Það eru ekki margir sem gengið hafa á Sauðhamarstind við austurjaðar Vatnajökuls í Lónsöræfum. Helsta ástæðan er sú að þessi tignarlegi 1319 m hái tindur er töluvert utan alfaraleiðar, nánar tiltekið upp af Lónsöræfum. Síðan getur verið erfitt að finna leiðina í gegnum klettabeltið og má líkja því við völundarhús. Enda þótt nafnið geti virst fráhrindandi er ganga á Sauðhamarstind frábær upplifun og krefjandi, enda býðst í góðu veðri fádæma gott útsýni, m.a. yfir öll Lónsöræfin, Tröllakróka og Snæfell, en einnig Jökulgilstinda og eystri hluta Vatnajökuls.
Tómas Guðbjartsson skrifar.
Aðeins er ein greiðfær gönguleið á Sauðhamarstind, úr austri frá Lónsöræfum. Tilvalið er að hefja gönguna frá Múlaskála þar sem er að finna snotran skála Ferðafélag Austurlands og snyrtilegt tjaldstæði. Einfaldast er að komast að Múlaskála með sérútbúnum jeppa úr Lóni sem er um 25 km leið inn að Illakambi, en lengra verður ekki komist akandi. Á leiðinni þarf að fara yfir hina víðsjárverðu Skyndidalsá sem getur vaxið gríðarlega í rigningum. Því er ekki ráðlegt að aka að Illakambi nema á mjög vel búnum jeppum, en nokkrir aðila á Höfn og í Lóni hafa tekið að sér þessar ferðir eftir samkomulagi. Þegar komið er á Illakamb er 30-40 mín ganga að Múlaskála. Í fyrstu er gengið meðfram Jökulsá í Lóni og svo farið yfir hana á göngubrú skammt frá skálanum. Tilvalið er að eyða nokkrum dögum í Múlaskála og skoða Tröllakróka, Víðidal og Leiðitungur í dagsferðum. Fyrir sprækt göngufólk er hægt að ganga úr Lóni á einum eða tveimur dögum inn að Múlaskála, sem er stórkostleg gönguleið.
„Í góðu veðri býðst af tindi Sauðhamarstinds ótrúlegt útsýni yfir landið og miðin, m.a. yfir bæði Lónsöræfi og Lón.“
Að rótum Sauðhamarstinds bjóðast tvær stikaðar gönguleiðir frá Múlaskála. Sjálfur kýs ég eystri leiðina, og er þá í fyrstu gengið áleiðis að Illakambi, en áður en þangað er komið er gengið upp litfögur gil uns komið er upp á sléttu þar sem tindurinn blasir við. Þarna sleppir stikunum en afar mikilvægt er að velja rétta leið upp skriðurnar og að því er virðist úr fjarska ófært klettabeltið. Leiðin er hins vegar auðfundnari en margan grunar og er best að taka stefnuna á tilkomumikinn foss sem steypist fram af miðju klettabeltinu. Gengið er upp á mosavaxinn klett vinstra megin við fossinn og síðan á bak við hann. Þá tekur við klettasylla hægra megin við fossinn sem er þrædd nokkur hundruð metra í norður uns komið er að klettum prýddu gili. Þar er lítill lækur og foss við göngustíginn. Þarna er klöngrast upp gilið uns komið er að stalli ofan klettabeltisins. Þar blasir við snjóbrekka upp að Röðli, sem er tilkomumikill hryggur sem vísar veginn upp á Sauðhamarstind. Tilvalið er að toppa fyrst Röðul og þræða síðan hrygginn af honum að Sauðhamarstindi, en hann er sérlega litskrúðugur. Í góðu veðri býðst af tindi Sauðhamarstinds ótrúlegt útsýni yfir landið og miðin, m.a. yfir bæði Lónsöræfi og Lón. Gengin er sama leið niður og verður að finna sama gil og komið var upp, enda aðrar gönguleiðir í klettabeltinu víðsjárverðar.
„Fylgt er stikum uns komið er að Víðibrekkuskerjum, stórkostlegum líparítmyndunum sem gefa þeim í Landmannalaugum ekkert eftir.“
Þegar komið er niður klettabeltið og skriðurnar á Sauðhamarstindi er tilvalið að ganga aðra leið að skálanum en þá sem gengin var um morguninn. Fylgt er stikum uns komið er að Víðibrekkuskerjum, stórkostlegum líparítmyndunum sem gefa þeim í Landmannalaugum ekkert eftir. Neðan þeirra taka við Kambagil þar sem berggangar skera eins og hnífar í gegnum litrík gljúfur og gil. Þessi síðasti hluti göngunnar er algjör litaveisla, enda liggur leiðin í gegnum litskrúðugasta hluta Lónsöræfa og er gengið niður að Jökulsá í Lóni og yfir göngubrúnna að Múlaskála.
Ganga á Sauðhamarstind tekur yfirleitt daginn (6-8 klst.) og aðeins er ráðlagt að leggja á tindinn í góðu veðri, en þokusælt er á þessum slóðum. Ekki þarf að vaða ár en síðasti hluti uppgöngunnar er á snjó og því æskilegt að hafa bæði með mannbrodda og ísöxi.
Myndir: Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson