Í nýjasta hefti Úti, vetrarheftinu 2019 — sem komið er í búðir, og til áskrifenda — bryddum við upp á þeirri nýbreytni að velja Útiveru ársins. Við stefnum á að gera þetta árlega, hér á ritstjórn Úti. Með þessu viljum við sýna afreksfólki í útivist lotningu okkar og aðdáun.
Íslendingar eiga urmul af ótrúlegum hetjum sem eru okkur hinum miklar og mikilvægar fyrirmyndir. Að þessu sinni — í þetta fyrsta skipti sem við veljum Útiveruna — þurfum við á ritstjórninni ekki að velta vöngum lengi. Hér er niðurstaðan svart á hvítu:
Elísabet Margeirsdóttir – Náttúruhlaupari
Þrautseigja. Ákveðni. Agi. Harka. Styrkur. Þol. Valið á þeirri manneskju sem skarað hefur framúr öðrum á árinu 2018 þegar kemur að ævintýrum, áskorunum og útivist er auðvelt. Rúmlega fjögur hundruð kílómetra hlaup Elísabetar Margeirsdóttur yfir Gobi eyðimörkina í Kína á sér vart samjöfnuð. Þetta er eitt mesta afrek Íslendings fyrr og síðar. Punktur.
Aðrar ótrúlegar Útiverur:
María Ögn Guðmundsdóttir – Hjólakona.
María Ögn átti frábæra endurkomu á árinu 2018 eftir þriggja ára hlé frá keppnum. Hún rústaði Bláalónsþrautinni og hrifsaði gull í Vesturgötunni. Svona á að gera þetta. Skreppa aðeins, stunda smá barneignir, og koma svo aftur miklu betri en áður. Grjóthart.
Rannveig Oddsdóttir – Langhlaupari
Rannveig kom, sá og sigraði í Laugavegshlaupinu. Hún kom í mark á besta tíma íslenskra kvenna fyrr og síðar, 5:16:07. Rannveig er að norðan og hefur hlaupið í um 20 ár, mest götuhlaup. Hún hefur átt við meiðsli að stríða undanfarin ár. Hún lét það ekki stoppa sig. Ótrúleg afrekskona.
Þorbergur Ingi Jónsson – Langhlaupari
Þetta var hlaupaár hjá Þorbergi. Hann sigraði Laugavegshlaupið og gjörsigraði Mt. Esja Ultra Extreme, með því að hlaupa 11 sinnum upp að Steini klukkutíma hraðar en áður hefur verið gert. Já, og svo hljóp hann UTMB hlaupið (Ultra-Trail du Mont Blanc) í september, sem er 170,1 km og eitt erfiðasta hlaup í heimi. Magnaður.
Eiríkur Ingi Jóhannsson – Hjólari
Eiríkur rústaði einstaklingskeppninni í WOW Cyclothon síðasta sumar og hjólaði hringinn í kringum landið á rétt rúmum 56 tímum, sem er níu klukkustundum betri tími en árið áður. Hann bætti brautarmetið frá 2015 um fimm tíma. Eiríkur hefur líka hjólað hringinn um önnur lönd með frábærum árangri, eins og Írland.
Þorvaldur V. Þórsson – Fjallagarpur
Þorvaldur Þórsson, eða Olli eins og margir kalla hann, gekk John Muir stíginn á árinu og sumar dagleiðirnar fór hann á fáránlegum tímum. Lesa má meira um það hér. Olli lauk við að kortleggja, mæla og ganga á hundrað hæstu tinda Íslands fyrir 10 árum og í ár bætti hann um betur og lauk við að ganga á 250 hæstu tinda landsins, eins og lesa má um í nýjasta hefti Úti. Ómetanleg vinna fyrir komandi kynslóðir fjallafólks á Íslandi og ótrúlegt afrek.