Erfitt færi og hvítablinda töfðu för hópsins okkar á Grænlandsjökli í dag. Þegar hvítablinda er þá eru birtuskilyrði slík að himinn og jörð renna saman í eitt og erfitt er að greina nokkuð í umhverfinu til að staðsetja sig. Fólk getur misst jafnvægisskyn og orðið mjög ringlað í slíkum aðstæðum.

Í dag gengu þau 19 kílómetra og voru ekki mjög ánægð með það en það er engu að síður mun meira en þau komust fyrstu dagana, þegar vegalengdirnar náðu sjaldnast yfir 10 kílómetra á dag.

Annars er hópurinn búinn að koma sér upp mjög fastri og smurðri rútínu sem hjálpar mikið. Þau vakna klukkan sex á morgnanna og leggja af stað klukkan níu. Þau ganga þrjár klukkustundalangar lotur fyrir hádegi með um það bil 10 mínútna stoppi á milli. Þá er tekið aðeins lengra hádegisstopp og svo 5 lotur eftir hádegi. Klukkustund hver. Þau eru yfirleitt að setja upp náttstaði sína uppúr klukkan 6 síðdegis og þá er farið í það að bræða snjó og borða. Þau sofna yfirleitt rétt um og uppúr 10 á kvöldin.

Undanfarið hefur verið það kalt á daginn að þau hafa ekki haft tíma til neins í stoppunum nema að fara annaðhvort á kósettið eða að borða eða að skipta um gleraugu áður en allir eru orðnir kaldir og þau verða að fara af stað aftur. Síðustu tveir dagar hafa hins vegar verið mun hlýrri eða kaldast -16 sem þykir bara lúxus hitastig hjá okkar fólki.

Þau hafa hækkað sig um 13 hundruð metra frá upphafi göngunnar og eiga núna bara eftir 50 kílómetra í DYE-2 radarstöðina sem yfirgefin var á níunda áratugnum. Hún er hægt og sígandi að sökkva í jökulinn. Þar er leiðin langt í frá hálfnuð en þetta er mikilvægur áfangi enda eina áþreifanlega kennileitið á leiðinni og eftir stöðina tekur við flatasti kafli leiðarinnar.

Okkar fólk stefnir á að ná að stöðinni á næstu þremur dögum. Við erum með þeim í anda. Meira síðar.

Hér er svo tengill á heildarumfjöllun okkar um Grænlandsleiðangur Vertu úti.