Grænlandsleiðangur Vertu úti náði að fara 11.5 kílómetra í dag í beinni loftlínu sem er lengsta vegalengdin hingað til og þau eru komin í yfir 1000 metra hæð. Þau hafa því náð að komast útúr bláa völundarhúsinu á fjórum dögum sem er í samræmi við áætlun. En þetta hefur ekki verið þrautalaust. Þau fóru 3 kílómetra fyrsta daginn, svo 4 og þá 8 í gær.
Í gær var páskaveisla hjá hópnum og Brynhildur leiðangursstjóri fékk málsháttinn: Enginn kemst lengra en Guð vill – í rúminu. Vakti þetta mikla kátínu meðal leiðangursmanna sem þurfa greinilega ekki mikið til að gleðin lyftist í hæstu hæðir.
Nú geta dagarnir farið að lengjast. Á næstu 5 dögum stefna þau að ratsjárstöðinni DYE 2 sem var yfirgefin eins og í skyndi í október 1988.
Þegar gengið er um stöðina er engu líkara en að fólkið hafi skroppið út eftir hádegismat til að líta til veðurs en ákveðið að fara. Það er kaffi í bollum og vindlar í öskubökkum. Tímarit í miðjum lestri og billjard borð reiðubúið í næsta leik. Meira um það síðar.
Í dag var töluverð vindkæling svo loðhúfur og hettur komu að góðum notum en veðrið hefur engu að síður leikið við þau hingað til. Spáin er góð. Það er töluvert skýjað, sem getur reynt á því þá getur orðið snjóblint á jökulsléttunni. Það verður kalt á morgun en á miðvikudagsnótt virðist ætla að hitna mikið eða allt að frostmarki.