Maður hefur tilhneigingu til að telja Þjórsárdal vera lengra burtu frá Reykjavík heldur en raun ber vitni. Þetta er rétt rúmlega eins og hálfs tíma akstur. Við lögðum af stað, nokkrir bernskufélagar, um hádegisbil úr höfuðborginni. Við vorum komnir á hjólin við Búrfell uppúr þrjú. Heiðskýr haustdagur og loftið brakandi ferskt. Gerist ekki betra fyrir hjólatúr. Ætlunin var að prófa nýja leið.
Texti og myndir: Guðmundur Steingrímsson
Ekki er hægt að fullyrða að hún hafi ekki verið hjóluð áður, þessi leið. Hvað veit maður. Að ferðinni lokinni, um þremur tímum síðar, blasti í öllu falli við að hún hlyti að vera kölluð hér eftir Fimm fossa leiðin. Á henni eru nefnilega fimm fossar.
Maður leggur upp nokkru eftir að farið er yfir brúna við Ísakot, norðan við Búrfell. Svo hjólar maður eftir malarvegi niður með vesturbakka Þjórsár undir stífu augnaráði Heklu. Hún fylgir manni drjúgan hluta leiðarinnar. Eftir stuttan spöl á melum sem þarna eru, er fljótt komið að fyrsta fossinum, Tröllkonuhlaupi. Þá er hjólað áfram suðvestur á bóginn yfir mela til móts við gil í Búrfelli sem þarna sést vel. Þar þarf að finna góðan stað til að vaða yfir Bjarnalæk.
Bjarnalækur er þokkalega breiður. Til þess að vaðið verði gott fyrir hjólafólk þyrfti líklega að merkja góðan stað og hnika til grjóti. Botninn er stórgrýttur og steinarnir sleipir. Straumur og dýpt er minna vandamál. Niður eftir Bjarnalæk, þar sem hann rennur til móts við Þjórsá, kynnumst við tveimur skemmtilegum fossum til viðbótar, áður en horfið er inn í Búrfellsskóg. Þar þarf að bera hjólin nokkuð, þar til maður finnur stíginn sem liggur í gegnum skóglendið. Hann er skemmtilegur til hjólreiða.
Spölurinn að Þjófafossi, sem er æði tilkomumikill, er fjörugur. Við klettana þar er þó betra að skilja hjólin eftir og rölta að fossinum.
Síðasti fossinn er svo sjálfur Hjálparfoss. Á malarveginum sem liggur frá Þjófafossi að Hjálparfossi gefst gott tækifæri til líkamsræktar og um að gera að gefa svolítið í. Það er eitthvað sérstakt við það að hjóla kaflann í gegnum virkjanasvæðið. Búrfellsvirkjunin gamla er merkilegt mannvirki. Skyndilega er manni kippt í mannheima, eftir frábært síðdegi í náttúrunni.
Þá tilfinningu er gott að hugleiða og ræða síðan í heitri Þjórsárdalslaug, en þeirri laug var einmitt riggað upp á árum áður af gallhörðum starfsmönnum virkjanaframkvæmdanna, sem vildu í bað. Á fáum stöðum öðrum mætist þetta tvennt jafnsterkt og í Þjórsárdal: Maður og náttúra.