Leiðangurinn nálgast nú hábungu jökulsins óðfluga og nær henni líklega á morgun. Þá fer leiðin að verða meira niður á við en búast má við að það taki þau 7-8 daga að ljúka leiðangrinum ef allt gengur vel. Þau eru í sambandi við leiðangur Einars Torfa Finnssonar, sem er á vesturleiðinni, og búast við því að mæta honum fljótlega eftir hábunguna. Það verður epískt og eitt stærsta mót íslendinga á Grænlandsjökli fyrr og síðar.
Þau eru núna á 20. degi leiðangursins og hafa unnið 9 klukkustundir á dag í einni striklotu og tekið einn hvíldardag. Í fyrstu glímdu þau við kuldaáverka, sprungnar varir, sokkin augu og blæðandi naglabönd. Núna eru álagsmeiðsl farin að gera vart við sig. Aumar axlir, bakverkur, 3 hnévandamál og aumar hásinar eru mikið teknar þessa dagana.
Það var erfiður dagur í gær. Kuldinn var mikill og þá verður snjórinn eins og sandpappír og erfitt að draga sleða og púlkur. Algert heiðmyrkur ríkti allan daginn eða hvítablinda og lýsti Hólmfríður Vala vel í skeyti til síns fólks þegar hún sagði þetta eins og að ganga inni í hveitipoka.
Í nótt fór frostið niður í -32 gráður og í gærkvöldi var verið að bullsjóða vatn á alla brúsa. Þeir eru síðan teknir með ofan í svefnpokann til að hjálpa til við að hita upp kaldann skrokkinn.
Þann fyrsta maí var hátíðleg stund þegar Sybille, sem er lærð söngkona og tónlistarkennari, söng maístjörnuna með slíkum tilþrifum að viðstaddir komust við. Hópurinn sendi jafnframt frá sér kröfugerð í tilefni dagsins: betri skíðabindinga (en þau eru alltaf að festast í þeim), styttri snjóbræðslutíma og minni kulda.
Í fyrradag flaug framhjá þeim stór hópur af helsingjum, örugglega um hundrað talsins, lágflug eftir jöklinum í suðurátt. Þetta var tignarleg og fögur sjón og góð áminning um mikilvægi samstöðu og samheldni á erfiðu ferðalagi.