Búið er að leggja rúmlega 8 kílómetra langt gönguskíðaspor í Heiðmörk á hefðbundnum stað við Hjallabraut. Búið er að breyta leiðinni á tveimur stöðum og koma þær breytingar vel út. Þægilegra er að ganga hringinn rangsælis. Nýr vélsleði Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem er sérstaklega gíraður til að geta lagt spor, var notaður í fyrsta sinn við verkið.
Það er samstarfsverkefni Skíðagöngufélagsins Ullar, Reykjavíkurborgar og Skógræktarinnar í Heiðmörk sem stendur að baki þessu framtaki. Búið er að lagfæra stíga og breikka til að gera þetta mögulegt og stefnt er að því að halda áfram að hreinsa grjót og greinar úr brautinni í sumar.
Brautin hentar vel byrjendum en við Þjóðhátíðarlund er nokkuð brött brekka sem endar í þéttu rjóðri og ættu óvanir að fara varlega þar. Plægja eða taka af sér skíðin og ganga niður. Fólksbílafært var um Heiðmörkina í gærkvöldi en best er að fara á jeppa eða jepplingi þegar snjór er nýfallinn því ekki er víst að vegirnir séu greiðfærir þegar svo er. Töluverður fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Heiðmörkina þessa dagana og allir í skýjunum yfir veðrinu, snjónum, sporinu og fegurð lífsins.