Yfir Grænlandsjökul 2022
Hér að neðan er hægt að fylgjast með framvindu átta manna leiðangurs á vegum Vertu úti, þvert yfir Grænlandsjökul frá 13. apríl til 11. maí, 2022.
Hópurinn gengur á skíðum með allan farangur í eftirdragi frá jökulröndinni við Syðri Straumsfjörð/Kangerlussuaq á vesturströnd Grænlands, suðaustur yfir hájökulinn allt þar til komið er til sjávar á austurströndinni, skammt frá smáþorpinu Isortoq. Leiðin er alls um 560 km löng og er hæst farið í tæplega 2500 m hæð yfir sjávarmál. Gert er ráð fyrir að hópurinn verði á jöklinum í 3-4 vikur en meðferðis er matur og vistir fyrir 28 daga. Áætlað er að ganga í 8-10 klst á hverjum degi, að meðaltali um 20-25 km á dag, styst fyrst en vegalengdirnar lengjast svo smám saman, sérstaklega þegar komið er yfir hábunguna og halla fer undan fæti.
Fyrir leiðangrinum fara Vilborg Arna Gissurardóttir og Brynhildur Ólafsdóttir en aðrir þátttakendur eru Aðalsteinn Árnason, Hermann Þór Baldursson, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Sibylle Köll og Steinn Hrútur Eiríksson.