Markmið sundhópsins Marglyttanna var einfalt – á blaði. Synda boðsund yfir Ermarsundið til þess að vekja athygli á plastmengun í hafi og safna áheitum fyrir Bláa herinn. Þær skiptust á klukkustundalöngum törnum í sjónum og var markmiðið að hver og ein myndi synda 3-4 tarnir.

Sundhópurinn samanstendur af Sigurlaugu Maríu Jónsdóttur, Sigrúnu Þ. Geirsdóttur, Halldóru Gyða Matthíasdóttur, Birnu Bragadóttur, Þóreyju Vilhjálmsdóttur og Brynhildi Ólafsdóttur.

Um borð í Rowena myndaðist nokkurs konar útilegustemning.

Eftir 6 daga bið eftir veðurglugga sem gerði sund yfir Ermarsundið mögulegt, var loksins lagt af stað frá strönd Dover klukkan 6:53 í morgun að staðartíma. Tók þá við 15 klukkustunda boðsund til Cap Griz Nez í Frakklandi, en leið þessi er ein helsta siglinga- og flutningaleið Evrópu og er sjórinn á því svæði seint talinn mjög hreinn. Dæmi voru um stóran ólíuflekk sem þurfti að synda í gegnum, en til þess að takast á við það voru notuð ýmis konar smyrsl og jurtalyf til þess að hreinsa skynfærin.

Fiskibáturinn Rowena var farartæki þeirra Marglytta sem ekki börðust við öldurnar hverju sinni. Hópurinn setti upp hengirúm, útilegustóla og sérstakt klósetttjald og myndaðist góð stemning um borð. Ferðaklósettið var þó ekki mikið notað seinni hluta ferðarinnar vegna veltings. Báturinn sinnti einnig eftirliti með skiptingum sundkvennanna, en lögleg sund yfir Ermarsundið þurfa að fylgja ströngum reglum svo að sundið teljist fullgilt af samtökum Ermarsundsins (e. The English Channel Association).

Samkvæmt sérstökum útsendara Úti var sjórinn í morgun í kringum 17 gráður, fremur úfinn en lægði í kringum hádegisbilið. Þegar að hver og ein Marglytta hafði synt eina umferð voru þær nokkurn veginn á áætlun en töldu að síðustu 4 tímarnir yrðu mikilvægastir, því þar gætu þær lent í mótstreymi sem myndi tefja ferðina heilmikið.

Mikill veltingur myndaðist á seinni helmingi sundsins.

Um fimm leytið á staðartíma hafði bæst aðeins í vind og dregið fyrir sólu, sem gerði sundið meira krefjandi og urðu nokkrar Marglytturnar varar við velgju sem kom og fór. Baráttuandinn var þó hvergi farinn og héldu þær ótrauðar áfram þrátt fyrir minniháttar mótlæti.

Þegar seinni umferð sunda var búin, urðu tvær af Marglyttunum fyrir smá hnjaski. En önnur þeirra datt þegar hún kom um borð í bátinn og hin rak höfuðið í. Bæði slys tilkomin vegna veltings, sem hafði aukist töluvert þegar að líða tók á kvöld. Þær voru hins vegar komnar í franskan sjó og það var ekki á boðstólnum að láta þetta á sig fá. Verkefnið yrði klárað – sama hvað!

Fjórum tímum seinna, eða klukkan 23:00 á staðartíma stigu Marglytturnar á franska jörð. Má segja að ósvikin hamingja hafi verið um borð í Rowena þegar að þessari 15 tíma þrekraun var lokið.

Við hjá Úti óskum Marglyttunum til hamingju með magnaðan árangur.

Á heimasíðu samtakanna Bláa hersins segir að þau séu umhverfissamtök sem leggja áherslu á baráttuna við plastmengun í hafinum með hreinsunarstörfum, hvatningu og vitundavakningu.

Frá stofnun hafa samtökin verið fremst í flokki þegar kemur að hreinsun stranda, hafna  og lóða á Íslandi.  Blái herinn var ásamt Landvernd tilnefndur til norrænu umhverfisverðlaunanna 2018 fyrir verkefnið Hreinsum Ísland og stýrir núna strandhreinsunarlegg verkefnisins. Nánar má lesa um Bláa herinn á www.blaiherinn.is