Spennan hefur farið vaxandi frá því fimmtudag og náði hámarki á síðustu klukkutímum. Elísabetu hefur tekist hið ótrúlega; að hlaupa samtals 400 kílómetra við svakalegar aðstæður í Gobi eyðimörkinni í Kína. Hún er fyrsta konan í veröldinni til að ljúka hlaupinu á undir 100 tímum, en endanlegur tími Elísabetar var 96 klukkustundir og 54 mínútur.
Þetta hlýtur að teljast með mestu íþróttaafrekum Íslendings fyrr og síðar. Elísabet lýkur keppni fyrst kvenna og í 8. sæti í keppninni allri en einungis 50 hlauparar fá að taka þátt. Yfirburðir Elísabetar eru slíkir að hún er rúmum 40 kílómetrum á undan næstu konu. Hún hefur aðeins sofið í nokkra klukkutíma á síðustu sólarhringum og glímt við ofsakulda og sandfok ofan í kaupið. Ótrúlegt afrek hjá ótrúlegri íþróttakonu.
Fjöldi fólks hefur fylgst með viðureign Elísabetar á Facebook síðu hennar en frásagnir hennar af vettvangi hafa einkennst af æðruleysi og einbeitingu. Hún hefur sjálf sagt að galdurinn við svona löng hlaup felist í góðum undirbúningi og að fylgja áætlun. Ljóst er að allar hennar áætlanir hafa gengið eftir. Þetta er án efa meðal erfiðustu hlaupa í veröldinn.Hún stefndi á að ljúka hlaupinu á undir 100 tímum. Það tókst!