Færið var erfitt í gær og þau hættu að ganga eftir 17 kílómetra. Í þessum miklu kuldum sem leiðangurinn hefur glímt við verður snjórinn svo stamur að það er eins og sleðarnir séu í bremsu.
Þau mældu -35 gráður með vindkælingu og hættu því að ganga klukkan hálf sex til að geta komið upp tjöldum á meðan kuldinn væri enn viðráðanlegur. Þá hófust þau handa við að hita vatn í akkorði til að undirbúa aðra fimbulnótt, en kuldinn síðustu nótt var vel fyrir neðan -30 gráður. Samt leið þeim vel. Þau tvíhita sama vatnið á brúsana. Fyrst til að afþýða tær og byrja að hita upp svefnpokann en brúsarnir eru settir sjóðheitir ofan í pokann. Hitinn í þeim er fljótur að dvína. Þá endursjóða þau vatnið til að hitinn dugi nóttina. Þau eru enn með nóg af bensíni og geta því leyft sér slíkan munað.
Það er erfitt að fara á fætur á morgnanna í nístingskuldanum og ef ekki væri fyrir nauðsyn þess að fara á klósettið þá yrði það nánast ómögulegt. Það er yfirleitt allt í hrími inni í tjaldinu og opið á svefnpokanum blautt og hráslagalegt.
Leiðangursmönnunum okkar tekst þrátt fyrir erfiðleika að halda í gleðina þó allir eigi sína góðu og slæmu daga. Fólk er óþekkjanlegt í kuldanum, allt hrímað og með grýlukerti hangandi á ótrúlegustu stöðum.
Það spáir ámóta kulda í dag og á morgun en minni vindi þannig að þau eru bjartsýn á að þetta fari að ganga betur. Í dag ættu þau að ná hábungu jökulsins og eftir það fer að halla undan fæti. Þau bíða óþreyjufull eftir þessum áfanga. Þeim er alveg farið að finnast að veðrið, og þá sérstaklega færið, mætti leika svolítið meira við þau.