eða í þyrlum.

En Jökull hefur líka verið brautryðjandi á öðru sviði. Hann hefur gert einkaréttarsamninga um þyrluskíðun við landeigendur nyrðra. „Það sem ég hef gert hér á Tröllaskaganum, og fór fyrir brjóstið á mörgum, er að gera samninga við landeigendur og sveitarfélög um nýtingu á landinu þeirra til þyrluskíðamennsku í atvinnuskyni. Þetta eru í raun auðlinda- eða afnotagjöld. En mér finnst ekkert eðlilegra en að ferðaþjónustufyrirtæki sýni ábyrgð og borgi ef þau eru að fénýta lönd sem aðrir eiga. Þetta kemur líka í veg fyrir að það verði hér svo margir að það eyðileggi upplifunina fyrir öllum. Þetta snýst um að stýra aðgangi að auðlindinni til að hún skaðist ekki. Fjallabyggð hefur t.d ekki viljað gera neina svona samninga og þar eru 3 þyrlufyrirtæki, snjótroðari og fullt af vélsleðum og allir að hamast hvor á öðrum. Það er búið að eyðileggja svæðið að mati margra erlendra fjallaleiðsögumanna sem hafa gert þar út ferðir í fjölda ára og eru nú að leita til mín eftir nýjum hugmyndurm.”

„Fjallaskíðamennska er ein hættulegasta tegund útivistar sem til er.”

Jökull er ánægður með útbreiðslu fjallaskíðamennsku á Íslandi. Hún er tiltölulega ný af nálinni og fer vaxandi. Aðspurður um hvort nægilega sé hugsað um öryggismál svarar hann neitandi. „Við Íslendingar eigum svo erfitt með að innstilla okkur inná að taka leiðsögn og kennslu. Við viljum gera allt sjálf og ekki hlusta á sérfræðinga. Við kaupum rándýran búnað en viljum ekki eyða neinu í kennslu og námskeið sem er jú það mikilvægasta af öllu. Allir ættu að fara á námskeið í mati á snjóflóðahættu áður en þeir fara á fjallaskíði eða skíða með faglærðum fjalla- eða skíðaleiðsögumönnum sem tryggja öryggi og hafa jafnframt þekkinguna til að velja bestu brekkurnar og finna besta snjóinn hverju sinni og þannig hámarka ánægjuna og öryggið. Í staðinn fer fólk bara eitthvað með Dúdda frænda sem þykist kunna þetta allt en í staðinn eyðir það í besta falli dýrmætum frítíma sínum í að hjakkast í einhverju harðfenni eða í versta falli slasað í snjóflóði af því að Dúddi var ekki alveg með þetta eins mikið á hreinu og hann hélt.  Fjallaskíðamennska er ein hættulegasta tegund útivistar sem til er og þótt fjöllin séu fagurhvít og heillandi, þá geta þau verið miskunnarlaus þeim sem ekki kunna þar um að fara.“