Arnar Pétursson og Elísabet Margeirsdóttir eru langhlauparar ársins 2018 að mati hlaupara og lesenda hlaup.is. Verðlaunin voru afhent í tíunda skipti um helgina. Í öðru sæti höfnuðu Þorbergur Ingi Jónsson og Rannveig Oddsdóttir. Í þriðja sæti lentu Hlynur Andrésson og Elín Edda Sigurðardóttir.

Elísabet er að hljóta nafnbótina fimmta árið í röð og Arnar annað árið í röð. Kosið var á milli sex hlaupara í karlaflokki og sex hlaupara kvennaflokki eftir að lesendur hlaup.is sendu inn tilnefningar. 

Val á hlaupum ársins var einnig kunngjört á verðlaunaafhendingunni. Hlauparöð FH og Bose hlaut titilinn „Götuhlaup ársins 2018“ og Gullspretturinn hlaut titilinn „Utanvegahlaup ársins 2018“. Í flokki götuhlaupa hafnaði Akureyrarhlaup Íslenskra verðbréfa og Átaks í öðru sæti og Icelandair hlaupið í því þriðja. Í flokki utanvegahlaupa hafnaði Snæfellsjökulshlaupið í öðru sæti og Laugavegshlaupið í því þriðja. Rétt eins og með valið á langhlaupurum ársins þá eru það lesendur hlaup.is sem velja hlaup ársins með einkunnagjöfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hlaup.is.