„Það er eins og maður sé að sigra þyngdaraflið.“
Sextán ára stelpa þýtur upp brattan, torfæran slóða þráðbeint á topp Æsustaðafells í Mosfellsbæ. Hún hjólar. Hún þarf að hafa smá fyrir þessu. Ekki of mikið samt. Þetta er aðallega spurning um að halda jafnvægi, stoppa ekki, því þá getur verið erfitt að taka aftur af stað í miðri hlíð. Hún kemst upp á topp með bros á vör. Blæs varla úr nös. Fáir hefðu tekið þessi brekku á venjulegu fjallahjóli. Rafmótorinn er það sem þurfti til. Smá extra hjálp, og það er eins og maður sé, semsagt, að sigra þyngdaraflið.
Texti: Guðmundur Steingrímsson Myndir: Guðmundur Steingrímsson, Magne Kvam.
Magne Kvam og Ásta Briem í Icebike Adventures hafa selt útlendu ferðafólki alls kyns ævintýraferðir um Ísland á fjallahjóli í um áratug, en núna er hlé á því. Þau voru svo heppin að nokkru áður en farsóttin skall á höfðu þau ákveðið að taka öll hjólin, tækin og tólin heim í Mosfellsbæ í gám og segja upp skemmunni sem þau höfðu á leigu í Kópavogi. Aðeins að draga saman seglin í fjölskyldufyrirtækinu yfir veturinn.
Þau gátu ekki ímyndað sér í upphafi árs að túrisminn myndi beinlínis hrynja. En öllum krísum fylgja jú tækifæri. Kórónuveiran hefur í raun fært þeim kærkomið næði til vöruþróunar, uppbyggingar og tilraunamennsku. Nú selja þau Íslendingum stutta túra um holta og hæðir Mosfellssveitar, sem er auðvitað náttúruparadís við borgarmörkin, og lengri ferðir inn á hálendið og fjallahjólanámskeið.
Þau höfðu líka tekið ákvörðun um að prófa nýja tegund af hjólum. Tóm kófsins hefur fært þeim upplagt tækifæri til að prófa þau hjól í íslenskri náttúru með Íslendinga sem tilraundýr: Rafmagnsfjallahjól.
Og mikið lifandis skelfingar ósköp er þetta gaman.
Okkur á Úti langaði að sjálfsögðu að prófa. Eina kvöldstund nú í júní fórum við nokkur á bak á spánýjum Scott rafmagnsfjallahjólum hjá Icebike og nutum leiðsagnar Magne undir heiðskýrum kvöldhimni í bráðskemmtilegum túr um Mosfellssveitina. Við hjóluðum inn í Skammadal, þar sem æði merkileg sumarhúsabyggð fyrirfinnst í hlíðunum. Ekkert hús er stærra en u.þ.b. 25 fermetrar. Þetta eru sælureitir nægjuseminnar. Og svæði sem ekkert okkar hafði séð áður.
Það er nefnilega málið við kófið. Ísland er að opnast Íslendingum. Svæði, afþreyingarkostir, útivistarhugmyndir sem Íslendingar hafa varla vitað af eða haft fyrir að kynna sér — en voru hugsanlega í massavís seld erlendu ferðafólki — eru nú að ljúkast upp. Og svæði sem hafa lengi verið beint fyrir framan nefið á þorra landsmanna vekja aukinn áhuga. Tindarnir og dalirnir í Mosfellsbæ eru vitaskuld frábært útivistarsvæði. Magne og Ásta hafa á orði að traffíkin um svæðið sé nánast í veldisvexti.
Úr Skammadal fórum við semsagt upp Æsustaðafells. Kosturinn við að fara þarna um er ekki síst sá að þarna liggja um hæðir og hóla gamlir jeppaslóðar, flestir frá stríðsárunum, þegar hernaðarumsvif voru þarna töluverð. Magne hefur rutt til stærsta grjótinu af stígunum svo þeir henti betur til fjallahjólreiða. Af Æsustaðafelli héldum við að Reykjafelli og niður með hlíð þess niður í Reykjadal þar sem við skemmtum okkur konunglega í lokin við að þræða þrönga skógarstíga í dalnum meðfram Varmá.
Magne segir áríðandi að fara ekki of geyst í sakirnar við að innleiða rafmagnsfjallahjól á Íslandi. Það þarf að prófa hjólin. Sjá hvað þau gera við landið. Auðvitað er rafmagnsfjallahjól ákaflega skylt venjulegu fjallahjóli. Hér er í raun um að ræða fjallahjól með smá extra stuðningskrafti, án þess þó að vera mótorhjól. Mótorinn gerir ekkert nema maður hjóli, auk þess sem hægt er stilla kraftinn. Engu að síður er tilfinningin við að fara um á rafmagnsfjallahjóli töluvert ólík því sem gerist á fjallahjóli. Maður kemst meira. En maður fer ekki jafnlipurlega niður hlíðarnar eða um tæknilega slóða einsog á léttu fulldempuðu venjulegu hjóli. Rafhjólin eru þung, en þau komast. Hin venjulegu eru miklu léttara sem er einmitt nauðsynlegt því maður endar með að bera þau meira á öxlunum eða reiða upp brattar hlíðar.
Líklega er ástæðulaust til að vera að standa í of miklum samanburði. Raffjallahjólin eru einfaldlega ný, frábær leið til að upplifa landið. Kostirnir eru ótvíræðir. Það er auðveldara fyrir fólk að ferðast saman í hóp, þótt getustig hjólaranna sé mismunandi. Frábær möguleiki til hljóðlátrar og ómengandi útivistar opnast fleirum, óháð því í hvaða formi það er. Og vilji maður svitna og púla, þá bara dregur maður niður í rafmagninu. Jafnvel, vilji maður sýnast nagli, þá getur maður auðvitað logið því að samferðarfólki að maður hafi aldrei kveikt á mótornum. Mótor ekki mótor? Hver sér muninn?
Á hitt verður þó alltaf að leggja áherslu, að sérhver umgengni manns við náttúru getur vitaskuld leitt til rasks, og það ber að sjálfsögðu að varast. Raffjallahjólarar eiga að halda sig við slóða, alveg eins og hestafólk, jeppafólk, gangandi fólk og hjólarar á venjulegum hjólum. En það er líklega samt góð hugmynd hjá Magne að prófa þessi nýju hjól aðeins í rólegheitum á hinum sömu slóðum. Covid hefur semsagt gefið prýðilegt tækifæri til þess.
Niðurstaða okkar er ótvíræð. Við mælum með þessu. Þetta er gaman. „Líklega eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni,“ sagði einn að loknum túrnum. Eina gagnrýnin var þessi: “Þetta er svo gaman að maður gleymir að loka munninum. Maður gleypir þess vegna alltof mikið af flugum.”