Í hádeginu á fimmtudag sá hópurinn okkar loksins DYE-2 ratsjárstöðina í 5 kílómetra fjarlægð og fagnaði ákaft. Þetta er mikilvægur áfangi.

Þau komu þangað klukkan 5 síðdegis, slógu upp tjaldbúðum og fóru að skoða í stöðina. Þau fundu enga færa inngönguleið þrátt fyrir að hafa mokað og mokað og gengið undir og allt um kring ferlíkið. Allir inngangar eru komnir á bólakaf í snjó og ís en stöðin er að sökkva í jökulinn. Í kringum hana er gryfja svipuð þeim sem eru í kringum Pálsfjall á Vatnajökli eða Þursborgir á Langjökli.

Leiðangursmönnum fannst þessar aðstæður lygilegar og líkastar því að vera í miðri vísindaskáldsögu. Svo er þarna risastór æfingaflugvöllur við hliðina en þar æfa Herkúles herflugvélar lendingar á ís.

Þau tjölduðu við hliðina á stöðinni og byggðu upp risastóra varnarveggi enda gerði ráð fyrir miklum vindi aðfararnótt föstudags og á föstudag. Þetta er flottasta tjaldstæði í heimi sagði Brynhildur Ólafsdóttir, leiðangursstjóri, í skeyti sínu.

Föstudagsmorgun ákváðu þau að gera daginn að hvíldardegi og halda kyrru fyrir enda veður afspyrnuslæmt til ferðalags. Hvíldin var kærkomin. Flestir sváfu til hádegis og svo var dagurinn notaður í að moka reglulega frá tjöldum, gera við föt og dót, sofa meira og borða.

Skelfilegast var að fara út og gera þarfir sínar segir í skeyti leiðangursstjóra. Enginn kom samur úr því ferðalagi. Ólýsanlegur hryllingur. Veðrið var þannig að þetta var eins og að fara á klósettið í miðjum fellibyl, krókloppinn og fenntur á kaf inn á maga og víðar.

Í gær var fallegur og kaldur dagur á Grænlandsjökli og þau gerðu eina tilraun til viðbótar að komast inn í stöðina áður en þau héldu áfram, en án árangurs. Þau þurftu svo að bíða vegna flugumferðar á flugbrautinni en leið þeirra lá þvert á hana. Súrealískt dæmi á miðjum jökli.

En þrátt fyrir að hafa ekki komist af stað fyrr en um hádegi í gær fóru þau engu að síður 17 kílómetra. Þau gengu í 75 mínútna lotum til að keyra þetta betur áfram og í gærkvöldi var Karen Kjartansdóttir með óvæntan glaðning þegar sending af M&M fór í öll tjöld.

Þau eiga um 4 daga eftir uppá hábungu jökulsins og þá fara kílómetrarnir að telja niður í móti. Þá eiga þau bara 300 kílómetra eftir.