Rúmlega 340 manns tóku þátt í Bláfjallagöngunni sem fram fór við hinar bestu aðstæður í Bláfjöllum um helgina. Skíðagöngufélagið Ullur, sem stóð fyrir keppninni, hefur fengið keppnina skráða sem hluta af mótaröðinni Euroloppet sem ætti að verða til þess að erlendum þátttakendum fjölgar til muna.
Í fyrsta skipti í vetur var nægur snjór til að gera langa braut eða 20 kílómetra á gönguskíðasvæðinu í Bláfjöllum en hingað til hefur lengsta sporið sem náðst hefur verið tæpir 5 kílómetrar. Hæglætisveður var á laugardaginn og gerði það upplifunina enn gleðilegri. Þetta var eins og best gerist í Fossavatninu. Gríðarleg ánægja var með skipulag mótsins. Sporið var mjög vel heppnað. Keppt var í 5-10-20 og 40 kílómetra skíðagöngu. Að sjálfsögðu var keppendum boðið í veglegt kökuhlaðborð með brauðtertum og hnallþórum eftir keppnina.