Ég var mikið á skíðum á yngri árum, æfði með Ármanni og fyrir mér voru skíðin spurning um hraða og frelsi í troðnum brekkum eða púðurleit utanbrautar og af einhverjum ástæðum skildi ég aldrei hvað fólk var að gera á gönguskíðum og skíðaiðkunin þróaðist aldrei yfir í alvöru vetrarferðamennsku. Í seinni tíð var ég farinn að fara á fjallaskíði en á gamals aldri hafði ég ekki gist í tjaldi að vetri til og ekki farið meira en samtals nokkra kílómetra á gönguskíðum.

Andri Snær Magnason skrifar.

Andri á Grænlandi

Ég fékk síðan tilboð sem mér fannst erfitt að hafna. Danskir og grænlenskir vinir mínir ætluðu að fara Heimskautastíginn mikla, Arctic Circle trail sem liggur eftir heimsskautsbaugnum á milli Kangerlussuaq og Sisimiut á vesturströnd Grænlands. Þetta er c.a 160km leið sem liggur frá alþjóðaflugvellinum við jaðar Grænlandsjökuls yfir heiðar og vötn til Sisismiut. Það er kannski ekki bráðsniðugt að hefja gönguskíðaferilinn á 160km ferð með púlku en einhverstaðar verður maður að byrja.

Leiðin liggur yfir heiðar og frosin vötn. Í rauninni ekki þetta dæmigerða hrikalega landslag Grænlands heldur er þetta það litla af Grænlandi sem stendur kannski undir nafni. Við ætluðum að fara þetta á sex dagleiðum og gista ýmist í teepee tjaldi á hreindýraskinnum eða í sæluhúsum sem eru nokkur á leiðinni. Leiðin liggur yfir leiti og hæðir og yfir frosin vötn. Snjórinn var ekki mikill, oftast innan við meter að þykkt svo hríslur stungust upp úr snjónum, héraspor, tófuspor hreindýraspor og sauðnautaspor sáust víða. Þarna hafa Grænlendingar hugsað sér að leggja veg, sem gæti orðið lengsti vegur á Grænlandi.

Slegið upp búðum

Í hverri ferð eru yfirleitt nokkur augnablik sem standa upp úr og sitja í manni. Í þessari ferð var slíkt augnablik. Hópurinn hafði skipst í tvennt, við vorum samtals 13 manns og hundasleði fylgdi okkur með tjaldið og kostinn en sjálfur dró ég hreindýraskinnið sem stóð til að sofa á. Fyrir einhvern misskilning var fyrsta dagleiðin ekki 15 km eins og til stóð, heldur 35km. Það er alltaf erfitt sálfræðilega að ganga lengri leið en væntingar standa til, ekki síst ef það er fyrsta dagleið í 35 stiga frosti. Hópurinn hafði skipst í tvennt, ég var í fremri hópnum en hinn hópurinn hafði dregist talsvert aftur úr. Ég var rennandi blautur af svita en peysan mín klakabrynjuð þannig að maður nam helst ekki staðar. Nú brá svo við að festingin á púlkunni minni brotnaði og ég þurfti að bisa við að laga hana, þannig að ég sagði mínum mönnum að halda áfram, ég myndi bíða eftir hinum hópnum.

Ég fór úr blautu fötunum í úlpuna og beið en ekki bólaði á hópnum og sólin var að hníga til viðar og mér var orðið kalt. Þannig að ég ákvað að ganga af stað enda var sporið eftir félaga mína og hundasleðann mjög greinilegt. Það var logn og svo settist sólin og ég gekk aleinn í tunglskini og yfir mig kom tilfinning um að þetta væru kannski ekki allra æskilegustu aðstæður. Að vera einn á gangi á Grænlandi í tunglskini og frostið var komið í 40 gráður eftir að sólin settist. Þarna er ekki ísbjarnarhætta en ég var samt var um mig, fylgdi sporunum og gekk hóla og hæðir og var farinn að velta fyrir mér hvort ég hefði hugsanlega gengið framhjá náttstað og hvort ég gæti þá grafið mig í fönn þarna einhversstaðar ef skálinn færi ekki að birtast bráðum.

„Að vera aleinn á gangi í 40 stiga frosti þegar hundasleði kemur hljóðlaust yfir hæðina í tunglsljósi. Ég er viss um að það hafi einhverntíma verið til orð yfir þessa tilfinningu.“

Þar sem ég geng upp dálitla brekku í þessum hugsunum verður mér litið upp og sé þar hundasleðann renna hljóðlaust yfir hæðina og yfir mig kom alveg sérstök tilfinning. Ekki bara sérstök tilfinning heldur fannst mér þetta vera 20.000 ára gömul paleo tilfinning einhversstaðar lengst inni í genamenginu. Að vera aleinn á gangi í 40 stiga frosti þegar hundasleði kemur hljóðlaust yfir hæðina í tunglsljósi. Ég er viss um að það hafi einhverntíma verið til orð yfir þessa tilfinningu. Hvernig líður þér? Mér líður eins og ég hafi verið aleinn á ísnum í tungsljósi þegar hundasleði kemur svífandi hljóðlaust yfir hæðina.

Á þessum slóðum er Arctic Circle Trail.