Upphafsorð skeytisins í morgun: Ó þú mikli Grænlandsjökull. Farðu nú að sleppa af okkur hendinni!

Í morgun voru 65 kílómetrar eftir niður af Grænlandsjökli. Það eru um 25 kílómetrar á jökulbreiðunni og svo kemur skörp hægri beygja og þá eiga þau þrjátíu kílómetra eftir niður skriðjökultungu í áttina að skála nærri Isortoq. Planið er að þyrla sæki þau þangað seinnipart mánudags.

Þau fóru seint af stað í gær en þau vöknuðu í leiðindaveðri sem var mun verra en spár gerðu ráð fyrir. Veðrið gekk niður eftir hádegi og þau lögðu af stað klukkan hálf þrjú með það að markmiði að ganga til miðnættis. Um leið og sól settist klukkan hálf tíu varð þó strax svo kalt að ekki var hægt að ganga sér til hita. Þau náðu að fara 25 kílómetra.

Þetta mjakast. Hægar en þau vildu, en mjakast þó.

Þau munu líklega koma heim svolítið breytt. Í fyrradag stóð Karen Kjartansdóttir upp í hádeginu, berhent og á ullarbol og sagði tíma til kominn að mæla hitastigið í blíðu en ekki bara í fimbulkulda. Kom þá í ljós að „hitinn“ stóð í -19 gráðum. Ættingjar þeirra eru farin að undirbúa næturstaði þeirra á svölum og í görðum.

Svona ferðalag breytir fólki. Írskur leiðangursmaður sem dvalið hefur hér í Tasilaq notar enn  pissuflöskuna sína á nóttunni þó klósettið sé í 5 metra fjarlægð.

Spörfuglar eru farnir að sjást og fylgja þeim jafnvel eftir í náttstað til að hafa af þeim skjól í kaldri nóttinni. Þau eru í góðum málum, eiga nóg af mat og biðja fyrir sérstakri kosninga-evróvisjón kveðju heim. Spyrja hvort majonesan í Vogaídýfunni verði nokkuð orðin gul þegar þau mæta.