Fjórir gallharðir íslenskir járnkarlar keppa í heimsmeistaramótinu í Ironman í Kona í Hawaii í dag. Þeir Rúnar Örn Ágústsson, Ragnar Guðmundsson, Viðar Bragi Þorsteinsson og Geir Ómarsson munu hefða þátttöku klukkan 17:05 að íslenskum tíma, en þá er ræst í áhugamannaflokki, og að sjálfsögðu byrjað á sundinu. Svo hjólað og endað á maraþoni.

Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu hér og sjá stöðu einstakra keppenda hér.  Rúnar er númer 2094, Ragnar 747, Viðar 1165 og Geir 1361.

„Ég er sultuslakur og mun gera mitt allra besta,“ skrifaði Viðar Bragi á fésbókarsíðu sinni í gær. Aðstæður þykja góðar, en spáð er skýjuðu með rigningu og hægum vindi og „bara“ 27 gráðum, segir Viðar. Það er heitt, en verður víst ekki mikið kaldara á þessum stað og á þessum tíma.

Viðar keppti í Kona fyrir fjórum árum. Um það var gerð mynd sem má sjá hér.

Geir Ómarsson sigraði í sínum aldursflokki í járnkarlinum í Barcelona í fyrra og aflaði sér þannig þátttökurétt í Kona. Af því tilefni var viðtal við hann í Úti. Það má lesa hér.