Þegar Vertu úti leiðangurinn lagði af stað úr náttstað í morgun, sunnudaginn 8.maí, voru 210 kílómetrar eftir niður á jökuljaðarinn á austurströnd Grænlands. Þau stefna á að ganga 30 kílómetra í dag en í gær fóru þau 25 kílómetra. Þau náðu hábungu jökulsins á fimmtudag og fögnuðu mikið því hér eftir liggur leiðin niður á við. Þetta er því miður týpísk jökulbunga og erfitt að sjá mikinn mun á hallanum og því tæpast hægt að segja að þau séu að renna niður á fleygiferð hinum megin. En það kemur að því að það fer að halla undan fæti.
Veðrið í gær og í dag hefur verið með besta móti. Í gær var svo hlýtt þegar þau vöknuðu að þau þurftu næstum ekki að renna upp dúnúlpunni þegar tjöldin voru tekin niður. Dagarnir á undan hafa verið hrímkaldir og kaldasta nótt leiðangursins leið fyrir 2 dögum en þá sváfu allir í dúnúlpum og dúnbuxum ofan í dúnsvefnpokum.
Í gær var stafalogn og bara -10 gráður þegar þau fóru á skíðin. Mallorkaveður í hugum leiðangursmanna enda fór svo að fólk berstrípaði sig á göngunni og sumir meira að segja komnir úr að ofan. Eftir því sem leið á þykknaði þó upp og á endanum var komin ísköld hrímþoka. Sólin lét svo sjá sig aftur þegar þau tjölduðu í afar fallegu veðri. Þau notuðu góða veðrið í allsherjar hreingerningu á tjöldum. Sópuðu út öllu hríminu og viðruðu svefnpoka. Lummur voru steiktar í tveimur tjöldum og lífið var aftur gott.
Í dag hittust íslensku leiðangrarnir tveir á jöklinum og hafði leiðangur Vertu úti undirbúið sérstakt skemmtiatriði af því tilefni. Þaulæfða söng- og hringdanssýningu sem mikil natni og elja hefur farið í síðustu daga undir agaðri stjórn Sibylle Köll, leikstjóra leiðangursins. Okkur hefur ekki borist til eyrna tíðindi af fundinum en miðað við gps ferla beggja leiðangra virðist fundurinn ekki hafa staðið lengur en í klukkustund. Einar Torfi Finnsson leiðir hinn leiðangurinn fyrir Arctic Hiking.
Það spáir vel næstu tvo daga og ættu þau að geta náð góðum dögum en eftir þrjá daga stefnir í allnokkurn vind og er óvíst með hversu gott ferðafæri verður. Eins og staðan er núna virðast þau því eiga 5 til 7 daga eftir og eru með nægar vistir í það. Þau segjast aðspurð lítið finna fyrir því að púlkur séu að léttast en þær eru auðvitað að gera það og það mun skila sér. Eftir svo langan leiðangur er þreyta orðin allmikil og oft erfitt að næra sig nægilega í kuldanum eða að drekka nóg. En núna er góður gangur og fólkið okkar á endaspretti sögulegs leiðangurs í afar krefjandi aðstæðum.