„Sælir, róa Lagarfljótið með tjöld, alla leið út í sjó?“ – „Ég er til – það eru engir svona dauðakaflar á því er það?“ – „Bara einn sýnist mér, fram hjá virkjun.“ Svona hljómuðu samskipti tveggja vina, seint um kvöld þann 29. apríl, 2020. Þráinn Kolbeinsson og Hjalti Magnússon höfðu þarna sett stefnuna á einstakt ævintýri sem þeim óafvitandi hafði aldrei verið framkvæmt áður. Hvorugur þeirra var vanur löngum kajakferðum en báðir miklir ævintýramenn og þetta var einfaldlega of spennandi hugmynd til að láta hana ekki verða að veruleika. Þann 12. júlí sátu þeir svo hvor á sínum kajak í Jökulsá í Fljótsdal, með tvö tjöld, svefnpoka og birgðir, á leið í næstum sex daga ferðalag niður Lagarfljót með stefnuna á Héraðsflóa.
Texti og myndir: Þráinn Kolbeinsson
Við vorum á leiðinni í siglingu um Grænland sem féll niður vegna veirunnar svo þarna áttum við tveggja vikna glugga sem búið var að eyrnamerkja ævintýri. Okkur leið eins og við yrðum að finna eitthvað skemmtilegt í staðinn. Okkur hafði lengi langað að fara í nokkurra daga kajakferð — ferð þar sem við tækjum allt með okkur, byrjuðum á einum stað og enduðum á öðrum. Fram að þessu höfðum við aðeins farið í stuttar dagsferðir með engu sérstöku markmiði. Við höfðum sáralitla hugmynd út í hvað við stefndum með þessari ferð en það að róa með margra daga byrgðir niður Lagarfljótið alla leið til sjávar var einmitt ævintýri sem myndi uppfylla þessa löngun. Leiðin sem við stefndum á er um 120 kílómetrar og fer um fjölbreytt og magnað landslag Austurlands. Heilt yfir er hún tiltölulega örugg fyrir utan Lagarfljótsvirkjun sem við þyrftum einhvernveginn að komast fram hjá. Fyrir okkur var þetta einfaldlega enn eitt ævintýrið, en á þessum tímapunkti höfðum við ekki hugmynd um þá skemmtilegu staðreynd að þetta hafði aldrei verið gert áður.
Munurinn á ferðalagi og ævintýri
Það voru margir óvissuþættir sem fylgdu þessari ferð. Veðrið, grynningar hér og þar á leiðinni, eðli straumanna og svo auðvitað sú staðreynd að við höfðum enga reynslu af margra daga kajakferð. Einnig var eitt af markmiðum ferðarinnar að búa til myndefni fyrir Austurbrú og Íslandsstofu, sem við vissum ekki nákvæmlega hversu mikið myndi hægja á ferðinni. Það eina sem við höfðum í rauninni stjórn á var hvað við tækjum með okkur og hvort við reyndum þetta yfir höfuð. Þó það sé vissulega góð tilfinning að líða eins og maður hafi stjórn á hlutum, þá var það í raun öll þessi óvissa sem gerði þetta ferðalag að raunverulegu ævintýri.
Þegar við fórum yfir leiðina þá bútuðum hana niður eftir girnilegum náttstöðum og einhverju sem við töldum viðráðanlegum dagsvegalengdum. Þrátt fyrir að vera hvorugur mjög langt undir meðalgreind tókst okkur einhvern veginn að misreikna hvern dag um u.þ.b. 10-15 km. Það þýddi að mögulega þyrftum við að byrja róðurinn aðeins fyrr á morgnanna en við höfðum séð fyrir okkur til að halda áætlun. Þar sem það var meira og minna bjart allan sólarhringinn reyndist það ekki vera mikið vandamál.
Viltu lesa alla frásögnina af sex daga ferðalagi Þráins og Hjalta niður Lagarfljótið?Nældu þér í blaðið rafrænt hér á aðeins 1000 krónur.