Matthías Sigurðarson, tannlæknir og fjallamaður, fór nýlega í stórbrotna fjallaskíðaferð á frekar óhefðbundnar slóðir fyrir Íslendinga eða til Slóvakíu. Hann og félagar hans fengu Maríu Gyoriovu, sem starfaði um árabil sem fararstjóri á Íslandi, til að setja saman skíðaferð fyrir hópinn en þeir eru allir með góða reynslu í fjallamennsku. María rekur ferðaskrifstofuna Hikeslovakia þar ytra. Við báðum Matthías um að gefa okkur örlitla innsýn inní þetta ferðalag:

„Við höfðum allir farið í Alpana og  Tatrafjöllin í Slóvakíku hljómuðu eins og nýr og spennandi valkostur. Þessi hæsti hluti Karpatafjalla er 80 kílómetra langur fjallgarður sem er um 2500 metra hár, nánast eins og smækkuð útgáfa af Ölpunum. Næsti flugvöllur er í Búdapest og þangað flýgur Wizz air á á laugardögum svo ferðin var aðlöguð  að því.  Maria sótti okkur út á flugvöll og svo var keyrt norður til Slóvakíu. 

Daginn eftir var gengið upp í fyrsta skálann en þá hafði hinn fararstjórinn bæst í hópinn.  Sofia er pólsk amma og fyrrverandi hermaður sem horfði á okkur með hæfilegri vanþóknun og við vissum ekki alveg við hverju mátti búiast frá þessari smávöxnu konu. Þarna var enginn snjór og máttum við axla skíðin. 

Í fyrsta skálanum, Kotlina Chata, var boðið upp á kojur með sæng.  Súpu og kássu í kvöldmat.  Þetta lagðist vel í okkur og við fórum spenntir að sofa því næsti dagur yrði krefjandi.  Um morguninn voru skinnin sett undir og komið við í hádegismat í öðrum skála. Þá hófst snörp hækkun í Barania skarðið.  Við skinnuðum eins hátt og við gátum og svo tók við  brölt með snjóinn upp í mitti! Sofia leiddi og ekki nóg með að hún tróð alla 900 metrana upp heldur hljóp hún niður til baka að fyrsta manni til að gera slóðina betri fyrir hann.  Hann sagðist hafa óttast mest að hún tæki bakpokann fyrir hann, þá hefði “niðurlægingin” verið fullkomnuð.  Alger virðing fyrir Sofiu var í stein hoggin! 

Sum skörðin voru ekki fyrir lofthrædda. Matti í einu þeirra.

Skyggni var lítið þarna en við sáum þó að niðurleiðin var alveg jafn brött!  Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds að skíða þarna niður enda með minnstu skíðagetuna í hópnum.  Það gekk nú samt bærilega og  við skíðuðum niður 1000m í næsta skála, Zamkovskeho Chata.  Fyrst var gróðurlaust en svo lá leiðin gegnum barrskóg þar sem við skíðuðum fram hjá gæfri fjallageit (chamois). 

Þarna var haldið  upp á afrek dagsins og við nutum bjórsopans af auðmýkt þegar okkur var sagt að hann væri handborinn upp í skálann.  Næsti dagur var léttur.  Komnir upp í næsta skála um hádegi og þeir sem nenntu tóku smá eftirmiðdags skíðatúr en veðrið  var að stríða okkur og færið ekkert sérstakt.  „No beer please” sagði Sofia og tónninn var þannig að enginn dirfðist að koma með aðrar tillögur.  Næsta dag átti nefnilega að fara í gegnum 2 skörð sem bæði fólu í sér 800 metra hækkanir.

Hópurinn með fararstjórum sínum til beggja enda. María lengst til vinstri og hin stranga Sofia til hægri.

Sá dagur rann upp bjartur og fagur!  Úsýnið var ægifagurt úr fyrra skarðinu eftir bratta broddaskinnun. Þurftum að handlanga okkur niður keðju hinum megin og við blasti fjallasalur sem við skíðuðum niður og svo upp aftur gegnum skarð sem heitir upp á ylhýra Járnhliðið.  Þangað þurfti að klöngrast á broddum með skíðin á bakinu…og enn leiddi Sofia.  Niður var svo skíðað og áfram niður að fjallahóteli þar sem heit sauna beið okkar, kærkomin.  Daginn eftir var farin leið sem endaði á tindi þar sem við sáum yfir Low Tatras.  Merkilegt að sjá hve ólíkir þeir eru High Tatras.  Ávalir og kurteisir meðan High Tatras eru illilegir og aggressífir.  Síðasta daginn snerum við við vegna þoku og enduðum á skíðasvæði niður í fjallsrótum, steik og spa. Svo var ekið um nóttina til að ná morgunfluginu heim.  Aldeilis ógleymanleg ferð.  Þetta er samt svæði fyrir lengra komna. Við þurftum mikið að spá í hvernig sólin snerti hlíðarnar og hvenær til að meta færi og snjóflóðahættu.“